Viðskipti innlent

Loka Skugga­baldri í síðasta sinn á laugar­dags­kvöld

Árni Sæberg skrifar
Jón Mýrdal, annar eigenda Skuggabaldurs, fyrir framan staðinn.
Jón Mýrdal, annar eigenda Skuggabaldurs, fyrir framan staðinn. Stöð 2

Næstkomandi laugardagskvöld verður haldið kveðjupartý fyrir djassbúlluna Skuggabaldur við Austurvöll.

„Við viljum þakka fyrir þennan frábæra tíma og alla yndislegu tónlistina með heljarinnar partýi og jam sessioni laugardagskvöldið 17. september. Sameinumst öll sem elskum góða tónlist og kveðjum þennan einstaka stað með stæl,“ segir í Facebookviðburði sem aðstandendur Skuggabaldurs settu í loftið á dögunum.

Því er ljóst að rekstur Skuggabaldurs rennur sitt skeið um helgina en djassbúllan var opnuð síðasta sumar.

Veitingamennirnir þaulreyndu Jón Mýrdal og Guðfinnur Karlsson, iðullega kenndur við Prikið, eiga Skuggabaldur saman. Þeir segja í samtali við Vísi að til standi að selja reksturinn en ekki sé tímabært að segja meira um það.

„Þetta verður svona djassbúlla og ég geri ráð fyrir að við verðum líklega með húsband en síðan munu fleiri eflaust troða upp, “ sagði Jón í samtali við Vísi þegar framkvæmdir fyrir opnun staðarins stóðu sem hæst í apríl í fyrra.

Jón reyndist vægast sagt sannspár en margir helstu djassista landsins hafa troðið upp á Skuggabaldri á stuttum líftíma staðarins. Þar ber sennilega helst að nefna tríó Þóris Baldurssonar, Jóels Pálssonar og Einar Scheving, Move Home kvintett Óskars Guðjónssonar og Skuggakvartett Sigurðar Flosasonar.

Svo virðist sem djassgeggjarar landsins muni nú þurfa að finna sér nýjan samastað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×