Innherji

Gavia Invest stærsti hluthafi Sýnar eftir kaup á hlut Heiðars

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Reynir Grétarsson, eigandi fjárfestingafélagsins InfoCapital. 
Reynir Grétarsson, eigandi fjárfestingafélagsins InfoCapital. 

Gavia Invest, fjárfestingafélag sem er að hluta til í eigu Reynis Grétarssonar, er orðið stærsti hluthafi fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækisins Sýnar með 14,95 prósenta hlut eftir kaup á eignarhlut Heiðars Guðjónssonar um helgina Þetta kemur fram í flöggun til Kauphallarinnar.

Að baki Gavia Invest standa InfoCapital ehf., sem er fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf, sem er á vegum Jonathan Rubini, sem er einn ríkasti maður Alaska og einn af eigendum Keahótela, og Andra Gunnarssonar, lögmanns og fjárfestis. E&S 101 er nú þegar á meðal stærstu hluthafa fasteignafélagsins Kaldalóns. 

Einnig er félagið Pordoi ehf., sem Jón Skaftason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Strengs og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, fer fyrir á bak við Gavia Invest. Jón er forsvarsmaður Gavia, að því er kemur fram í flögguninni. 

Eins og greint var frá í morgun hefur Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, selt allan 12,7 prósenta hlut sinn í Sýn fyrir tæplega 2,2 milljarða króna. Samhliða sölunni mun Heiðar láta af störfum sem forstjóri félagsins um mánaðarmótin.

Fjárfestingafélagið Ursus, sem er í eigu Heiðars, gekk frá sölu á bréfunum um helgina á genginu 64 krónur á hlut. Það er rúmlega níu prósentum hærra gengi en hlutabréfaverð Sýnar stóð í við lokun markaða síðastliðinn föstudag. Heiðar, sem tók við starfi forstjóra Sýnar árið 2019 eftir að hafa áður verið stjórnarformaður félagsins, var fyrir söluna stærsti hluthafi félagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.