Viðskipti innlent

Samherji hf. hagnaðist um 17,8 milljarða

Eiður Þór Árnason skrifar
Fiskvinnsla Samherja á Dalvík.
Fiskvinnsla Samherja á Dalvík. Vísir/vilhelm

Hagnaður Samherja hf. nam 17,8 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 7,8 milljarða árið áður. Eigið fé félagsins var 94,3 milljarðar króna í árslok 2021 og námu heildareignir 128 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi sem lagður var fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Dalvík þann 19. júlí. Samherji hf. heldur utan um innlenda starfsemi Samherja og rekstur í Færeyjum. Hagnaður árið 2021 eftir skatta og án áhrifa og söluhagnaðar hlutdeildarfélaga var 5,5 milljarðar króna, samanborið við 4,5 milljarða árið áður. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 73,6% miðað við 72% árið á undan.

Fram kemur í tilkynningu á vef Samherja að ákveðið hafi verið að greiða ekki út arð vegna seinasta árs. Á seinasta ári voru hlutabréf Samherja hf. í Síldarvinnslunni hf. seld og nam söluhagnaður auk hlutdeildar í afkomu síðasta árs 9,7 milljörðum króna.

Söluhagnaður og hlutdeild Samherja hf. í afkomu annarra hlutdeildarfélaga en Síldarvinnslunni hf. nam samtals 2,6 milljörðum króna.

Seldar afurðir Samherja voru 52,8 milljarðar króna og að meðtöldum öðrum rekstrartekjum námu heildarrekstrartekjur 56,7 milljörðum króna á árinu 2021.

Fram kemur á vef Samherja að hlutabréf í hlutdeildarfélögum hafi verið seld á árinu og nam bókfærður hagnaður 7,1 milljarði króna. Þyngst vegur sala á 12% hlut í Síldarvinnslunni hf.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×