Umræðan

Fjöl­miðla­frelsi og miðlun inn­herja­upp­lýsinga

Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Blaðamönnum er heimilt að veita heimildarmönnum sínum innherjaupplýsingar að því marki sem slík upplýsingagjöf telst nauðsynleg í þágu starfs þeirra. Þetta er niðurstaða dómstóls Evrópusambandsins í nýlegu máli franska fjármálaeftirlitsins gegn viðskiptablaðamanni á breska fjölmiðlinum Daily Mail.

Franska fjármálaeftirlitið hafði áður sektað umræddan blaðamann fyrir að láta tvo af heimildarmönnum sínum vita af frétt sem hann hugðist birta um orðróm er varðaði möguleg yfirtökutilboð í tvö félög í frönsku kauphöllinni. Fyrrnefndir heimildarmenn keyptu hlutabréf í félögunum skömmu áður en fréttin var birt en í kjölfar birtingar fréttarinnar snarhækkuðu bréfin í verði. Að mati franska fjármálaeftirlitsins lét blaðamaðurinn heimildarmönnum sínum í té viðkvæmar innherjaupplýsingar sem þeir síðarnefndu nýttu sér til hagsbóta.

Áfrýjunardómstóll í París ákvað að leita forúrskurðar dómstóls Evrópusambandsins um meðal annars tvö áhugaverð álitamál, í ofangreindu sambandi, sem vörðuðu túlkun á ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik, MAR, sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt.

Annars vegar var dómstóllinn spurður að því hvort upplýsingar um fyrirhugaða birtingu á frétt er varðaði orðróm um yfirtöku á skráðum félögum gætu talist vera „nægilega tilgreindar“ til þess að teljast til innherjaupplýsinga í skilningi MAR. Dómstóllinn svaraði þeirri spurningu játandi, þó að því gefnu að það kæmi meðal annars fram í upplýsingunum hvert yfirtökuverðið væri, hvert væri nafn viðkomandi blaðamanns og hvaða fjölmiðill hefði í hyggju að birta fréttina.

Franska fjármálaeftirlitið hafði áður sektað blaðamann fyrir að láta tvo af heimildarmönnum sínum vita af frétt sem hann hugðist birta um orðróm er varðaði möguleg yfirtökutilboð í tvö félög í frönsku kauphöllinni.

Hins vegar var leitað úrskurðar dómstólsins um það hvort víkja mætti frá meginreglu MAR um ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga þegar um væri að ræða blaðamann sem þyrfti, starfs síns vegna, óhjákvæmilega að miðla innherjaupplýsingum til þriðja aðila. Dómstóllinn svaraði því svo til að réttlæta mætti miðlun innherjaupplýsinga með vísan til sjónarmiða um frelsi fjölmiðla og tjáningar. Það gæti til dæmis átt við í tilfellum þegar blaðamenn þyrftu – áður en frétt væri birt – að staðreyna sannleiksgildi nánar tilgreinds orðróms. Aftur á móti var tekið fram í forúrskurði dómstólsins að miðlun blaðamanns á innherjaupplýsingum væri aðeins lögmæt ef hún (i) væri talin nauðsynleg til þess að hann gæti sinnt starfi sínu og (ii) samræmdist sjónarmiðum um meðalhóf.

Að mati dómstóls Evrópusambandsins þarf franski áfrýjunardómstóllinn þannig að leggja mat á hvort viðkomandi blaðamanni hafi – í því skyni að staðreyna umræddan orðróm – borið nauðsyn til þess að veita þriðja aðila upplýsingar um ekki aðeins orðróminn sem slíkan, heldur jafnframt að til hafi staðið að birta frétt um orðróminn.

Því til viðbótar þarf að fara fram mat á því fyrir franska áfrýjunardómstólnum hvort slík takmörkun á prentfrelsi fjölmiðla, sem fælist í banni við miðlun þeirra upplýsinga sem hér um ræðir, gengi of langt í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi.

Það eitt að upplýsingar varði orðróm þýðir ekki endilega að þær séu of almennar eða óljósar til þess að draga megi ályktun um möguleg áhrif þeirra á væntingar fjárfesta og þar með hlutabréfaverð.

