Umræðan

Svona gera menn ekki

Bjarni Guðmundsson skrifar

Þann 8.júní birtist hjá Innherja viðtal við greinarhöfund þar sem fyrirhugaðar samþykktabreytingar nokkurra lífeyrissjóða voru gagnrýndar á þeim grunni að þær fælu í sér ólögmæta skerðingu réttinda yngri sjóðfélaga. Daginn eftir fengu þeir Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs og Guðmundur Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) birta langa grein hjá Innherja þar sem fullyrt er að misskilnings gæti í minni umfjöllun. Fullyrða framkvæmdastjórarnir að „engin verðmæti séu flutt til“ með fyrirhuguðum breytingum. 

Ekki kemur þó fram í löngum hugrenningum framkvæmdastjóranna í hverju misskilningur minn á samþykktum lífeyrissjóða sé fólginn. Er mér nær að halda að þeir hafi sjálfir misskilið grundvallaratriði um réttindi sjóðfélaga í þeim lífeyrissjóðum sem þeir veita forstöðu. Hér á eftir verður sýnt fram á að vissulega eru verðmæti flutt til frá því sem núverandi samþykktir hafa gefið fyrirheit um. Sá tilflutningur er stórfelldur.

Rétt er að rifja upp forsögu þeirra samþykktabreytinga sem um ræðir. Fjármálaráðuneytið gaf út í lok árs 2021, að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, nýtt reiknilíkan fyrir mat lífeyrisskuldbindinga íslenskra lífeyrissjóða. Líkanið felur í sér það nýmæli að gert er ráð fyrir áframhaldandi lengingu meðalævi, eins og þróunin hefur verið undanfarin ár og áratugi. Slík reiknilíkön hafa fyrir löngu verið tekin upp í flestum Evrópulöndum. Áhrifin af því að taka líkanið upp eru að hækka mat lífeyrisskuldbindinga frá því sem verið hefði miðað við eldri forsendur.

Réttindi í íslenskum lífeyrissjóðum

Samþykktir íslenskra lífeyrissjóða er mismunandi hvað varðar réttindi sjóðfélaga, allt frá því að vera sjóðir með skilgreind réttindi (e. Defined Benefit), hér má nefna B-deildir LSR og Brúar lífeyrissjóðs, þar sem fast ákveðinna réttinda er aflað með greiðslu iðgjalda, og yfir í sjóði þar sem réttindi ráðast beint af framlögum og hvernig til tekst um ávöxtun þeirra, þ.e. sjóðir með skilgreind framlög (e. Defined Contribution). Hér mætti taka sem dæmi séreignardeildir lífeyrissjóða og Stapa lífeyrissjóð. Flestir íslenskir sjóðir, þar á meðal Gildi og LV, eru millistig þessa og eru slíkir sjóðir gjarna nefndir sjóðir með skilgreind markmið (e. Defined Ambition).

Þær breytingar sem hér er um fjallað má meta til tuga milljarða króna og verður án efa vísað til dómstóla ef svo ólíklega fer að þær nái fram að ganga.

Sjóðir með skilgreind markmið veita tiltekin réttindi fyrir innborgað iðgjald, eins og tíðkast hjá sjóðum með skilgreind réttindi. Sjóðir með skilgreind markmið hafa hins vegar engan ábyrgðaraðila og eru réttindi sjóðfélaganna því aðeins tryggð með öllum eignum sjóðsins. Samkvæmt íslenskum lögum ber sjóðunum að miða við að þau réttindi sem þeir veita verði hægt að fjármagna með iðgjöldum og ávöxtun þeirra. Einnig er áskilið að ef ekki er annað tekið fram í samþykktum eru eignir sjóðsins óskiptar og standa þannig allar að baki öllum lífeyrisloforðum til sjóðfélaga. (27.grein laga um lífeyrissjóði nr. 129/1997)

Árlega skal reikna eftir forsendum sem gefnar eru í lögum nr. 129/1997 og reglugerð 391/1998 settri samkvæmt þeim mat á því hverjar eignir sjóðsins þurfi að vera til að standa undir þeim réttindum sem sjóðirnir hafa gefið fyrirheit um.

Aðeins ef eignir eru ekki nægar getur komið til þess að lækka þurfi áunnin réttindi sjóðfélaga en um það er fjallað í 39.gr. l. 129/1997.

Fyrr en kemur til skerðingar áunninna réttinda reynir þó á skyldu sjóðanna til þess að tryggja að á hverjum tíma sé réttindaöflun miðuð við það sem talið er unnt að standa undir miðað við gildandi forsendur (27.gr. l. 129/1997). Almennt hefur verið talið að réttindi lífeyrisþega geti notið meiri verndar en áunninn réttur , og áunninn réttur gangi framar réttindaöflun í framtíð.

