Atvinnulíf

„Ég man hvað sjokkið var mikið, að sjá hvað hafði raunverulega átt sér stað“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er gaman að fara yfir starfsferil Eiríks Rafns Rafnssonar sem nú er forstöðumaður stjórnsýslumála hjá rafskútufyrirtækinu Hopp en starfaði áður sem lögreglumaður, sem lögreglufulltrúi hjá Embætti sérstaks saksóknara og síðar sem starfsmaður á Alþingi. Hópmynd til hægri er mynd frá samstöðugöngu lögreglumanna árið 2015.
Það er gaman að fara yfir starfsferil Eiríks Rafns Rafnssonar sem nú er forstöðumaður stjórnsýslumála hjá rafskútufyrirtækinu Hopp en starfaði áður sem lögreglumaður, sem lögreglufulltrúi hjá Embætti sérstaks saksóknara og síðar sem starfsmaður á Alþingi. Hópmynd til hægri er mynd frá samstöðugöngu lögreglumanna árið 2015.

„Ég man mjög vel eftir fyrsta vinnudeginum. Við vorum nokkur að byrja og embættið byrjað að skoða nokkur mál þótt það væri ekki opinbert enn. En ég man hvað sjokkið var mikið, að sjá hvað hafði raunverulega átt sér stað og hversu stórar upphæðir þetta voru,“ segir Eiríkur Rafn Rafnsson þegar hann rifjar upp fyrsta vinnudaginn sinn sem lögreglufulltrúi hjá Embætti sérstaks saksóknara.

Eiríkur Rafn er staddur á Spáni þegar viðtalið er tekið. En starfar að öllu jafna frá Kiel í Þýskalandi þar sem hann býr ásamt sambýliskonu sinni og tveimur börnum. Eiríkur er forstöðumaður stjórnsýslumála hjá Hopp, íslenska rafskútufyrirtækinu sem stofnað var árið 2019, opnaði á Spáni árið 2020 og stefnir á að opna í ellefu öðrum löndum á næstu mánuðum.

„We‘re just getting started“ segir á vefsíðu Hopp, eða Við erum rétt að byrja.

Starfsferill Eiríks byrjaði hins vegar fyrir löngu síðan en Eiríkur starfaði lengi sem lögreglumaður og sem starfsmaður á Alþingi svo eitthvað sé nefnt.  

Við skulum heyra aðeins um það, hvernig vegferðin leiddi Eirík á rafskúturnar.

Eftir stúdentinn fór Eiríkur að vinna hjá Fínum miðli sem var og hét, en það fyrirtæki rak sex útvarpsstöðvar þegar mest var. Þegar Norðurljósin (nú Sýn hf.) keypti Fínan miðil fór Eiríkur að vinna sem rekstrarstjóri á Wunderbar í Lækjargötu; en það var um það leyti sem opnunartími skemmtistaða var gefinn frjáls.Vísir/Vilhelm

Þegar korter í þrjú stemningunni lauk

Eiríkur er fæddur árið 1978, gekk upphaflega í Laugarnesskóla en síðar í Flataskóla og Garðaskóla þegar fjölskyldan flutti í Garðabæinn. Eiríkur var í tvö ár í Versló en kláraði síðan stúdentinn í Fjölbrautarskólanum Breiðholti.

„Maður græðir mest á félagslífinu,“ segir Eiríkur og rifjar meðal annars upp þegar hann sá um markaðssetningu á nemendasýningu. Eftir stúdentinn fór Eiríkur að vinna á kynningardeildinni hjá Fínum miðli sem þá var og hét; en Fínn miðill rak sex útvarpsstöðvar þegar mest lét, þar af FM957 og X-ið.

Þegar Norðurljósin, nú Sýn hf., keyptu Fínan miðil, hætti Eiríkur og fór að reka bar.

Ég var rekstrarstjóri Wunderbar á Lækjargötunni en á menntaskólaárunum hafði ég oft unnið á börum. Fyrst sem glasabarn og síðar barþjónn á nokkrum skemmtistöðum. 

Í minningunni er þetta skemmtilegur tími. Þarna var nýverið búið að gefa opnunartíma skemmtistaða frjálsan og því opið fram eftir öllu en ekki bara biluð stemning til að verða klukkan þrjú,“ 

segir Eiríkur en bætir við:

„Ég ætla samt ekkert að lýsa staðnum sem öðruvísi en stað sem fólk sótti til að drekka bjór. Enda var bjórinn ódýr þarna og stemningin á staðnum endurspeglaði það.“

Á mynd er Eiríkur með hund í óskilamunum á Ljósanótt árið 2015. Eiríkur segir starf lögreglumanna vera mjög gefandi og spennandi starf. Þar vinnur saman þéttur hópur fólks og í starfi lærir maður margt um mannlega hegðun, þótt auðvitað fylgi harmleikir starfinu líka. Eiríkur var enn starfandi í lögreglunni þegar hann fór í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.

