Viðskipti innlent

Vörur Örnu í Bolungar­vík til Banda­ríkjanna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu ásamt Örnu Hálfdánardóttur, markaðsstjóra Örnu og Gunnari Birgissyni, framkvæmdastjóra Reykjavik Creamery.
Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu ásamt Örnu Hálfdánardóttur, markaðsstjóra Örnu og Gunnari Birgissyni, framkvæmdastjóra Reykjavik Creamery. Aðsend

Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík gerir það nú gott því útflutningur á vörum fyrirtækisins til Bandaríkjanna er hafinn á fullum krafti. Um er að ræða skyr og gríska jógúrt til að byrja með.

Það var í vor sem forsvarsmenn Örnu og forsvarsmenn Reykjavík Creamery mjólkurvinnslu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum skrifuðu undir viljayfirlýsingu um samstarf á milli fyrirtækjanna um framleiðslu og sölu á Örnu mjólkurvörum í Bandaríkjunum. Frá þeim tíma hefur verið brjálað að gera hjá Örnu.

Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri og eigandi Örnu, segir að stefnan sé sett á að vörur Örnu verði framleiddar í Bandaríkjunum í stað þess að þær séu fluttar út frá Bolungarvík.

„Nú er það skyr og grísk jógúrt frá Örnu, sem er flutt út en það verða svo væntanlega fleiri vörur. En við erum náttúrulega í stöðugri vöruþróun þannig að það munu eflaust fleiri tegundir bætast við mjög fljótlega,“ segir hann.

Stórt markaður vestanhafs

Hálfdán segir að sérstaða Örnu muni koma sér vel í Bandaríkjunum.

„Við erum náttúrlega eingöngu að framleiða laktosafríar vörur og það er stór markaður í Bandaríkjunum fyrir þær vörur. Þannig að við erum mjög bjartsýn á að salan verði góð og síðan höfum verið að þróa skyr þar sem við notum hafra í staðin fyrir kúamjólk, og það er vara sem við stefnum einnig á að flytja út,“ segir hann.

Hálfdán segir að Arna gangi ótrúlega vel og það sé gott að reka fyrirtækið í Bolungarvík. Í dag starfa 44 starfsmenn hjá Örnu.

„Það eru forréttindi að vera með svona fyrirtæki úti á landi og ég held að við höfum líka sýnt það að fólk þarf ekkert að vera hrætt við það að stofna fyrirtæki úti á landsbyggðinni, það þurfa ekki allir að vera í Reykjavík,“ segir hann.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.