Innherji

Kostnaður Festar vegna kunnáttumanns minnkaði til muna

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lúðvík Bergvinsson var skipaður óháður kunnáttumaður til að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Festar við Samkeppniseftirlitið yrði fylgt eftir.
Lúðvík Bergvinsson var skipaður óháður kunnáttumaður til að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Festar við Samkeppniseftirlitið yrði fylgt eftir.

Kostnaður Festar vegna starfa óháðs kunnáttumanns hefur dregist verulega saman frá því að smásölufélagið vakti athygli á kostnaðinum vorið 2021. Þetta kemur fram í svari Festar við fyrirspurn Innherja. 

Á síðustu árum hefur verið fjallað um kostnaðinn sem féll til vegna starfa óháða kunnáttumannsins, lögmannsins Lúðviks Bergvinssonar, sem var skipaður til að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Festar við Samkeppniseftirlitið vegna samruna félagsins við N1 yrði fylgt eftir.

Á uppgjörsfundi Festar í mars 2021 greindi smásölufyrirtækið frá því að kostnaður vegna starfa óháða kunnáttumannsins, sem var skipaður árið 2018 og lýkur störfum árið 2023, hefði alls numið 56 milljónum króna. Var kostnaðurinn „verulega hærri en væntingar voru um“, að því er kom fram í uppgjörskynningunni.

Samkeppniseftirlitið benti í kjölfarið á það að fyrirtækjum sé rétt að sýna kunnáttumönnum kostnaðaraðhald með svipuðum hætti og með annarri aðkeyptri þjónustu.

Samkvæmt svari Festar sendi kunnáttumaðurinn reikninga að heildarfjárhæð 32,8 milljónir króna á árinu 2019 og 18,4 milljónir á árinu 2020. Upphæðin lækkaði síðan niður í rúmar 7 milljónir á árinu 2021 og það sem af er ári hefur kostnaður vegna kunnáttumannsins numið tæplega 2,6 milljónum.

Heildarkostnaður smásölufélagsins nemur því 61 milljón króna en skipunartími kunnáttumannsins rennur út 31. ágúst 2023.

Í nýlegri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Samkeppniseftirlitinu var því beint til eftirlitsstofnunarinnar að setja skýrari reglur eða viðmið er snúa að eftirfylgni með störfum óháðra kunnáttumanna.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að liggja fyrir við gerð sátta hvaða úrræði allir aðilar hafa ef upp kemur ágreiningur við eftirfylgni sáttar og störf óháðra kunnáttumanna.

„Ákveðinn forsendubrestur er kominn upp þegar ágreiningur verður um störf eftirlitsaðila. Telur Ríkisendurskoðun eðlilegt að ef slíkt kemur upp taki Samkeppniseftirlitið sáttina til skoðunar og meti hvort tilefni sé til að bregðast við. Samkeppniseftirlitið meti þá hvort eðlilegt sé að fenginn sé inn nýr eftirlitsaðili eða hvort líta þurfi svo á að um brot á sátt sé að ræða,“ segir í stjórnsýsluúttektinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.