Árlegur útreikningur á mati skuldbindinga skal framkvæmdur af tryggingastærðfræðingi, eða „öðrum þeim sem fengið hefur leyfi fjármálaeftirlits til slíkra útreikninga“ eins og segir í l. 129/1997.

Ákvæði samþykkta Gildis lífeyrissjóðs

Til að ekkert fari nú milli mála um hvernig réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóða eru ákveðin í lífeyrissjóðum með skilgreind markmið skulu hér tilfærð sem dæmi helstu ákvæði samþykkta Gildis lífeyrissjóðs um réttindastöðu sjóðfélaga, sem eru vel samin ákvæði og skýr og fyrirmynd samþykkta nokkurra annarra lífeyrissjóða.

„10. Gr. Réttindi sjóðfélaga til lífeyris eru reiknuð í krónum og ráðast réttindi af því iðgjaldi sem greitt er í lífeyrissjóðinn hverju sinni. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins samkvæmt töflu I í viðauka A. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar“

Þetta er einfalt, ekki vafi um hvernig lífeyrisloforð sjóðsins eru mynduð og hvað í þeim felst.

Stjórnum, trúnaðarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða ber einfaldlega að virða samþykktir þeirra sjóða sem þau starfa fyrir og þau fyrirheit sem sjóðfélögum eru með þeim gefin hafi sjóðurinn til þess efni.

Einnig eru í samþykktum ákvæði um að öflun réttinda skuli árlega löguð að þeim forsendum sem notaðar eru við mat skuldbindinga. Það er orðað svo í samþykktum Gildis, grein 7.2 : „Lífeyrisloforð sjóðsins til framtíðar skulu árlega endurskoðuð og breytt ef tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins gefa tilefni til“

Þetta er enda í samræmi við ákvæði 27.gr. laga um lífeyrissjóði sem áður var vitnað til þar sem áskilið er að samþykktir lífeyrissjóða skuli við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Lítum nú loks á hvernig skal brugðist við ef í ljós kemur að eignir sjóðsins og verðmæti iðgjalda reynist lægra en mat skuldbindinga. Um það eru samþykktir líka skýrar, í grein 7.4 : „Lækkunin skal gerð með því að skerða áunnin réttindi allra sjóðfélaga, hlutfallslega jafn mikið“. Skylt er að gera slíka breytingu ef tryggingafræðileg staða er meira en 10% frá jafnvægi, eða hefur verið meira en 5% í fimm ár. Vikmörkin um tryggingafræðilega stöðu sjóðsins eru í samræmi við 39.gr. l. 129/1997.

Viðbrögð eftir ákvæðum samþykkta

Með þessi einföldu og skýru ákvæði í farteskinu er ekkert að vanbúnaði að finna rétt og eðlileg viðbrögð við þeim nýju forsendum sem teknar voru upp við mat skuldbindinga í lok árs 2021.

Hjá Gildi lífeyrissjóð reiknaðist tryggingafræðileg staða með hinum nýju forsendum jákvæð um 1,4%. Við það stofnast að sjálfsögðu ekki skylda til lækkunar réttinda samkvæmt 39.gr. laga 129/1998 eða grein 7.4 í samþykktum. Hins vegar er framtíðarstaða neikvæð um 12,6% og valda nýjar forsendur því að hallinn er svo mikill. Sjóðnum ber því skylda til að breyta framtíðar réttindaöflun eftir ákvæðum gr. 7.2 (og 27.gr.l. 129/1997).

Þar sem að í hinum nýju reikniforsendum er gert ráð fyrir að lífslíkur fæðingarárganga séu mismunandi væri héðan í frá rétt að ákveða mismunandi réttindaöflun eftir fæðingarárgangi. Það má gera ýmist með því að miða töku eftirlauna við hækkandi aldur eftir fæðingarárgöngum eða gefa hverjum árgangi um sig sérstaka réttindatöflu.

Við slíka breytingu, sem er skylt að gera samkvæmt samþykktum, myndi framtíðarstaða Gildis færast nær jafnvægi og gæti heildarstaða sjóðsins orðið jákvæð um rúm 6%, og gæti þá verið svigrúm til hækkunar allra áunninna réttinda um 6-7%, hlutfallslega jafnt fyrir alla sbr. ákvæði samþykkta. Staða sjóðsins hefði þá orðið sú sama og samkvæmt þeirri tillögu sem framkvæmdastjórinn mælir fyrir. Svipað gildir um stöðu Lífeyrissjóðs verslunarmanna þótt hækkun yrði nokkru minni.

