Viðskipti innlent

Fullnaðar­sigur Ís­lands í nammi­deilu við Dani

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Til vinstri má sjá Johan Bülow, stofnanda Lakrids by Bülow. Til hægri má meðal annars sjá sælgætið Djúpur, sem framkvæmdastjóri Freyju segir að hafi verið hinum danska Johan innblástur í sælgætisgerð.
Til vinstri má sjá Johan Bülow, stofnanda Lakrids by Bülow. Til hægri má meðal annars sjá sælgætið Djúpur, sem framkvæmdastjóri Freyju segir að hafi verið hinum danska Johan innblástur í sælgætisgerð. Lakrids by Bülow/Vísir/Vilhelm

Danska sælgætisfyrirtækið Lakrids by Bülow segir ljóst að hin klassíska blanda sem svo margir Íslendingar þekkja, lakkrís og súkkulaði, sé sannarlega rammíslensk hefð. Fyrirtækið hefur hingað til stuðst við kynningarefni þar sem því hefur verið haldið fram að Johan Bülow, stofnandi fyrirtækisins, hafi fyrstur manna blandað saman lakkrís og súkkulaði árið 2009.

Í kynningartextanum, sem vakið hefur nokkra athygli hér á landi, sagði um lakkrísinn A, eina af vörum fyrirtækisins:

„Ásamt framleiðslustjóranum Tage, þróaði Johan þá hugmynd að súkkulaðihúða lakkrís. Þeim var sagt að það væri ómögulegt. En hin vinsæla vara A leit fljótlega dagsins ljós.“

Í gær var Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Freyju, til viðtals í Bítinu á Bylgjunni. Þar sagði hann alveg ljóst að súkkulaðihjúpaður lakkrís hefði klárlega verið til fyrir árið 2009. Ekki þarf að fjölyrða um það, enda ljóst að margir lesendur muna eftir því.

Þá sagði hann að um væri að ræða tilraun Dana til að eigna sér heiðurinn af rótgróinni hefð Íslendinga í sælgætisgerð, og að raunar hefði Johan Bülow fengið hugmyndina að sælgæti sínu eftir að hafa smakkað Djúpur, sem er súkkulaðihúðaður lakkrís, á Íslandi.

Vinna að breytingum

Nú hefur danska fyrirtækið lýst því yfir að til standi að breyta textanum, og skýlaus viðurkenning á íslenskum uppruna lakkríss- og súkkulaðiblöndunnar liggur fyrir. Hún kom í morgun, eftir að fyrirtækinu var bent á málið á Twitter, af íslenskum notanda samfélagsmiðilsins.

„Þetta er ekki ykkar uppfinning. Íslenskir sælgætisgerðarmenn hafa gert þetta í áratugi. Þetta má getur ekki fengið að standa,“ skrifar Stefán Ólafsson, í tísti þar sem hann merkir sælgætisfyrirtækið, og raunar forseta Íslands líka.

Í svari sem barst við tístinu í morgun viðurkennir Lakrids by Bülow fúslega að um sé að ræða íslenska nammihefð, sem sé frábær að mati fyrirtækisins.

„Við erum nú að vinna að því að breyta textanum á vefsíðunni okkar. Takk fyrir að vekja athygli okkar á þessu.“

Milliríkjadeilu afstýrt

Viðbrögð íslenskra netverja við svari fyrirtækisins hafa ekki staðið á sér. Þó nokkrir tístarar hafa deilt svarinu með viðbrögðum sínum.

Arnar Þór Ingólfsson segir til að mynda að með því að viðurkenna að um íslenska hugmynd sé að ræða hafi fyrirtækið afstýrt milliríkjadeilu, á meðan Tinna Helgadóttir lýsir yfir fullnaðarsigri Íslendinga.

Einhverjir virðast þó hafa viljað sjá málið tekið lengra, til að mynda skemmtikrafturinn Guðmundur Felixson, sem hafði þá von að úr yrði stærri deila.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×