Viðskipti innlent

Kaupsamningar ekki verið færri síðan í apríl 2015

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar virðist fasteignamarkaðurinn vera farinn að kólna.
Samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar virðist fasteignamarkaðurinn vera farinn að kólna. Vísir/Vilhelm

Umsvif á íbúðamarkaði fara minnkandi en kaupsamningar um íbúðarhúsnæði hafa ekki verið færri síðan í apríl 2015 ef miðað er við 6 mánaða hlaupandi meðaltal. Fyrstu merki kólnunar á fasteignamarkaði virðast komin fram.

Þetta kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir ágúst.

Hér á þessu grafi má sjá hvernig fjöldi kaupsamninga hefur hríðlækkað undanfarna mánuði.HMS

Þar kemur einnig fram að verð á íbúðum í fjölbýli hafi aðeins hækkað um hálft prósent í júní á höfuðborgarsvæðinu en þar áður höfðu komið fimm mánuðir í röð þar sem mánaðarleg hækkun var á bilinu 2,4 til 3,2 prósent.

Þrátt fyrir það seldust 53,3 prósent íbúða á landinu öllu yfir ásettu verði samanborið við 50,3 prósent íbúða í maí. Þá styttist meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í júní úr 45,9 dögum í 41,9 en á landsbyggðinni styttist hann enn meira, úr 66 dögum í 57.

Meðalsölutími íbúða lækkaði í júní bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.HMS

Í skýrslunni kemur fram að árshækkun leiguverðs mælist 9,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu í júní miðað við vísitölu leiguverðs og að meðalfjárhæð greiddrar leigu hafi verið 207.200 krónur í júní miðað við þinglýsta leigusamninga. Í júní fyrir ári síðan var hún tæpum tíu þúsund krónum lægri, eða 197.500 krónur.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir í skýrslunni að þrátt fyrir að helstu mælikvarðar séu ekki ótvíræðir þá séu líklega komni fyrstu merki um kólnun á fasteignamarkaði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×