Innherji

Lagt til að Ásgeir taki við formennsku fjármálaeftirlitsnefndar af Unni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, gegnir formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd en auk hennar sitja Gunnar Jakobsson, Ásta Þórarinsdóttir, Andri Fannar Bergþórsson og Guðrún Þorleifsdóttir í nefndinni.
Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, gegnir formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd en auk hennar sitja Gunnar Jakobsson, Ásta Þórarinsdóttir, Andri Fannar Bergþórsson og Guðrún Þorleifsdóttir í nefndinni. Seðlabanki Íslands

Seðlabankastjóri ætti að gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd í stað varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits að mati höfunda nýrrar skýrslu sem fjallar um reynsluna af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gegnir formennsku í fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd, og í upphaflega lagafrumvarpinu árið 2019 var lagt upp með að seðlabankastjóri myndi einnig vera formaður fjármálaeftirlitsnefndar.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, gegnir formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd en auk hennar sitja Gunnar Jakobsson, Ásta Þórarinsdóttir, Andri Fannar Bergþórsson og Guðrún Þorleifsdóttir í nefndinni.

„Seðlabankastjóri ætti að gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd, eins og í hinum nefndunum, eins og lagt var til í upphaflegu frumvarpi til laga árið 2019,“ segir í skýrslunni.

Hin nýja fjármálaeftirlitsnefnd er ólík hinum nefndunum tveimur hvað varðar verkefni hennar og skipulag. Nefndin fer með stjórnsýsluvald sem snýr að hagsmunum einstaklinga og lögaðila en ekki beitingu almennra stjórntækja í efnahagslegum tilgangi eins og hinar nefndirnar.

Í skýrslunni kemur fram að skilgreina beri með fullnægjandi hætti hvað af verkefnum fjármálaeftirlits þurfi að fela sérstakri nefnd og hvað tilheyri hefðbundinni stjórnsýslu innan Seðlabankans.

„Núverandi fyrirkomulag um víðtækt starfssvið nefndarinnar er óraunhæft og í raun er brugðist við því með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Nær væri að löggjafinn skilgreindi á gagnsæjan hátt verkefni nefndarinnar og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×