Innherji

Ríkis­vöru­merkið skilar hagnaði eftir miklar niður­færslur og tap­rekstur

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
ITH mun einblína á að auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða erlendis.
ITH mun einblína á að auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða erlendis. VÍSIR/VILHELM

Miklar breytingar hafa orðið á rekstri Icelandic Trademark Holding (ITH), sem er í eigu íslenska ríkisins og heldur utan um vörumerkin Icelandic og Icelandic Seafood. Eftir að ljóst varð að langtímaáætlanir félagsins myndu ekki ganga eftir, sem leiddi til verulegra lækkana á verðmati vörumerkjanna, var rekstrarkostnaður félagsins skorinn niður um 100 milljónir og miklu tapi snúið í hagnað. Þetta má lesa úr ársreikningi ITH.

ITH var áður í eigu Framtakssjóðs Íslands en á árinu 2018 var félagið, og þar af leiðandi vörumerkin, afhent íslenska ríkinu. Vörumerkinu höfðu verið nýtt til markaðssetningar á íslenskum sjávarafurðum um langt skeið en vonir stóðu til þess að hægt væri að útvíkka nýtinguna þannig að hún myndi ná til fleiri vara af íslenskum uppruna. Á síðasta ári var hins vegar ákveðið að hverfa frá þessari stefnu.

„Fyrri stefna sem laut að útvíkkun Icelandic vörumerkisins fyrir breiða línu íslenskra vara erlendis reyndist félaginu kostnaðarsöm og skilaði ekki því sem lagt var upp með,“ segir í skýrslu stjórnar ITH.

„Megininntakið í nýrri stefnu ITH lýtur að því að auka verðmæti og auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum á grundvelli gæða, sjálfbærni og uppruna.“

Verðmat vörumerkjanna hefur lækkað töluvert á síðustu fimm árum, meðal annars vegna þess að langtímaáætlanir í rekstri ITH hafa ekki gengið eftir. Þau voru bókfærð á 760 milljónir króna í byrjun árs 2017 en eftir tvær stórar niðurfærslur stendur bókfært virði í 177 milljónum króna.

Tekjur ITF, sem má rekja til nytjaleyfissamninga við fyrirtæki á borð við Icelandic Seafood International, námu um 150 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 125 milljónir árið 2020. Afkoman batnaði til muna en í fyrra var félagið rekið með 58 milljóna króna hagnaði eftir að hafa tapað 154 milljónum á árinu 2020.

„Nýir samningar sem gerðir voru hjá félaginu í lok árs 2020 og byrjun árs 2021 eru í anda nýrrar stefnu félagsins og hafa þeir styrkt rekstrargrundvöll ITH til framtíðar. Þá tókst að draga verulega úr rekstrarkostnaði á árinu. Þannig varð á árinu 2021 hagnaður af starfsemi félagsins eftir taprekstur undangenginna ára og sjóðstreymi var jákvætt,“ segir í skýrslu stjórnar.

Stjórn ITF bendir þó á að peningalegur ávinningur í formi arðgreiðslna sé ekki markmið eiganda ITH, íslenska ríkisins, með eignarhaldi í félaginu. Markmiðið sé að verja ávinningi af starfseminni til að styrkja ímyndaruppbyggingu íslensks sjávarfangs og Icelandic vörumerkisins.

Íslandsstofa tók við rekstri ITH á miðju ári 2020 og hafa áhrifin á rekstrarkostnað verið umtalsverð. Þannig hefur rekstrarkostnaður félagsins minnkað úr 163 milljónum árið 2019 niður í 64 milljónir árið 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×