Viðskipti innlent

Deilur um „örugga eyðingu gagna“ ekki til kasta Hæsta­réttar

Atli Ísleifsson skrifar
Hæstiréttur taldi að hvorki væri unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Gagnaeyðingar.
Hæstiréttur taldi að hvorki væri unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Gagnaeyðingar. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur ákveðið að taka ekki dóm í máli sem snýr að deilum um orðasambandið „örugg eyðing gagna“ til meðferðar.

Fyrirtækið Gagnaeyðing ehf. sóttist eftir leyfi til áfrýjunar eftir að Landsréttur ákvað að hafna kröfu fyrirtækisins um að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála yrði felldur úr gildi.

Forsvarsmenn Gagnaeyðingar voru ósáttir með notkun Íslenska gámafélagsins á orðasambandinu „örugg eyðing gagna“, sem Gagnaeyðing taldi sig hafa skapað vörumerkjavernd á með „umfangsmikilli og langvarandi notkun þess“. Vildi Gagnaeyðing sömuleiðis meina að notkun Íslenska gámafélagsins bryti gegn góðum viðskiptaháttum.

Gagnaeyðing kvartaði á sínum tíma til Neytendastofu vegna málsins. Úr varð að Neytendastofa bannaði Íslenska gámafélaginu að nota orðasambandið, en áfrýjunarnefnd neytendamála úrskurðaði hins vegar í ársbyrjun 2019 að úrskurður Neytendastofu skyldi felldur úr gildi.

Gagnaeyðing leitaði þá til dómstóla, en bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og síðar Landsréttur töldu að Gagnaeyðing hafi hins vegar ekki fært sönnur á að orðasambandið „örugg eyðing gagna“ hefði öðlast nægilegt sérkenni til að unnt væri að fallast á að það nyti vörumerkjaréttar á grundvelli vörumerkjalaga. Því hafi Íslenska gámafélagið ekki geta gerst brotlegt við lög.

Landsréttur komst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu að notkun Íslenska gámafélagsins á orðasambandinu hefði ekki verið slík að hún væri til þess fallin að villst yrði á starfsemi þess og Gagnaeyðingar og þeirri þjónustu sem félögin byðu upp á.

Hæstiréttur taldi að hvorki væri unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Gagnaeyðingar. Sömuleiðis verði ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Dómurinn hafi því ákveðið að hafna beiðninni.

Gagnaeyðing höfðaði á sínum tíma mál gegn bæði Íslenska gámafélaginu og Neytendastofu. Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að Íslenska gámafélagið hafi lagst gegn áfrýjunarbeiðninni en Neytendastofa hafi ekki gert það.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×