Af barnum í lögguna

Að vinna alltaf á kvöldin og næturnar varð þó þreytandi til lengdar og eftir Wunderbar starfaði Eiríkur um tíma í lagerstörfum.

Í byrjun árs 2002 réði hann sig í afleysingar hjá lögreglunni.

Hvernig kom það til?

„Frá þessum tíma í skemmtanalífinu hafði ég eignast félaga sem störfuðu í löggunni og það var kannski kveikjan. Mér fannst þetta spennandi starf, var orðinn 23 ára og fór í Lögregluskólann.“

Um lögreglustarfið segir Eiríkur:

„Að vera í lögreglunni er ótrúlega skemmtilegt og spennandi starf. Þú starfar með þéttum hópi fólks, lærir margt um stjórnsýsluna og margt um mannlega hegðun. Auðvitað mannlega harmleiki líka en almennt er lögreglustarfið mjög gefandi.“

Í þrjú ár starfaði Eiríkur sem lögreglumaður í Ólafsvík og á meðan hann var þar, byrjaði hann í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.

Eins og flestir muna var álagið á lögregluna gífurlega mikið þegar Búsáhaldarbyltingin stóð yfir. Eiríkur upplifði þó byltinguna ekki með beinum hætti sjálfur því hann var í hópi örfárra lögreglumanna sem sáu um öll önnur útköll lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á meðan: Því auðvitað hættu ekki umferðarslys, innbrot og fleira þótt bylting stæði yfir. Vísir/Vilhelm

Búsáhaldabylting og Embætti sérstaks saksóknara

Þegar búsáhaldabyltingin skall á í kjölfar bankahrunsins, var Eiríkur fluttur aftur á höfuðborgarsvæðið, stundaði stjórnmálafræðinámið í háskólanum en vann í hlutastarfi hjá lögreglunni í Hafnarfirði.

Í byltingunni sá fólk og upplifði margt í fyrsta sinn. Ekki aðeins reiðina gagnvart útrásarvíkingum og bankahruni, heldur einnig reiði gagnvart yfirvöldum og þingmönnum.

Og gagnvart lögreglunni.

Það er því ekki úr vegi að spyrja Eirík hvort hann hafi verið einn þeirra lögreglumanna sem voru í miðbænum þegar byltingin stóð sem hæst.

Svo reyndist ekki vera en Eiríkur segir:

„Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því að þótt byltingin hafi verið í gangi, stoppaði ekkert annað hjá lögreglunni á meðan. Það voru áfram innbrot og umferðarslys svo ég taki dæmi. Ég man ekki hvort við vorum fjórir eða sex sem vorum meira og minna að sinna öllum öðrum útköllum á höfuðborgarsvæðinu, enda þurfti allur liðsaukinn að vera niður í bæ. Þangað var meira að segja verið að kalla til fleiri lögreglumenn frá Akureyri, Egilstöðum og víðar.“

Hvernig upplifun var þetta samt að vera lögreglumaður á þessum tíma?

Auðvitað frekar sérstakt og ég man til dæmis eftir því að hafa verið komin heim eftir tólf tíma vakt, búinn að vera að hlusta á í talstöðinni og sjá í fréttum hvað menn voru orðnir dauðþreyttir. 

Því þarna voru lögreglumenn jafnvel að reyna að leggja sig í skúmaskotum inni í Alþingishúsi til að ná smá hvíld. 

Þrátt fyrir að hafa verið að klára langa vakt, hringdi ég í aðalvarðstjórann og bauð mig fram til þess að fara niður í bæ. 

Því manni langaði að leggja félögunum lið og ég myndi segja að þetta dæmi skýri vel út hvernig manni leið á þessum tíma.“

Fljótlega eftir Búsáhaldabyltinguna var Embætti sérstaks saksóknara stofnað. Eiríkur segir að þá hafi opnast tækifæri fyrir ný störf þar sem sérstaklega var falast eftir lögreglumönnum sem hefðu háskólamenntun.

Sem lögreglufulltrúi starfaði Eiríkur hjá embættinu til ársins 2016.

Í starfinu þarna segir Eiríkur lífsins alvöru hafa tekið við í kjölfar bankahruns. Rannsaka þurfti mikið af gögnum og það féll í skaut Eiríks og samstarfsaðila hans að skoða sérstaklega öll rafræn gögn.

