Innherji

Salan á Mílu eykur fjárfestingar og lækkar verð, segir leiðandi ráðgjafi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rannsóknin hefur staðið sleitulaust frá 8. febrúar síðastliðnum, þegar fullbúin samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu.
Rannsóknin hefur staðið sleitulaust frá 8. febrúar síðastliðnum, þegar fullbúin samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu. Míla

Analysys Mason, virt ráðgjafastofa á sviði fjarskipta sem hefur fleiri hundruð ráðgjafa á sínum snærum, telur að salan á Mílu muni stuðla að aukinni fjárfestingu í innlendum fjarskiptainnviðum og lægra verði á fjarskiptaþjónustu. Þetta kemur fram í greiningu sem ráðgjafastofan útbjó að beiðni Ardian.

Helstu niðurstöður greiningarinnar má finna í athugasemdum franska sjóðastýringarfyrirtækisins við frummat Samkeppniseftirlitsins.

Analysys Mason telur að þrátt fyrir að Míla starfi nú þegar sem sjálfstæður aðili geti flutningur á eignarhaldi frá Símanum til sjálfstæðs aðila hjálpað til að bæta samkeppnisárangur á viðkomandi mörkuðum. Ráðgjafa nefnir þrjú atriði í þessu samhengi.

„Viðskiptin munu veita Mílu bættan aðgang að fjármagni sem styður við aukna fjárfestingu í innlendum fjarskiptainnviðum – þetta endurspeglast í áætlunum Ardian um allt að 28 milljarða króna fjárfestingu frá því viðskiptin koma til framkvæmda og til ársins 2030,“ segir í athugasemdum Ardian þar sem niðurstöðurnar eru teknar saman.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að viðskiptin auki traust þriðju aðila til Mílu, sem gera aukna samkeppni á íslenskum fjarskiptainnviðamarkaði mögulega og, að því gefnu að eftirspurn aukist, skapar kostnaðarhagræði.

Þá eru viðskiptin sögð hvetja til samnýtingar á innviðum á íslenskum fjarskiptamarkaði sem gerir það að verkum að framleiðsluþættir eru nýttir á skilvirkari hátt.

Viðskiptin munu veita Mílu bættan aðgang að fjármagni sem styður við aukna fjárfestingu í innlendum fjarskiptainnviðum

Ráðgjafastofan telur að viðskiptin hafi jákvæð áhrif á fjarskiptamarkaðinn á margs konar hátt. Gert er ráð fyrir aukinni útbreiðslu fasta- og farsímaneta fyrir neytendur, heimili og fyrirtæki og auknum þjónustugæðum.

Jafnframt eru viðskiptin sögð leiða af sér „lægra verð fyrir fyrir sambærilega þjónustu fyrir viðskiptavini íslenskrar fjarskiptaþjónustu miðað við stöðuna ef viðskiptin verða ekki að veruleika, sem stafar af kostnaðarhagræðingu og aukinni samkeppni.“

Heildsölusamningurinn í samræmi við „markaðsvenjur“

Í frummati Samkeppniseftirlitsins er gert ráð fyrir því að slitin á eignatengslum milli Símans og Mílu séu jákvæð í samkeppnislegu tilliti en eftirlitsstofnunin hefur meðal annars áhyggjur af því að 20 ára heildsölusamningur milli fyrirtækjanna tveggja geti komið í veg fyrir samkeppni. Að óbreyttu sé hætta á því að „keppinautum í innviðastarfsemi og heildsölu fækki verulega.“

Analysys Mason bendir á að þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um söluna á Mílu séu engin merki um neikvæð áhrif á fjárfestingar annarra innviðafyrirtækja á markaðinum. Er vísað til þess að uppbyggingaráform Ljósleiðarans séu í fullum gangi þrátt fyrir að forsvarsmönnum fyrirtækisins sé fullkunnugt um efni og tímalengd fyrirhugaðs þjónustu samnings á milli Símans og Mílu.

„Gefur það sterklega til kynna að Ljósleiðarinn telji það ekki hafa afgerandi áhrif á starfsemi sína að Míla sé aðalbirgir Símans þann tíma sem gert er ráð fyrir í þjónustusamningnum og hitt að til staðar sé fullnægjandi viðskiptavinagrunnur,“ segir í athugasemdunum sem lögmannastofan LEX vann fyrir Ardian.

Jafnframt hefur Ardian tekið saman meira en tuttugu dæmi um viðskipti sem hafa varðað kaup og sölu fjarskiptainnviðum í Evrópu sem öll hafa verið byggð upp á mjög svipaðan hátt. „Er sá samningur sem hér um ræðir í samræmi við markaðsvenjur í sambærilegum viðskiptum á fjarskiptamörkuðum innan Evrópu, enda eru slíkir samningar nauðsynlegir til þess að af viðskiptum sem þessum verði.“

Franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian hefur nú lagt til að heildsölusamningurinn verði 17 ár í stað 20 ára til að koma til móts við frummat Samkeppniseftirlitsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.