Viðskipti innlent

Eik kaupir Lamb­haga á 4,2 milljarða króna

Árni Sæberg skrifar
Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi stofnaði Lambhaga árið 1979. Eftir söluna á ávexti ævistarfs síns ætlar hann að reisa sér hús og njóta lífsins.
Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi stofnaði Lambhaga árið 1979. Eftir söluna á ávexti ævistarfs síns ætlar hann að reisa sér hús og njóta lífsins. Vísir/Baldur

Fasteignafélagið Eik er í þann mund að ganga frá kaupum á garð­yrkjustöðvunum Lambhaga í Úlfarsárdal og Lundi í Mosfellsdal. Kaupverðið er áætlað 4,2 milljarðar króna.

Fjallað er um kaupin í Bændablaðinu í dag en þar segir að ákvörðun endanlegs kaupverðs sé háð fyrirvörum, meðal annars um framkvæmd og niðurstöður áreiðanleikakannana, en að óbreyttu gæti heildarvirði hins selda í viðskiptunum numið allt að 4,23 milljörðum króna.

Um er að ræða 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis og 6.821 fermetra gróðurhúss að Lundi í Mosfellsdal og 14.300 fermetra byggingarheimildar.

Hafberg Þórisson, sem stofnaði Lambhaga árið 1979 kveðst sáttur með söluna í samtali við Bændablaðið. „Þetta leggst vel í mig og ég held eftir skika af Lundi og ætla að reisa mér hús þar og njóta lífsins. Ég fylgi ekki með í kaupunum og ætla að láta öðrum eftir reksturinn og áframhaldandi uppbyggingu stöðvanna,“ er haft eftir honum.

Kaupin falli vel að markmiðum stjórnvalda

Þá segir forstjóri Eikar í samtali við Bændablaðið að til standi að leigja fasteignirnar út til rekstraraðila sem kemur til með að halda grænmetisframleiðslu áfram. Þannig verði reksturinn keyptur af þriðja manni.

„Fjárfestingin býður upp á vænlega arðsemi auk stuðnings við íslenska matvælaframleiðslu. Það er mat okkar að matvælaframleiðsla sé vaxandi atvinnugrein á Íslandi sökum fjölgunar íbúa og ferðamanna, auk þess sem viðskiptin falla vel að yfirlýstum markmiðum stjórnvalda, um að auka sjálfbærni og efla fæðuöryggi,“ hefur Bændablaðið eftir Garðari Hannesi Friðjónssyni, forstjóra Eikar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.