Viðskipti innlent

Amazon birtir heimildar­þátt um Kerecis

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Fertram, til hægri, kynnti Vestfirði fyrir Werner Vogels.
Guðmundur Fertram, til hægri, kynnti Vestfirði fyrir Werner Vogels. Skjáskot af Amazon Prime

Heimildarþáttur um íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis er nú aðgengilegur á streymisveitunni Amazon Prime. Aðstoðarforstjóri Amazon stýrir þáttaröðinni sem fjallar um áhugaverð fyrirtæki, sem hann telur eiga erindi við framtíðina.

Þátturinn um Kerecis er hluti af þáttaröðinni Now Go Build, en í henni heimsækir Werner Vogels, hægri hönd Jeffs Bezos, valin nýsköpunarfyrirtæki.

Í þættinum, sem birtist í gærkvöldi, er fjallað um sögu Kerecis, vöruþróun, frábæran árangur af notkun sáraroðs sem fyrirtækið framleiðir í hátæknisetri sínu á Ísafirði og selur að stærstum hluta til Bandaríkjanna. Yfirskrift þáttarins er „Put Waste to Work,“ sem vísar til þess að Kerecis hefur búið til verðmæta lækningavöru úr hráefni sem áður þótti einskis virði og var iðulega hent, að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Auðveldar sölustarfið

„Umfjöllun af þessu tagi er mjög jákvæð fyrir Kerecis og auðveldar sölustarfið okkar. Með netinu og öllum upplýsingum sem eru tiltækar þar eru sjúklingar að verða meira og meira meðvitaðir um mismunandi meðferðarúrræði. Þáttur af þessu tagi nær til gríðarlega margra og eru eflaust margir sjúklingar sem eru að kljást við sykursýki í þeim hóp. Hver veit nema að þeir biðji lækninn sinn um íslenskt sáraroð!“ er haft eftir Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra Kerecis.

Guðmundur sýndi Werner verksmiðju Kerecis á Ísafirði.Skjáskot af Amazon Prime

Þátturinn var tekinn upp á Vestfjörðum síðastliðinn vetur, bæði á sjó og landi. Því er ljóst að í honum felst ekki aðeins kynning á starfsemi Kerecis heldur líka mikil landkynning.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.