Innherji

Hagnaður Valitor tuttugufaldast milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Herdís Fjeldsted, forstjóri Valitor.
Herdís Fjeldsted, forstjóri Valitor.

Valitor hagnaðist um 627 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins að því er kemur fram í árshlutauppgjöri Arion banka. Það er tuttugufalt meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra.

Hagnað greiðslumiðlunarfyrirtækisins á fyrri árshelmingi má að mestu leyti rekja til annars ársfjórðungs en í uppgjöri Arion banka fyrir fyrsta fjórðung kom fram að Valitor hefði hagnast um 59 milljónur. Þá jukust tekjur Valitor um 28 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins, úr 2,5 milljörðum króna í 3,2 milljarða, miðað við sama tímabil í fyrra.

Arion banki gekk frá sölu á Valitor til fjártæknifyrirtækisins Rapyd í byrjun júlí og litast afkoma bankans mjög af 5,6 milljarða bókfærðum hagnaði vegna sölunnar. Í afkomutilkynningu Arion er haft eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra að salan á Valitor einfaldi samstæðu félagsins og „skerpi fókus.“

Í rannsókn Samkeppniseftirlitsins komu fram upplýsingar um að Festi hefði samið við Valitor um færsluhirðingu og myndi framkvæmd færsluhirðingar því færast frá SaltPay til Valitor í árslok 2021. Veltan sem fylgir slíkum samningi við Festi vegur afar þungt í færsluhirðingu hérlendis.

Nánari athugun leiddi í ljós að fleiri veigamiklir viðskiptavinir hefðu auk Festar fært viðskipti sín frá SaltPay til Valitors og Rapyd á seinni hluta síðasta árs en enginn veigamikill viðskiptavinur hafði fært sig yfir til SaltPay á sama tímabili.

Ef kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið í gegn óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum. Samkvæmt samkomulagi við Samkeppniseftirlitið var safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi, selt til Kviku banka sem ætlar að hasla sér völl á markaðinum.

Auk Kviku banka hefur fjarskipta- og fjölmiðlunar fyrirtækið Sýn greint frá áformum um að bjóða upp á greiðsluþjónustu og Landsbankinn vinnur einnig að því að koma inn á markaðinn.


Tengdar fréttir

Lands­bankinn vill keppa við Salt­Pay og Ra­pyd í greiðslu­miðlun

Landsbankinn vinnur markvisst að því, samkvæmt heimildum Innherja, að fara í samkeppni við SaltPay og sameinað fyrirtæki Valitors og Rapyd á sviði greiðslumiðlunar. Gangi áform bankans eftir verður hann þriðji nýi keppinauturinn á markaðinum ásamt Kviku banka og Sýn.

Kvika fær fjórðung af markaðinum fyrir hverfandi litla greiðslu

Kvika banki greiðir hverfandi litla upphæð fyrir safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi. Þetta má lesa úr tilkynningum Kviku og Samkeppniseftirlitsins sem voru sendar út í gær í tengslum við samþykki eftirlitsins á kaupum Rapyd á Valitor, dótturfélagi Arion banka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×