Í því sambandi má hafa í huga að ákvæði 21. gr. MAR, sem kveður á um að miðlun eða dreifing upplýsinga í fjölmiðlum skuli vera metin með tilliti til meðal annars sjónarmiða um fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi, er einmitt ætlað að veita blaðamönnum fullnægjandi svigrúm til þess að sinna því hlutverki sínu að miðla upplýsingum til almennings án þess að eiga á hættu að vera dæmdir fyrir markaðssvik.

Hvenær er miðlun upplýsinga nauðsynleg?

Ályktanirnar sem draga má af umræddum dómi eru tvenns konar:

Annars vegar er dómurinn enn ein áminningin um að ekki þarf mikið til þess að upplýsingar verði taldar „nægilega tilgreindar” til þess að þær teljist til innherjaupplýsinga. Það eitt að upplýsingar varði orðróm þýðir ekki endilega að þær séu of almennar eða óljósar til þess að draga megi ályktun um möguleg áhrif þeirra á væntingar fjárfesta og þar með hlutabréfaverð. Er dómurinn að þessu leyti í samræmi við evrópska dómaframkvæmd þar sem litið hefur verið svo á að upplýsingar geti talist til innherjaupplýsinga jafnvel þótt þær séu háðar umtalsverðri óvissu.

Hins vegar er dómurinn til þess fallinn að hamla störfum blaðamanna með því að gera þá kröfu til þeirra að þeir veiti heimildarmönnum sínum aðeins upplýsingar að því marki sem „nauðsynlegt“ er í þágu starfs þeirra sem blaðamenn.

Þannig skapar dómurinn ákveðna óvissu fyrir blaðamenn. Hvenær ætti, svo dæmi sé tekið, að líta svo á að miðlun upplýsinga til þriðja aðila sé „nauðsynleg“ í framangreindum skilningi? Er það í tilfellum þegar heimildarmaður neitar að gefa upp upplýsingar nema hann fái vitneskju um dagsetningu og efni fyrirhugaðrar fréttar? Hvað ef blaðamaður gefur óvart upp meiri upplýsingar en „nauðsynlegt“ er talið?

Ákjósanlegra væri að gera vægari kröfur til blaðamanna að þessu leyti og leggja, svo dæmi sé nefnt, bann við því að þeir miðli upplýsingum í tilfellum þegar miðlunin er í engum tengslum við hefðbundið starf þeirra.

Í framangreindu sambandi þarf að hafa í huga að ströng viðurlög geta legið við ólögmætri miðlun innherjaupplýsinga – viðurlög sem geta dregið verulega úr hvata blaðamanna til þess að afla upplýsinga og hafa samband við heimildarmenn til þess að staðfesta sannleiksgildi orðróms.

Sú krafa sem áðurnefndur dómur dómstóls Evrópusambandsins gerir til blaðamanna um að láta heimildarmönnum sínum eingöngu í té upplýsingar sem „nauðsynlegar“ eru í þágu starfs þeirra felur það í reynd í sér að blaðamenn þurfa, í hvert sinn sem þeir eiga í samskiptum við heimildarmenn sína, að leggja sérstakt mat á eðli og nauðsyn þeirra upplýsinga sem þeir miðla. Slíkt mat er eðli máls samkvæmt vandasamt og til þess fallið, líkt og fyrr segir, að hamla eðlilegum störfum blaðamanna. Ákjósanlegra væri að gera vægari kröfur til blaðamanna að þessu leyti og leggja, svo dæmi sé nefnt, bann við því að þeir miðli upplýsingum í tilfellum þegar miðlunin er í engum tengslum við hefðbundið starf þeirra.

Hvað ofangreint varðar er loks mikilvægt að hafa í huga að reglur um innherjasvik gilda, hvað sem öðru líður, fullum fetum um alla þá sem notfæra sér innherjaupplýsingar sem fengnar hafa verið frá blaðamönnum – óháð því hvort upplýsingagjöfin af hálfu viðkomandi blaðamanns hafi verið lögmæt eða ekki.

Höfundur er fulltrúi á LEX lögmannsstofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×