Furðuleg tillaga og rökstuðningur

Tillaga lífeyrissjóðanna felst hins vegar ekki í að fara eftir eigin samþykktum sem sjóðfélögum hafa verið kynntar sem grundvöllur réttinda þeirra.

Vissulega er réttindaöflun til framtíðar endurskoðuð til lækkunar, en þátt fyrir að nýtt reiknilíkan gefi til kynna að eftir upptöku þess væri rétt að sníða réttindaöflun eftir fæðingarári kynna sjóðirnir að ein réttindatafla muni gilda fyrir alla sjóðfélaga. Ljóst er að eftir því sem eldri árgangar falla úr hópi greiðandi sjóðfélaga verður enn að lækka réttindaöflun, og yngri sjóðfélögum því gefin fyrirheit um meiri réttindaöflun en vitað er að unnt verður að veita gangi forsendur eftir. Hvers vegna að fara fram með slíkum blekkingum ?

Mesta undrun vekur þó að þrátt fyrir jákvæða tryggingafræðilega stöðu hyggjast sjóðirnir skerða áunnin réttindi sjóðfélaga, mismunandi eftir fæðingarári.

Í grein framkvæmdastjóranna er þessi aðgerð rökstudd svo : „Aðferðin sem lífeyrissjóðirnir tveir samþykktu að beita felst aftur á móti í því að sérhver árgangur heldur sömu fjármunum og honum voru reiknaðir samkvæmt fyrri lífslíkum“

Þetta á væntanlega að sýna að engir fjármunir séu fluttir til.

Nú er það hins vegar svo að árgöngum sjóðfélaga hafa aldrei verið reiknaðir fjármunir. Óheimilt er að skipta eignum lífeyrissjóða nema það sé ákveðið í samþykktum lífeyrisjóðsins og því er ekki til að dreifa í samþykktum þessara sjóða. Sjóðfélagarnir eiga í sjóðnum stjórnarskrárvarin réttindi sem eiga stoð í öllum eignum sjóðsins, og það er rétturinn til að fá greiddar þær fjárhæðir í lífeyri sem samþykktir tilgreina og þau réttindi verða ekki af sjóðfélögum tekinn með geðþóttaákvörðun. Mismunandi skerðing réttinda eftir aldri, og síðan jöfn aukning felur sannarlega í sér tilflutning verðmæta milli kynslóða.

Oft hafa komið fram nýjar og betri upplýsingar fyrir mat lífeyrisskuldbindinga. Aldrei hefur verið brugðist við þeim breytingum með því að skerða áunninn rétt mismunandi eftir því hvaða áhrif breytingar hafa haft á mismunandi hópa sjóðfélaga enda engin heimild fyrir því í samþykktum sjóða með skilgreind markmið.

Í niðurlagi hugleiðinga sinna vitna framkvæmdastjórarnir til lögfræðiálits sem aflað hafi verið fyrir Gildi. Þar segir : „Við teljum þannig að flöt skerðing, óháð aldri sjóðfélaga, væri íþyngjandi gagnvart eldri sjóðfélögum og ósanngjörn frá þeirra sjónarhorni, þar sem greiðslur þeirra inn í sjóðinn áttu sér stað þegar væntur lífaldur var lægri. Þeir eru því í ósambærilegri stöðu við þá sem yngri eru.“

Vandinn er hins vegar sá, að lagaskilyrði fyrir skerðingu eru ekki uppfyllt. Eins og áður sagði reiknast tryggingafræðileg staða sjóðanna jákvæð og það lagaákvæði sem vísað er til, 39.gr. l. 129 á ekki við.

Mismunandi skerðing réttinda eftir aldri, og síðan jöfn aukning felur sannarlega í sér tilflutning verðmæta milli kynslóða.

Staða yngri og eldri sjóðfélaga er vissulega um margt ósambærileg. Stóran hluta þess tíma sem eldri sjóðfélagar hafa greitt í sjóðinn hefur réttindaöflun þeirra fyrir greitt iðgjald verið ríkulegri en nú gerist og síðustu ár hefur ávöxtun lífeyrissjóða verið langt umfram þær forsendur sem liggja til grundvallar réttindatöflum sjóðanna. Tillögur þær sem lögfræðiálitið vísar til byggjast á því að einblínt er á aðeins einn þeirra þátta sem ráða stöðu sjóðsins, sleppt er vísun til ávöxtunar, breytinga á réttindaöflun á starfstíma sjóðsins og margs annars. 