„Við vorum tveir í þessu og þetta var heilmikil vinna: Að skoða hvaða gögn væru til, hvað væri hægt að fá út úr þeim, tengja þau við réttafarslegan prósess þar sem allt þarf að standa fyrir dómi. Mér fannst ég þarna læra hversu mikilvægt það er að vera með góða yfirsýn og passa sig á því að hlaupa ekki of hratt. Enda alvarlegt verkefni að vinna að, vitandi það að mögulega verði menn dæmdir til fangelsisvistar vegna flókinna mála; þetta huglæga mat hvenær gjörningur var léleg ákvarðanataka eða hvenær hann var vilji til að brjóta af sér.“

Fannst þér þetta starf hafa mótandi áhrif á þig, eða fylgdi því jafnvel einhver tilfinning sambærileg og þegar að maður starfar að einhverju af hugsjón?

„Nei mér fannst þetta starf aldrei neitt þannig. Heldur frekar verkefni sem við þurftum að sinna og leysa úr. Fyrir mér var þetta því aldrei neitt uppgjör á hruninu sem gekk út á að ná einhverjum vondum körlum í jakkafötum. Alls ekki.“

Saga Eiríks og sambýliskonu hans Alexöndru Schulz frá Kiel er skemmtileg því árið 2016 keypti Eiríkur tvo miða á tónleika í Evrópu með Postmodern Jukebox og setti færslu um það af rælni inn á erlenda stefnumótasíðu. Það gekk vonum framar en í dag eiga Eiríkur og Alexandra tvö börn saman. Á myndum má sjá: Eirík með soninn Jakob í Kringlu Alþingishússins og Eirík og Alexöndru í reiðtúr í Syðra Langholti nokkrum dögum eftir að þau hittust í fyrsta sinn. 

Ást og pólitík

Eiríkur á tvær dætur með fyrri sambýliskonu sinni; sú elsta fæddist árið 2008 og heitir Arna María, sú yngri fæddist árið 2013 og heitir Brynja Kristín. Upp úr þessu sambandi slitnaði en árið 2016 dró til tíðinda á ný hjá Eiríki í ástarmálunum.

„Ég hafði verið að fylgjast með hljómsveit á Youtube sem heitir Postmodern Jukebox og hefur gert marga góða hluti. Þegar að ég sá að þeir yrðu með tónleika í Evrópu, keypti ég tvo miða þótt ég væri bara einn.“

Á tónleikana fór hann þó með núverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður, Alexöndru Schulz.

Hvernig kom það til?

„Ég bara keypti þessa tvo miða og fyrir hálfgerða rælni lét ég vita af því á einhverri svona deitingsíðu. Sem einfaldlega endaði svona vel því við vorum orðin kærustupar einhverjum mánuðum síðar. En það má segja að þetta hafi allt saman byrjað á netinu,“ segir Eiríkur og brosir.

Í dag eiga Alexandra og Eiríkur tvö börn; Jakob Þór sem fæddist árið 2017 og Fríðu Sólveigu sem fæddist árið 2020.

Alexandra er kennari frá Kiel þar sem fjölskyldan býr nú.

En ný ást og fleiri börn voru ekki einu breytingarnar hjá Eiríki árin eftir starfið fyrir saksóknara. Því eftir þann tíma, viðurkennir Eiríkur að hafa hugleitt stjórnmálin svolítið vel og hvort hann ætti að demba sér með meiri virkni í pólitík.

Ég kynnti mér reyndar alla flokka vel. En man enn þegar að ég ákvað að ganga til liðs við Pírata. Þá var ég að hlusta á einhverjar umræður á Alþingi þegar Helgi Hrafn stígur upp í pontu og segir eitthvað á þessa leið: „Ég verð að viðurkenna að mér hafði ekki dottið í hug þetta sjónarhorn. Þannig að ég skipti um skoðun og styð frumvarpið.“ 

Og ég man bara að ég hugsaði: Bíddu hvað var þetta eiginlega? 

Var ég virkilega að fylgjast með þingmanni viðurkenna það að eftir að hafa fengið meiri og betri upplýsingar, þá var í lagi að skipta um skoðun?“

Eiríkur segist reyndar ekkert muna nákvæmlega um hvað verið var tala um en þarna upplifið hann algjörlega nýjan tón í pólitík.

Að það væri í lagi að skipta um skoðun þegar gögn og upplýsingar gæfu tilefni til.

Eiríkur skráði sig í flokkinn og fór fljótlega að taka virkan þátt í flokkstarfinu.

