Innherji

Taka á marg­brotnu fram­sali valds og lag­skiptri stjórn­sýslu fjár­mála­eftir­litsins

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Seðlabankastjóri gegnir formennsku í fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd. Nái áformin fram að ganga mun hann einnig gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd. 
Seðlabankastjóri gegnir formennsku í fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd. Nái áformin fram að ganga mun hann einnig gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd.  Stöð 2/Sigurjón

Forsætisráðuneytið hefur tilkynnt um áform um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem fela í sér að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar bankans og að nefndin taki aðeins ákvarðanir í málum sem teljast meiri háttar. Þetta kemur fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Áformin eru í samræmi við niðurstöður nýlegrar skýrslu sem fjallaði um reynsluna af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar eftir sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Í skýrslunni voru gerðar athugasemdir við að löggjafinn fæli fjármálaeftirlitsnefnd að taka allar ákvarðanir á sviði fjármálaeftirlits og heimili nefndinni að framselja vald sitt vegna hluta ákvarðana til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits sem að einhverju leyti framselji valdið enn á ný til annarra starfsmanna eða sviða bankans.

„Núverandi fyrirkomulag um víðtækt starfssvið nefndarinnar er óraunhæft og í raun er brugðist við því með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Nær væri að löggjafinn skilgreindi á gagnsæjan hátt verkefni nefndarinnar og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits,“ sagði í skýrslunni.

Í áformum ráðuneytisins segir að miðað við þetta margbrotna framsal valds og lagskipta stjórnsýslu sem búin sé til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunar sé „ekki hægt að fullyrða að réttaröryggi og réttlát málsmeðferð séu tryggð“. 

Í samræmi við niðurstöðurnar er lagt er til að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar og að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits verði staðgengill hans. Einnig er lagt til að Seðlabanka Íslands verði falið að taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, en að fjármálaeftirlitsnefnd skuli taka nánar skilgreindar ákvarðanir sem teljast meiri háttar.

Seðlabankastjóri gegnir formennsku í fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd, og í upphaflega lagafrumvarpinu árið 2019 var lagt upp með að seðlabankastjóri myndi einnig vera formaður fjármálaeftirlitsnefndar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, gegnir formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.