Umræðan

Mismunandi leiðir inn á markaðinn I

Baldur Thorlacius skrifar

Sjö fyrirtæki hafa verið skráð á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland á undanförnum tveimur árum og allt útlit er fyrir að þeim haldi áfram að fjölga, þrátt fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum víða um heim. Íslenskt efnahagslíf er vel í stakk búið til að veðra þennan storm og geta verðbréfamarkaðarins til að styðja við fyrirtækin heldur áfram að styrkjast, meðal annars með auknu einkafjármagni og erlendum fjárfestingum.

Það þarf að huga að ýmsu þegar útfæra á skráningu. Áður en leiðin er ákveðin þarf að átta sig á aðstæðum og tilgangi skráningarinnar. Það er aðallega þrennt sem fyrirtæki eru að sækjast eftir með skráningu á markað: fjármögnun, seljanleika og sýnileika.

Fjármögnunin er yfirleitt stærsta atriðið. Fyrirtæki eru í einhverjum tilfellum að nota sjálfa skráninguna til að styrkja fjármagnsstöðu sína, með því að fara í frumútboð samhliða skráningunni. Aðgengi að dýpri vösum og betri kjörum fram á veginn litið getur jafnvel verið enn mikilvægara.

Almenningshlutafélög geta stundum notið góðs af auknu gagnsæi og trausti sem fylgir skráningunni við öflun nýrra viðskiptasambanda og seljanleiki getur hjálpað til við að losa um hnúta í hluthafahópnum.

Aukinn seljanleiki og sýnileiki styðja svo við fjármögnunina. Seljanleiki (e. liquidity) eykst, sem gerir hlutabréfin að ákjósanlegri eign og eykur þar með eftirspurn fjárfesta. Það getur því margborgað sig fyrir félög að gera hvað þau geta til að styðja við seljanleika, svo sem að ná góðri dreifingu í eignarhaldi og gera samning um viðskiptavakt.

Sama á við um sýnileikann, sem byggir meðal annars á auknu gagnsæi og trausti. Skráð félög eru meira áberandi í allri umræðu og komast á kortið hjá stærri hópi fjárfesta. En eins og með seljanleika er hægt að gera ýmislegt til að nýta aukinn sýnileika til fulls. Það er ekki nóg að hafa gjallarhorn, það þarf líka að hafa góða sögu að segja og koma henni vel frá sér.

Skráð félög eru meira áberandi í allri umræðu og komast á kortið hjá stærri hópi fjárfesta.

Seljanleiki og sýnileiki geta einnig verið sjálfstæðir kostir, óháð viðskiptum á markaði eða fjármögnun. Almenningshlutafélög geta stundum notið góðs af auknu gagnsæi og trausti sem fylgir skráningunni við öflun nýrra viðskiptasambanda og seljanleiki getur hjálpað til við að losa um hnúta í hluthafahópnum, svo dæmi séu tekin.

En áður en leiðin er valin þarf einnig að átta sig á upphafspunktinum. Er fyrirtækið þegar vel þekkt og virt vörumerki? Er það í þröngu eignarhaldi eða eru margir hluthafar? Eru hlutabréfin eftirsótt fyrir, jafnvel virk viðskipti á „gráa markaðnum“, eða þarf að byggja upp vitund meðal fjárfesta?

Allt getur þetta skipt máli þegar tekin er ákvörðun um hvaða leið er farin á markað, svo sem hvort það er með frumútboði, beinni skráning eða skráningu í gegnum sérhæft yfirtökufélag (e. special purpose acquisition company / SPAC). Um það fjallar seinni hluti þessa pistils.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×