„Ég var í kosningastjórn árið 2016 og það verður að segjast að það er rosalega gaman að taka þátt í kosningum. Þetta var líka merkilegur tími því að Píratar voru að vekja athygli víða um heim og oft var maður því í samskiptum við erlenda aðila. Enda er þetta í kjölfar Panama klúðursins sem leiddi til þess að stjórnin sprakk í loft upp og boðað var til kosninga.“

Eiríkur segir þó að fyrst og fremst hafi það auðvitað verið stefna Pírata sem hann samsvaraði sig vel við. Og eins sé mjög gaman að taka virkan þátt í flokkstarfi því þar sé grasrótin svo virk í að hafa áhrif.

Eftir kosningar flutti Eiríkur út til Kiel og ákvað að þreifa fyrir sér með vinnu þar. Áður en sonurinn fæddist, ákváðu skötuhjúin þó að flytja til Íslands, enda betur staðið að málum á Íslandi varðandi fæðingarorlof og fleira.

Í smá tíma eftir heimkomuna starfaði Eiríkur sem leiðsögumaður en þegar Píratar auglýstu starf aðstoðarmanns þingflokks, ákvað Eiríkur að slá til og sótti um.

Á mynd má sjá Eirík og Baldur Karl Magnússon, framkvæmdastjóra þingflokks Pírata á Aðalfundi Pírata árið 2019. Eiríkur hefur tekið virkan þátt í flokkstarfi Pírata frá árinu 2016 og starfaði sem aðstoðarmaður þingflokks Pírata tímabilið 2017-2021. Eiríkur hrósar mikið starfsfólki Alþingis og þá sérstaklega starfsfólki fastanefnda og þingvörðunum.

Árin á Alþingi

Sem aðstoðarmaður þingsflokks Pírata starfaði Eiríkur frá árinu 2017 til ársins 2021. Sem hann segir hafa verið skemmtilegan tíma.

„Fólk sér bara myndir af þingfundum en starfið sem fer fram á Alþingi er miklu meira. Þingfundirnir eru formlegasti hluti starfsins en það er á nefndarfundunum sem umræður fara fram.“

Þá má ekki gleyma því að á Alþingi starfar fjöldinn allur af fólki þótt það sé ekki pólitískt ráðið.

„Að öllum öðrum ólöstuðum nefni ég starfsfólk fastanefndanna sérstaklega því það fólk vinnur ótrúlega gott og mikilvægt starf; heldur utan um nefndarfundina og er þetta mikilvæga lím. En ég ber líka ómælda virðingu fyrir þingvörðunum. Þeir sjá ekki aðeins um alla öryggisgæslu heldur þekkja allt og alla og eru alltaf tilbúnir til að aðstoða, sama hvaða mál kemur upp eða hvað þarf að gera. Almennt myndi ég líka segja að það sem einkennir starfsfólkið á Alþingi er að þarna er fjölmennur hópur af mjög þjálfuðu og vel völdu fólki að vinna.“

Þegar talið berst að vinnutímanum segir Eiríkur að hann hafi verið svo heppinn að þegar hann byrjaði sem aðstoðarmaður þingflokksins var búið að breyta reglunum þannig að þeir voru tveir en ekki einn.

Sem Eiríkur segir skipta mjög miklu máli.

„Það er enginn þingmaður sem kemst yfir það að lesa eða kynna sér öll gögn um öll mál. Það er hreinlega ekki hægt. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þingmenn hafi aðstoðarfólk að treysta á. Vinnutíminn gat jú alveg verið óreglulegur og Alþingi er ekki beint fjölskylduvænn vinnustaður. Hins vegar hjálpaði það mikið til að þegar að maður þurfti til dæmis að sækja á leikskólann, vorum við tveir en ekki einn.“

Eiríkur segir mjög mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvers vegna fullt tilefni sé til að styðja sem mest og best við starf þingmanna.

„Að halda fókus og kynna sér öll mál getur verið rosalega mikil og erfið vinna. Mörg mál rata inn á borð fastanefnda og þangað berast líka athugasemdir frá hagsmunaaðilum og svo framvegis. En ef við viljum halda í þessa þrískiptingu valds og tryggja að löggjafarvaldið nái að standa undir sínu, þarf að tryggja þá pólitísku styrkingu sem starf þingmanna kallar á.“

Aðspurður um það hvort hann sæi fyrir sér að fara einhvern tíma seinna á lífsleiðinni í pólitík segir Eiríkur:

„Nei í augnablikinu get ég nú ekki sagt að ég sé neitt að hugsa um það.“

Eiríkur býr í Kiel í Þýskalandi sem hann segir henta starfinu hjá Hopp afar vel. Því það kalli stundum á fundi á meginlandi Evrópu og þá er mun vistvænna að hann ferðist um með lest fremur en frá Íslandi. Eiríkur segir vöxt Hopp mikinn og góðan enda fyrirhugað að opna Hopp í ellefu löndum á næstu mánuðum. Vísir/Vilhelm

Hopp og heimurinn

Eiríkur tók þátt í starfi Pírata fyrir kosningarnar til Alþingis árið 2016, 2017 og 2021 og sveitastjórnarkosningar árið 2018.