Slík aðferð stenst enga skoðun, ef finna á samanburð verðmætis iðgjalda og réttinda. Hér má nefna að uppsöfnuð raunávöxtun beggja sjóðanna síðastliðin þrjú ár var um 40%, þegar forsendur réttindaöflunar gera ráð fyrir tæpum 11%. Og það er virkilega ekki til fjármagn fyrir réttindum yngri sjóðfélaga ? Þá má benda á að áfallin staða Gildis í lok árs 2011 var neikvæð um 5,3%. Hvernig var þeim halla eytt ? – Er tryggt að það hafi ekki að hluta verið með ávöxtun iðgjalda þeirra ungu sjóðfélaga sem greiddu til sjóðsins eftir 2011 ? Fyrst og fremst stangast tillögurnar þó á við ákvæði samþykkta sjóðsins og ákvæði laga.

Séríslenskur vandi?

Mat lífeyrisskuldbindinga með forsendum þar sem gert er ráð fyrir lengingu lífaldurs er ekki séríslenskt fyrirbæri. Langt er síðan byrjað var að vinna mat lífeyrisskuldbindinga þannig í löndunum í kring um okkur. Réttindakerfi hollenskra lífeyrissjóða er t.d. svipað hinum íslensku, gefin eru fyrirheit um tiltekin réttindi fyrir greitt iðgjald án þess að sjóðirnir njóti beinnar bakábyrgðar. Engar fregnir hafa borist af ævintýralegum umreikningi áunninna réttinda í hollenskum lífeyrissjóðum við upptöku reiknilíkana fyrir lengingu lífaldurs, þótt tryggingafræðileg staða hollensku sjóðanna versnaði vissulega við breytinguna. Hollenskir sjóðir eru þrátt fyrir allt töluvert stærri en íslenskir lífeyrissjóðir, og má ekki ætla að þeir hafi á sínum snærum einhverja lögfróða aðila ? 

Ekki virðast þeir lögfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að skylt hafi verið að kollvarpa réttindum sjóðfélaga við upptöku á reiknilíkönum um lengingu lífaldurs. Mun lagatúlkun á þann veg án efa vekja eftirtekt, ef henni verður fram haldið við alþjóðlega dómstóla.

Fleiri atriði til umhugsunar

Það er miður að framkvæmdastjórarnir skyldu ekki upplýsa um hvað liggur til grundvallar þeirri ákvörðun að setja fram eina réttindatöflu til framtíðar fyrir alla sjóðfélaga, þvert á það sem nýtt reiknilíkan bendir til og hvernig það samræmist þeirri hugsun að hver kynslóð fái sitt.

Annað sem vekur athygli við tillögur Lífeyrissjóðs verslunarmanna sérstaklega er að skerðing áunninna réttinda fólks fram að þrjátíu ára aldri er 10-12%, en lækkun réttindaöflunar sama aldurshóps til framtíðar frá núgildandi réttindatöflu ekki nema 4%. Hvernig má þetta nú vera ?

Traust til íslenskra lífeyrissjóða

Ekki fer hjá því að það veki bæði undrun og vonbrigði að slík tillaga skuli hafa náð svo langt sem raun ber vitni hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Því verður þó fastlega trúað að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneyti muni koma í veg fyrir að slíkar breytingar á samþykktum fái staðfestingu og afstýra þannig skaða og trúnaðarbrest sem erfitt getur orðið að bæta.

Launþegum er að lögum skylt að verja stórum hluta tekna sinna til öflunar lífeyrisréttinda. Um þau réttindi verður að ríkja traust, og tryggt verður að vera að þeim verði ekki breytt afturvirkt með geðþóttaákvörðunum frá því sem sjóðfélögum var kynnt er iðgjald var greitt. Svo vitnað sé til orða fyrrum fjármálaráðherra sem naut mikillar virðingar fyrir heiðarleika, orðheldni og réttsýni, Magnúsar Jónssonar : „Svona gera menn ekki“.

Stjórnum, trúnaðarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða ber einfaldlega að virða samþykktir þeirra sjóða sem þau starfa fyrir og þau fyrirheit sem sjóðfélögum eru með þeim gefin hafi sjóðurinn til þess efni. Ekki skal dregið í efa að fallegur hugur hafi fylgt áformum framkvæmdastjóranna til hækkunar réttinda eldri sjóðfélaga með skerðingu réttar hinna yngri. Það er hins vegar ekki á þeirra valdi að framkvæma slíka dreifingu á fé lífeyrissjóðanna. Þeim eignum er ætlað tiltekið hlutverk, nefnilega að tryggja þau réttindi sem samþykktir tilgreina. Þær breytingar sem hér er um fjallað má meta til tuga milljarða króna og verður án efa vísað til dómstóla ef svo ólíklega fer að þær nái fram að ganga.

Höfundur er sjálfstætt starfandi tryggingastærðfræðingurAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×