Innherji

Hækkandi vaxtatekjur ættu að lita uppgjör stóru bankanna á markaði

Hörður Ægisson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Bankarnir munu birta uppgjör sín síðar í vikunni.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Bankarnir munu birta uppgjör sín síðar í vikunni.

Útlit er fyrir að uppgjör stóru viðskiptabankanna í vikunni sem eru skráðir á markað, Arion banka og Íslandsbanka, muni verða sterk ef marka má afkomuspár greinenda. Hækkandi vaxtastig þýðir að hreinar vaxtatekjur bankanna, sem eru stærsti tekjuliður þeirra, munu aukast verulega á milli ára sem vegur á móti samdrætti í fjármunatekjum vegna erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum.

Samkvæmt samantekt Innherja þá sýnir meðalspá sex greinenda sem hafa birt afkomuspá sína fyrir uppgjör annars fjórðungs hjá Arion banka, sem verður kynnt eftir lokun markaða á morgun, að heildarhagnaður bankans muni aukast um nærri fjórðung frá sama tímabili í fyrra og nema rúmlega 9,7 milljörðum króna. Arðsemi á eigið fé verður, miðað við þessa spá greinenda, tæplega 22 prósent sem er talsvert meira en sem nemur arðsemismarkmiði bankans upp á 13 prósent.

Afkoma Arion mun hins vegar litast mjög af um 5,5 milljarða bókfærðum hagnaði vegna sölu bankans á dótturfélaginu Valitor til Rapyd, sem kláraðist undir lok síðasta mánaðar, einu ári eftir að fyrst var tilkynnt um kaupin. Sé aðeins litið til afkomu af reglulegri starfsemi Arion á fjórðungnum þá gera greinendur ráð fyrir því að hagnaðurinn minnki um liðlega 45 prósent og verði um 4,26 milljarðar króna á fjórðungnum.

Hagnaður Íslandsbanka mun haldast stöðugur á milli ára og nema um 5,2 milljörðum króna, samkvæmt meðalspá sex greinenda, borið saman við hagnað upp á rúmlega 5,4 milljarða króna á sama tímabili á öðrum ársfjórðungi 2021. Slíkur hagnaður ætti að skila bankanum arðsemi á eigið fé sem nemur 10,5 prósentum sem er í samræmi við arðsemismarkmið Íslandsbanka, en bankinn mun birta uppgjör sitt eftir lokun markaða á fimmtudag.

Hlutabréfaverð bankanna, einkum í tilfelli Arion eftir að tilkynnt var um að salan á Valitor hefði klárast, hefur farið nokkuð hækkandi eftir að hafa náð sínum lægstu gildum á árinu í kringum 20. júní síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa Arion banka hækkað um tæplega 14 prósent – það stendur núna í 174,5 krónum á hlut – en fjárfestar hafa væntingar til þess að bankinn fái heimild Fjármálaeftirlitsins til að hrinda í framkvæmd áður boðaðri 10 milljarða króna endurkaupaáætlun í kjölfar þess að búið er að ganga frá sölunni á Valitor.

Heimild: Landsbankinn. Samanburður á þróun hlutabréfaverðs Arion og Íslandsbanka frá áramótum. Taka verður tillit til þess að Arion banki greiddi í marsmánuði út 22,5 milljarða í arð (15 krónur á hlut) og arðgreiðsla Íslandsbanki nam 11,9 milljörðum (5,95 krónur á hlut).

Greinendur spá því að hreinar vaxtatekjur Arion banka, sem er meginuppistaða tekna allra stóru viðskiptabankanna, muni aukast um 24 prósent á öðrum ársfjórðungi og verða tæplega tíu milljarðar króna. Niðurstaðan ætti að verða svipuð hjá Íslandsbanka þar sem greinendur áætla að vaxtatekjur bankans muni hækka um 13,5 prósent og verða samtals tæplega 9,6 milljarðar króna.

Eftir að Seðlabanki Íslands lækkaði vexti sína skarpt í faraldrinum – þeir fóru lægst niður í 0,75 prósent í nóvember 2020 – hefur bankinn á síðustu mánuðum og misserum þurft að bregðast hart við ört hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum. Vextir Seðlabankans hafa því hækkað mikið á skömmum tíma – síðast um 100 punkta á vaxataákvörðunarfundi peningastefnunefndar í liðnum mánuði – og eru nú 4,75 prósent en allir greinendur og hagfræðingar spá því að vextirnir eigi eftir að hækka enn frekar síðar á árinu.