Samningar aðstoðarfólks þingflokks virka hins vegar þannig að í lok hvers kjörtímabils eru þeir lausir. Börnin voru þá orðin tvö og ákváðu Eiríkur og Alexandra að flytja aftur út til Kiel í fyrrahaust.

„Hún fór þá aftur að kenna og okkur fannst bara vera kominn tími á að fókusera meira á hennar starfsframa, ekki bara minn,“ segir Eiríkur.

Í desember árið 2021 sá Eiríkur auglýst starf hjá Hopp á Íslandi. Hann sendi inn umsókn, var tilkynntur í starfið í mars og fékk þann virðulega titil ,,Director of Government Partnerships.“

Sem á íslensku var þýtt sem forstöðumaður stjórnsýslumála.

„Það tók okkur reyndar nokkra daga og var smá hugmyndabrölt að þýða þetta á íslensku. Ekki það að stöðuheiti eða titill skipti mig miklu máli. En Hopp er íslenskt fyrirtæki og þótt stefnan sé að verða stór úti í heimi, finnst mér frekar hallærislegt þegar íslensk fyrirtæki eru bara með starfsheitin sín á ensku.“

Starf Eiríks felur í sér að gera samninga og vera í reglulegum samskiptum við stjórnsýsluna á hverjum stað þar sem Hopp starfar. Fyrsti staðurinn sem Hopp opnaði á utan landsteinana var á Spáni. Það var árið 2020.

Að sögn Eiríks er stefnt að því að opna Hopp í ellefu löndum á næstu mánuðum. Vöxturinn hjá fyrirtækinu sé því bæði mikill og góður.

En hvernig gengur að starfa fyrir Hopp frá Kiel?

Það fellur reyndar sérstaklega vel að okkar gildum. Því þótt ég sé mikið í fjarvinnu eru alltaf einhverjir fundir sem ég þarf að mæta á í eigin persónu á meginlandinu.

 Og þá er miklu vistvænna að ég ferðist með lest frekar en að ferðast frá Íslandi.“

Í Kiel segist Eiríkur vera duglegur að starfa frá kaffihúsi rétt hjá heimilinu. Enda henti það honum betur að vinna innan um fólk.

„Þetta er kaffihús sem gerir út á fólk í fjarvinnu og þar eru flestir fastagestir sem maður er farinn að þekkja. Enda stendur maður þá reglulega upp, fær sér kaffi eða samloku í hádeginu og spjallar við fólk.“

Þótt Eiríkur sé sá aðili sem sveitastjórnir og stjórnsýsla talar kannski fyrst við þegar eitthvað er, segir hann samskipti Hopp við sveitastjórnir í daglegu lífi meira fara fram í gegnum þá leyfishafa sem reka Hopp á hverjum stað. „Og eru þá fólkið sem þekkir líka alla staðhætti.“

Samskiptin hans séu því oft við það fólk. Eins er alltaf verið að leita af nýjum sérleyfishöfum eða hitta fólk sem hefur áhuga á að gerast sérleyfishafi.

Hann segir starfið afar skemmtilegt, hann starfi líka með skemmtilegu fólki og það sé gaman að taka þátt í fyrirtæki sem er í svona miklum og góðum vexti og margt spennandi að gerast framundan.

„En síðan er þetta líka bara vinna hjá mér eins og margir þekkja. Alls konar verkefni sem dúkka upp þótt þau endurspegli ekkert það sem starfsheitið segir. En maður bara gengur í og passar að gera allt það sem þarf að gera hverju sinni.“


Tengdar fréttir

„Fannst ég þurfa að prófa eitthvað annað en það sem pabbi var að gera“

„Með náminu í Bandaríkjunum vann ég um tíma í starfsnámi í iðnaðarráðuneyti fylkisins og það fyrsta sem þeir sögðu mér að gera var að „fara þarna út og kanna hvað þetta internet væri; Hvort það væri kannski einhver business tækifæri í því,“ segir Friðrik Þór Snorrason forstjóri Verna trygginga og hlær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×