Innherji

Hvalur segir enga lagastoð fyrir reglugerð Svandísar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. Egill Aðalsteinsson

Hvalur hf. telur ljóst að fyrirhuguð reglugerðarbreyting Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem skyldar áhafnir að tilnefna dýravelferðarfulltrúa til að hafa eftirlit með hvalveiðum, skorti lagastoð og rúmist ekki innan meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þetta kemur fram í umsögn hvalveiðifélagsins.

Í reglugerðinni er kveðið á um að skipstjórar hvalveiðiskipa tilnefni dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn sem skal bera ábyrgð á því að gætt sé að velferð hvala við veiðar á honum. Slíkir fulltrúar skuli sækja námskeið sem samþykkt er af Matvælastofnun, safna gögnum um veiðarnar og taka upp á myndband sem skuli afhenda eftirlitsdýralækni eftir hverja veiðiferð.

Hvalur vekur athygli á ummælum sem matvælaráðherra lét falla í viðtali við Ríkisútvarpið í sumar. Þar lagði ráðherra áherslu á að aflífun hvala væri með sambærilegum hætti og annarra dýra sem geta þjáðst.

„Þess vegna hyggst ég gera tvennt og nú þarf ég ekki lagabreytingu. Nú þarf ég ekki að fara í gegnum þingið og allt sem því fylgir,“ sagði Svandís.

Hvalur telur ljóst að skortur sé á viðhlítandi lagaheimild til þeirrar breytingar sem ráðherra leggur til. Ráðherra sé þannig ekki í stöðu að „þurfa ekki að fara gegnum þingið og allt sem því fylgir.“

Í lögum um velferð dýra er mælt fyrir um að ráðherra geti sett reglugerð um hverjir megi aflífa dýr, hvernig skuli staðið að aflífun og bann við tilteknum aðferðum við aflífun.

„Áskilnaður um að skipstjórar hvalveiðiskipa tilnefni dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn fyrir hvert skip sem skal bera ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðarnar, hann skuli sækja námskeið sem samþykkt skal vera af Matvælastofnun og halda skrá yfir allar aðgerðir er varða veiðarnar, mynda þær á myndband og skrá þær niður, rúmast ekki innan heimildar til setningar reglugerðar um hverjir megi aflífa dýr, hvernig skuli staðið að aflífun og banni við tilteknum aðferðum við aflífun,“ segir í rökstuðningi hvalveiðifélagsins.

Hvalur telur vandséð, vægt til orða tekið, að umþrættar reglugerðarbreytingar rúmist innan meðalhófsreglunnar

Einnig bendir félagið á að umræddar kvaðir samrýmist ekki gildandi leyfi Hvals þar sem meðal annars má finna skilyrði um aflífun. „Verður ekki séð að ráðherra geti hróflað við skilyrðum þegar útgefins leyfis.“ Jafnframt taki dýravelferðarlög ekki til „hefðbundinna hvalveiða“ eins og þær sem Hvalur hefur stundað í um 70 ár með hléum.

Hvalur vísar til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem segir að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.

„Hvalur telur vandséð, vægt til orða tekið, að umþrættar reglugerðarbreytingar rúmist innan meðalhófsreglunnar eins og hún hefur verið skýrð og túlkuð í réttar- og stjórnsýsluframkvæmd,“ segir í umsögninni.

Að lokum tekur hvalveiðifélagið fram að eftirlitsaðilum Fiskistofu og NAMMCO sé nú þegar heimilt að fara um borð í veiðiskip Hvals til að athuga farm, veiðifæri og dagbók.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi taka í sama streng. Í umsögn samtakanna er tilnefning dýravelferðarfulltrúa sögð „verulega íþyngjandi skylda“ án þess að fyrir liggi viðunandi lagastoð eða viðhlítandi rök. Að mati samtakanna er hægt að ná sömu markmiðum og reglugerðinni er ætlað að ná með öðrum og vægari hætti.

„Stjórnvöld geta gripið til eftirlitsheimilda sem tryggðar eru í núgildandi lögum um hvalveiðar og velferð dýra til að ganga úr skugga um að gætt sé að velferð hvala.“

Þá skiluðu fulltrúar sjómannasamtakanna umsögn þar sem fram reglugerðinni er mótmælt.

„Við teljum ótækt að skipstjóri sé settur í það hlutverk að tilnefna einn úr áhöfn í slíkt eftirlitshlutverk og sú mikla ábyrgð sem því fylgir sé lagt á áhafnarmeðlim hvalveiðiskips,“ segir í umsögn sjómannasamtakanna.

„Um er að ræða íþyngjandi breytingu sem kemur til með að hafa í för með sér kostnað, enda staðan sú að miðað við fjölda í áhöfn hafa allir áhafnarmeðlimir hlutverk við veiðarnar. Ekkert kemur fram í breytingartillögunni um það hver skuli bera þann kostnað. Veltum við því upp hvort ekki væri hægt að ná sama markmiði með viðurhlutaminni aðgerðum. Eftirlit á ekki að koma í hlut skipstjóra og áhafnar, ríkið getur ekki útvistað eftirlitshlutverki sínu til þeirra aðila sem eftirlit er haft með.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×