Umræðan

Sjálfsvígsheimsvaldastefna Kremlar

Nina L Khrushcheva skrifar

Leita þarf aftur til tíma Sovétríkjanna til að heyra ámóta orwellíska ræðu og þá sem Vladimir Pútín, forseti Rússlands, flutti þegar hann lýsti því yfir að fjögur úkraínsk héruð væru nú orðin hluti af Rússlandi. Rétt eins og kommúnismanum var eitt sinn ætlað að bjarga mannkyninu frá ógnum heimsvaldastefnunnar, þá stendur Rússland, samkvæmt því sem haldið er fram, vörð um rétt landa til að verjast „nýrri nýlendustefnu” sem breytir þeim í vestræn leppríki. 

Í Rússlandi Pútíns er stríð friður, þrældómur er frelsi, fáfræði er styrkur og að innlima landsvæði annars þjóðríkis er lögleg aðgerð í baráttunni gegn nýlendustefnu.

Í huga Pútíns er hann að berjast gegn sögulegu óréttlæti, þar sem hin innlimuðu landsvæði – Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia – voru eitt sinn angi Nýja Rússlands (Novorossiya) eftir að Katrín mikla gerði þau hluta af rússneska keisaradæminu. Í hans augum er hann að standa uppi í hárinu á hinum vestræna heimi – einkum og sér lagi Bandaríkjunum sem hafa að hans sögn mergsogið og stjórnað flestu frá Kalda stríðinu – fyrir hönd allra sem standa utan vestursins.

Í Rússlandi Pútíns er stríð friður, þrældómur er frelsi, fáfræði er styrkur og að innlima landsvæði annars þjóðríkis er lögleg aðgerð í baráttunni gegn nýlendustefnu.

Ég kann að meta vel skrifaða áróðursræðu, enda hef ég kennt fræði þeim tengdum árum saman. En frá leiðtoga lands sem hefur fest sig í sessi í miðju tveggja heimsvelda, með önnur lönd sem leppríki, er orðræða Pútíns einfaldlega of yfirdrifin.

Ræða Pútíns átti það sameiginlegt með ræðum fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna að ekki örlaði fyrir votti af málamiðlun. En Pútín er þó jafnvel enn ákveðnari og beinskeyttari í sínum málflutningi, sem er innblásinn af rússneska heimspekingnum Ivan Ilvyn –  andlegum leiðtoga Pútín.

Ilvyn hataði kommúnisma. Raunar mærði hann Adolf Hitler fyrir að bjarga Evrópu frá rauðu hættunni. Þegar hann fluttist til Sviss áður en síðari heimstyrjöldin hófst var talið að hann væri meðal útsendara áróðursmálaráðherra nasista, Jóseps Göbbels. 

En það er tilgangslaust að reyna að sjá rökrétt samhengi í málflutningi Pútín. Á sama tíma og hann endurómar kenningar Ilvyn um yfirburði Rússlands gagnvart öðrum, þá ber hann vestræna leiðtoga sem „ljúga“ saman við Göbbels og réttlætir „sérstaka hernaðaðgerð“ sína með því að verið sé að hreinsa Úkraínu af nasisma (land hvers forseti er af gyðingaættum).

Þetta er „þversögn alræðisins“: Því veikara sem ríkið er, því lengra er gengið í því að svipta almenning grunnréttindum sínum.

Eins fráleit og hún var, þá var ekkert sem kom á óvart í ræðunni sem Pútín hélt í tilefni innlimunar úkraínsku landsvæðanna. Á undanförnum vikum hefur Rússland orðið fyrir hverju öðru, hernaðarlegu áfallinu í norðaustur Úkraínu. Að sýna veikleika er óhugsandi í huga Pútín og þar af leiðandi bætir hann upp dapurt gengi á vígvellinum með sífellt meira ógnandi málflutningi. Eftir því sem tap Rússlands í stríðinu verður augljósara, því meiri áherslu leggur Pútín á að það sé einmitt ekki raunin.

Þetta er „þversögn alræðisins“: Því veikara sem ríkið er, því lengra er gengið í því að svipta almenning grunnréttindum sínum. Sú saklausa athöfn að standa fyrir frásögn af vígvellinum sem er ekki að fullu í samræmi við línuna frá Kreml flokkast nú sem „dreifing falskra upplýsinga.“ Frá því í mars hafa refsingar legið við slíku í Rússlandi, bæði í formi sekta og fangelsisvistar. 

