Umræðan

Mismunandi leiðir inn á markaðinn II

Baldur Thorlacius skrifar

Í fyrri hluta þessa pistils fór ég yfir mögulegan ábata af því að skrá hlutabréf á markað. Þegar fyrirtæki vita hvað þau vilja fá út úr skráningu er næsta skref að skoða hvernig þau ætla að framkvæma hana. Fyrsta skref er að velja markað. Hér á landi býður Nasdaq upp á skráningu á tvo markaði: First North vaxtarmarkaðinn og Aðalmarkaðinn.

Meiri kröfur gerðar til fyrirtækja sem sækja um skráningu á Aðalmarkað, sem er hugsaður fyrir stærri og rótgrónari fyrirtæki. First North vaxtarmarkaðurinn er, aftur á móti, sniðinn að þörfum smárra og meðalstórra fyrirtækja.

Næst er að velja aðferð. Það er hægt að fara á markað með frumútboði (e. Inital Public Offering / IPO), beinni skráningu eða í gegnum sérhæft yfirtökufélag (e. Special Purpose Acquisition Company / SPAC). Frumútboð þýðir að fyrirtæki býður almenningi og fagfjárfestum að kaupa hlutabréf í útboði og sækir þannig fjármagn í aðdraganda skráningarinnar.

Að fá inn akkeris- og/eða kjölfestufjárfesta gerir fyrirtækjum kleift að handvelja tiltekna aðila inn í hluthafahópinn, aðila sem koma ekki einungis með fjármagn heldur verðmæta þekkingu og reynslu að borðinu

Frumútboð er sú leið sem gerir fyrirtækjum almennt kleift að nýta kosti skráningarinnar til fulls. Undirbúningur frumútboðs felur m.a. í sér mikla vinnu við að koma sér á kortið hjá fjárfestum, greiningaraðilum og fjölmiðlum. Vinnu sem skilar sér ekki einungis í sjálfu frumútboðinu heldur styður einnig við sýnileika og seljanleika fram á veginn litið. Loks leiðir vel heppnað frumútboð til talsverðar fjölgunar hluthafa, sem getur stutt við aukin viðskipti og seljanleika eftir skráningu.

Það er hægt að gera eitt og annað til að auka líkurnar á því að frumútboð heppnist vel. Með því að selja ákveðinn hlut í aðdraganda frumútboðs til svokallaðra akkerisfjárfesta (e. anchor investors) og/eða fá svokallaða kjölfestufjárfesta (e. cornerstone investors) til að skuldbinda sig til að taka þátt í sjálfu útboðinu geta fyrirtæki dregið talsvert úr óvissu um niðurstöðu útboðsins.

Að fá inn akkeris- og/eða kjölfestufjárfesta gerir fyrirtækjum að sama skapi kleift að handvelja tiltekna aðila inn í hluthafahópinn, aðila sem koma ekki einungis með fjármagn heldur verðmæta þekkingu og reynslu að borðinu. Svo lengi sem það er gert á málefnalegum grunni og þeim ekki hyglt á kostnað annarra getur aðkoma þeirra laða að enn fleiri fjárfesta, sem sjá skuldbindingu öflugra akkeris- og/eða kjölfestufjárfesta sem ákveðna viðurkenningu á fyrirtækinu sjálfu, útboðinu og verðinu.

Almennir fjárfestar geta svo verið mjög mikilvægir, sérstaklega við fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það getur þurft annars konar nálgun gagnvart venjulegu fólki sem er að sýsla með sparifé sitt heldur en sterkefnuðum fagfjárfestum. Ná til allra í einu og tala mannamál. Traust, gagnsæi og jafnræði eru þar lykilorðin.

Bein skráning (e. direct listing) er svo þegar fyrirtæki eru skráð á markað án frumútboðs. Sú leið er einfaldari og getur hentað vel ef fyrirtæki eru þegar með hæfilegan fjölda hlutafa. Ekki sakar ef þau eru nokkuð þekkt og þegar einhver áhugi á því að eiga viðskipti með hlutabréf þeirra. Bein skráning gerir þeim svo kleift að sækja fé á markað þegar fram í sækir.

Skráning í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag er ekki einfaldari leið til að fara á markað. Hún hefur sína kosti og galla, en ekkert er gefið eftir í upplýsingagjöf við slíka skráningu – ólíkt því sem margir halda.

Loks nefndi ég sérhæfð yfirtökufélög. Það eru félög sem eru stofnuð til þess eins að afla fjármagns með hlutafjárútboði og skráningu á markað með það að markmiði að finna vænlegt fyrirtæki til að sameinast með öfugri yfirtöku. Við slíka yfirtöku verður hið yfirtekna að skráðu félagi.

Frá sjónardyrum fyrirtækja sem eru að velja sér leið til að fara á markað getur því einn valkostur verið að hefja viðræður við sérhæft yfirtökufélag. Engin slík félög eru skráð á íslenska markaðinn í dag, en þau eru fjölmörg á erlendum mörkuðum og sérstaklega í Bandaríkjunum. Það er þó rétt að nefna að skráning í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag er ekki einfaldari leið til að fara á markað. Hún hefur sína kosti og galla, en ekkert er gefið eftir í upplýsingagjöf við slíka skráningu – ólíkt því sem margir halda.

Það er engin ein leið sem hentar öllum fyrirtækjum við skráningu á markað. En vonandi getur framangreind yfirferð komið stjórnendum sem eru í fjármögnunar- eða skráningarhugleiðingum að einhverju gagni.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.