Innherji

Sjóður í Abú Dabí að kaupa hlut Íslendinga í Edition-hótelinu fyrir 22 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Samkvæmt heimildum Innherja hafa viðræður um möguleg kaup ADQ-sjóðsins  á hótelinu staðið yfir um nokkuð langt skeið, eða allt frá því undir árslok 2021.
Samkvæmt heimildum Innherja hafa viðræður um möguleg kaup ADQ-sjóðsins  á hótelinu staðið yfir um nokkuð langt skeið, eða allt frá því undir árslok 2021.

Einn af þjóðarsjóðum furstadæmisins Abú Dabí, ADQ, er langt kominn í viðræðum um að kaupa ríflega 70 prósenta eignarhlut félags í eigu íslenskra fjárfesta, sem er að stórum hluta lífeyrissjóðir, í Marriott Edition-lúxushótelinu í Austurhöfn.

Gangi kaupin eftir þá er heildarvirði hótelsins, sem var formlega opnað í október í fyrra og er fyrsta fimm stjörnu hótelið í Reykjavík, áætlað um 230 milljónir Bandaríkjadala í viðskiptunum, eða um 32 milljarðar íslenskra króna, samkvæmt heimildum Innherja. Sú fjárhæð inniheldur vaxtaberandi skuldir upp á liðlega 120 milljónir dala.

Virði þess hlutar sem íslensku fjárfestarnir áforma að selja til þjóðarsjóðsins, sem þeir eiga í gegnum eignarhaldsfélagið Mandólín, er því jafnvirði um 22 milljarða króna að teknu tilliti til þeirra skulda sem sjóðurinn frá Mið-Austurlöndum mun samhliða yfirtaka með kaupunum. Þeir sem standa að baki eftirstandandi 30 prósenta hlut í hótelinu, einkum erlendir fjárfestar í gegnum bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company, munu hins vegar áfram vera hluthafar á móti hinum risavaxna þjóðarsjóði.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því í síðasta mánuði að ADQ ætti í viðræðum um kaup á Marriott-Edition hótelinu sem stendur við hlið Hörpu.

Þjóðarsjóðir Abú Dabí fjárfesta tekjum furstadæmisins af olíu og gasvinnslu og eru samanlagt með eignir upp á liðlega 1.400 milljarða dala en aðeins olíusjóður Noregs og þjóðarsjóður Kína eru stærri að umsvifum. Sá sjóður, ADQ, sem hyggst kaupa meirihluta í fimm stjörnu lúxushótelinu í Austurhöfn, sem er um 17 þúsund fermetrar að stærð á sex hæðum, er með eignir í stýringu upp á 100 milljarða dala og hefur komið að fjölmörgum stórum innviðafjárfestingum víða um heim frá því að honum var komið á fót árið 2018.

Samkvæmt heimildum Innherja hafa viðræður um möguleg kaup ADQ-sjóðsins staðið yfir um nokkuð langt skeið, eða allt frá því undir árslok 2021, en vonir standa til að viðskiptin geti klárast síðar í haust. Á meðal ráðgjafa íslenska félagins í söluferlinu hefur verið lögmannsstofan BBA//Fjeldco en LEX og KPMG hafa verið í hópi ráðgjafa fyrir þjóðarsjóðinn í kaupviðræðunum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn þjóðarsjóðir Abú Dabí fjárfesta hér á landi en einn af sjóðum furstadæmisins var á meðal kaupenda þegar Íslandsbanki var skráður á markað síðasta sumar. Keypti hann þá um eins prósenta hlut í bankanum sem var þá metinn á tæplega tvo milljarða.

Daniel Flannery, framkvæmadstjóri Edition hótela, Richard L. Friedman, forstjóri fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company, og Eggert Dagbjartsson, fjárfestir í verkefninu.Vísir/Sigtryggur

Stærsti hluthafi Mandólíns, með um helmingshlut, er framtakssjóður í stýringu Stefnis sem er í eigu fjölda lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta. Á meðal helstu einkafjárfesta félagsins eru hjónin Finnur Reyr Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir, Hreggviður Jónsson, Jónas Hagan Guðmundsson, Grímur Garðarsson og hjónin Hjörleifur Jakobsson og Hjördís Ásberg. Í lok síðasta árs var virði hlutafjár Mandólín í hótelverkefninu bókfært á rúmlega 4,1 milljarð króna.

Í hópi erlendu fjárfestanna, sem komu fyrst að hótelverkefninu árið 2016 ásamt íslenska félaginu Mandólín, sem munu áfram vera í hluthafahópnum á móti þjóðarsjóðnum frá Abú Dabí eru meðal annars Bill Gates, stofnandi Microsoft, og Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Company. Richard og Eggert Dagbjartsson hjá fjárfestingafélaginu Equity Resource Investments í Boston hafa á undanförnum árum leitt verkefnið fyrir hönd erlenda fjárfestahópsins.

Þjóðarsjóðir Abú Dabí eru ekki ókunnugir fjárfestingum í Edition hótelum á vegum Marriott International en aðeins þrettán slík hótel eru starfrækt á heimsvísu eins og sakir standa. Þannig kom Abu Dhabi Investment Authority (ADIA), stærsti einstaki þjóðarsjóður furstadæmisins, að kaupum á þremur Edition-hótelum í London, New York og Miami á árinu 2014.

Upphaflega stóð til að Edition-hótelið í Reykjavík, sem hefur yfir að ráða 253 herbergjum, yrði opnað síðla árs 2018. Tafir við framkvæmdirnar, sem reyndust mun kostnaðarsamari en fyrst var áætlað, og síðan kórónuveirufaraldurinn gerðu það hins vegar að verkum að hótelið gat ekki tekið á móti sínum fyrstu gestum fyrr en um þremur árum síðar.

Í árslok 2020 nam bókfærður kostnaður við byggingu hótelsins um 167 milljónir dala, jafnvirði um 22 milljarðar á núverandi gengi, að því er fram kom í síðasta birta ársreikningi móðurfélagsins Cambridge Plaza Venture Company. Á fyrri hluta ársins 2021 sótti félagið sér framkvæmdafjármögnun til skamms tíma í formi brúarláns að fjárhæð tæplega 33 milljónir dala hjá bandaríska vogunarsjóðnum Taconic Capital. Á þeim tíma var slík fjármögnun talin ákjósanlegri fremur en að hluthafar myndu leggja til enn meira eiginfjárframlag inn í verkefnið.

Ljóst er því að heildarkostnaður við að reisa hótelið hefur numið samanlagt vel á þriðja tug milljarða króna.

Í árslok 2020 var eigið fé móðurfélags hótelsins um 58 milljónir dala en vaxtaberandi skuldir, sem felast í bankaláni frá Arion banka, voru tæplega 106 milljónir dala. Frá þeim tíma hafa skuldirnar hins vegar aukast enn frekar og nema í dag sem fyrr segir um 120 milljónum dala.


Tengdar fréttir

Það er slúðrað mest í Reykjavík

Þetta er eins og að gefa út tímarit, en forsíðan breytist eftir því hvar þú ert staddur, segir framkvæmdastjóri Marriott Edition hótelanna. Mikil leynd hvílir yfir byggingunni og því hafa margar sögur komist á kreik.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.