Ríki sem er komið á þennan stað getur ekki leyst grundvallarvandamál sem við því blasa. Eina ráðið er að draga úr trúverðugleika þeirra sem vilja aðrar lausnir og kremja alla andstöðu.

Þetta er Pútín-sýningin og minnstu vísbendingar um að einhver telji að hluti fata keisarans vanti gætu þýtt ákærur eða ótímabæran dauðdaga.

En ekki allir Rússar trúa málflutningi Pútín. Frá því að forsetinn lýsti yfir „herkvaðningu að hluta“ þann 21. september síðastliðinn hafa að minnsta kosti 200 þúsund manns flúið yfir til nágrannalanda. Þeir Rússar sem hafa flúið heimalandið vilja frekar sofa á gólfi verslunarmiðstöðvar í Astana, höfuðborg Kasakstan, en að berjast í stríði Pútíns í Úkraínu. Mun þetta kalla á enn meiri viðbrögð frá Pútín? Styttist í það að herlög verði sett í landinu?

Innri hring Pútíns stendur heldur ekki á sama um nýjustu vendingar. Á meðan þeir halda opinberu Kremlarlínunni út á við, þá mátti sjá nokkra lykilmenn steinrunna á svip og vera heldur ósannfærandi í lófaklappi sínu þegar Pútín hélt innlimunarræðuna. Þar var um að ræða fyrrverandi forsetann Dmitry Medvedev, Dmitry Peskov, talsmann Kreml og aðalritara öryggisráðs landsins, Nikolai Patrushev. Rétt eins og sovéskir embættismenn í æðstu stöðum vissu á sínum tíma, vita þessir menn að þeir verða að halda andliti, aga og hlýðni. Þetta er Pútín-sýningin og minnstu vísbendingar um að einhver telji að hluti fata keisarans vanti gætu þýtt ákærur eða ótímabæran dauðdaga.

Er þarna um að ræða annan anga þversagnar alræðisins. Þegar allt vald safnast á hönd eins einstaklings þá versnar öll stjórnun. Vanhugsaðar eða beinlínis slæmar ákvarðanir eru frekar teknar þegar enga öryggisventla er að finna í stjórnskipuninni. Að ögra leiðtoganum, til dæmis með að benda á mistök, getur haft þær afleiðingar að viðkomandi tapar öllu.

Rétt eins og margir Rússar flýja nú þátttöku í stríðinu í Úkraínu, er ólíklegt að framtíðarleiðtogar Rússlands munu hampa heimsvaldaarfleifð hans og þeim vandamálum sem hún hefur skapað.

Enginn af ráðgjöfum Pútíns er líklegur til að benda honum á að stríðið í Úkraínu er strategískt stórslys fyrir Rússland. Þeir munu ekki benda honum á að upprunalegt markmið muni ekki nást – að ganga fylktu liði inn í Kiyv og sameina rússneskar lendur á ný. Þeir munu ekki útskýra að alþjóðasamfélagið mun aldrei samþykkja nýjustu innlimanir hans á landsvæðum Úkraínu. Þetta er sannleikurinn sem Pútín vonast til að hylma yfir með því að veifa kjarnorkuvopnum framan í fólk.

Einhvern daginn munu stjórnvöld í Rússlandi vilja bæta samskiptin við heiminn að nýju, þó ekki væri nema fyrir efnahagslegar ástæður. Landsvæðin sem voru ólöglega innlimuð í Rússland munu mynda mikla hindrun í vegi slíkra framfara. Fá ríki gefa eftir landsvæði sjálfviljug og það verður alltaf til fólk í Rússlandi, sem aðhyllast annað hvort Pútín eða Ilvyn, sem munu hafa uppi hróp um landráð ef einhver framtíðarleiðtogi Rússlands myndi gefa eftir Donbas eða Kherson. Svo ekki sé talað um Krímskaga.

Pútín vill láta muna eftir sér sem sóma, sverði og skildi Rússlands. Hann gæti jafnvel látið skrifa það í einhverjar sögubækur. En rétt eins og margir Rússar flýja nú þátttöku í stríðinu í Úkraínu, er ólíklegt að framtíðarleiðtogar Rússlands munu hampa heimsvaldaarfleifð hans og þeim vandamálum sem hún hefur skapað.


Nina L Khrushcheva er prófessor í alþjóðastjórnmálum við The New School í New York. Hún er annar höfunda In Putin’s Footsteps: Searching for the Soul of an Empire Across Russia’s Eleven Time Zones sem kom út árið 2019. Hún fæddist í Moskvu og er barnabarn Nikita Khrushchev, aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna 1953 til 1964. @Project Syndicate, 2022



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×