Hækkandi vaxtastig endurspeglast því að öðru óbreyttu í auknum vaxtatekjum bankanna en jafnframt hefur lánasafn þeirra almennt farið stækkandi eftir nokkurn lánavöxt, einkum í íbúðalánum til heimilanna. Á síðustu mánuðum hafa hins vegar orðið talsverð umskipti í útlánaþróun bankakerfisins þar sem mjög hefur dregið úr aukningu nýrra fasteignalána til heimilanna – á sama tíma eru lífeyrissjóðirnir að ryðja sér til rúms á þeim markaði – samhliða því að bankarnir eru farnir að stórauka á ný lán til atvinnulífsins.

Greinendur spá því að þóknanatekjur bæði Arion banka og Íslandsbanka muni aukast nokkuð á öðrum fjórðungi – um 7 til 9 prósent – en mesti samdrátturinn mun hins vegar birtast í fjármunatekjum bankanna sem er birtingarmynd erfiðra aðstæðna á verðbréfamörkuðum þar sem bæði hlutabréf og skuldabréf hafa lækkað í verði. Meðalspá greinenda gerir þannig ráð fyrir því að fjármunatekjur Arion banka muni verða neikvæðar um nærri 1,4 milljarð króna eftir að hafa verið jákvæðar á sama tímabili í fyrra upp á 2,2 milljarða.

Mikil óvissa er jafnan um niðurstöðu virðisbreytinga á lánasöfnum bankanna en því er spáð að þær verði neikvæðar í tilfelli Arion upp á 340 milljónir. Hjá Íslandsbanka spá greinendur því að virðisbreyting eigna verði jákvæð upp á 570 milljónir borið saman við 1.140 milljónir í fyrra.

Arðsemi Landsbankans langt undir markmiði

Landsbankinn, sem er nánast alfarið í eigu ríkissjóðs, birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í síðustu viku og dróst hagnaður bankans saman um 4,2 milljarða og var 2,3 milljarðar króna á tímabilinu. Það jafngilti arðsemi eiginfjár upp á 3,5 prósent en bankinn hefur sett sér það markmið að skila 10 prósenta arðsemi. Á meðan vaxtatekjur bankans jukust um 13 prósent – aðallega vegna hærra vaxtastigs og stærra útlánasafns – þá hafði á móti lækkun á gangvirði hlutabréfaeignar Landsbankans mjög neikvæð á afkomuna. Þar munar langsamlega mestu um óbeinan 3,5 prósenta hlut bankans í Marel en hlutabréfaverð félagsins lækkaði um liðlega 20 prósent á öðrum ársfjórðungi.

Þá sendi Kvika banki frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku þar sem fram kom að drög að uppgjöri samstæðunnar, sem inniheldur meðal annars rekstur TM, sýni að hagnaður fyrir skatta á öðrum fjórðungi verði á bilinu 450 til 500 milljónir króna. Það er um 1,8 milljörðum króna lakari afkoma en áður var áætlað en aðeins rúmlega tveir mánuðir eru liðnir frá því að félagið uppfærði hana og hljóðaði hún þá upp á 2,15 til 2,4 milljarða króna.

„Munur á afkomu samstæðunnar og áætlun skýrist af lægri fjárfestingatekjum en gert var ráð fyrir, enda voru aðstæður á verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum með allra versta móti. Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 0,9 milljarða en gert hafi verið ráð fyrir að þær yrðu jákvæðar um 1 milljarð króna á tímabilinu,“ sagði í tilkynningunni sem bankinn sendi frá sér.


Tengdar fréttir

Gengi bréfa Marels og Kviku hríðfellur eftir afkomuviðvaranir

Gengi hlutabréfa Marels og Kviku banka hefur lækkað mikið í verði í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun eftir að félögin sendu frá sér neikvæða afkomuviðvörun seint í gærkvöldi. Hagnaður félaganna á öðrum ársfjórðungi verður mun lægri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir vegna erfiðra markaðstæðna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.