Innherji

Há verð og stöðugur rekstur skiluðu Elkem metafkomu í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi. Elkem

Elkem Ísland, sem rekur kísilver á Grundartanga, hagnaðist um 458 milljónir norskra króna, jafnvirði 6,4 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er langbesta rekstrarniðurstaða Elkem á síðustu sjö árum og líklega sú besta í sögu fyrirtækisins á Íslandi.

Tekjur Elkem voru 2.085 milljónir norskra króna, jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna, og jukust um heil 70 prósent milli ára.

„Markaðsaðstæður voru afar hagstæðar árið 2021 eftir lægð ársins 2020 og náði heimsmarkaðsverð á kísiljárni methæðum á síðari hluta ársins,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins. Há verð og stöðugur rekstur voru að sögn stjórnar undirstöður góðs árangurs á árinu 2021.

Á fyrstu mánuðum ársins 2022 höfðu skerðingar á raforku neikvæð áhrif á framleiðslu verksmiðjunnar og auk þess hafa áskoranir í flutningsmálum og hækkandi verð hráefna verið krefjandi fyrir fyrirtækið.

„Þrátt fyrir það eru fjárhagslegar horfur fyrirtækisins mjög góðar árið 2022 en markaðsverð eru há, framleiðsla stöðug og stór hlutdeild sölu er í sérvöru,“ segir í skýrslu stjórnar.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi nýlega úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra um að vaxtagreiðslur á láni sem Elkem á Íslandi fékk frá norska móðurfélaginu væru ekki frádráttarbærar frá skatti.

Málavextirnir voru þeir að Elkem, sem rekur kísilver á Grundartanga, gaf út skuldabréf upp á nærri 1,8 milljarða króna í nóvember 2012 sem var selt til móðurfélagsins í Noregi í tengslum við fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.

Með úrskurði ríkisskattstjóra um mitt ár 2020 var gjaldfærslu vaxta af skuldabréfinu, sem námu samtals um 800 milljónum króna, hafnað. Stofnunin sagði að forsenda fyrir því að vextir væru frádráttarbærir frá skattskyldum tekjum væri að láni væri tekið í rekstrarlegum tilgangi.

Að mati héraðsdóms mistókst ríkisskattstjóra að sýna fram á að frádráttur vaxtanna hefði ekki fallið undir lög og var því fallist á kröfu Elkem um að fella úrskurðinn úr gildi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.