Golf

Hovland skákar McIlroy | Stefnir í spennandi einvígi

Atli Arason skrifar
Það verða öll augu á þeim Rory McIlroy og Viktor Hovland á Opna breska meistaramótinu í golfi á lokadeginum morgun.
Það verða öll augu á þeim Rory McIlroy og Viktor Hovland á Opna breska meistaramótinu í golfi á lokadeginum morgun. Getty Images

Það stefnir allt í rosalegt einvígi milli hins Norður-Írska Rory McIlroy og Viktor Hovland frá Noregi á lokadegi Opna breska meistaramótsins í golfi.

Tvímenningarnir leiða mótið fyrir lokadaginn á morgun en báðir eru þeir samtals á 16 höggum undir pari eftir frábæra frammistöður í dag.

Hovland og McIlroy voru jafnir í þriðja sæti þegar þeir fóru af stað í morgun. Cameron Smith var með forystu en hann kláraði þriðja hringinn á einu höggi yfir pari á meðan McIlroy og Hovland kláruðu dag þrjú báðir á sex höggum undir pari.

Veðbankar töldu McIlroy sigurstranglegastan fyrir mótið og er hann nú í dauðafæri að vinna sinn fyrsta risatitil í átta ár.

„Ég er búinn að vera að banka á dyrnar í þó nokkurn tíma og núna er besta tækifærið til sigurs í langan tíma. Ég þarf bara að vera í mínum eigin heimi í einn dag í viðbót og vonandi get ég spilað nógu gott golf til þess að klára verkið,“ sagði McIlroy við CBS eftir þriðja hring.

Það skildi þó enginn afskrifa Norðmanninn unga sem spilaði nánast óaðfinnanlega til að halda í við McIlroy. Frammistaða sem skapar spennandi einvígi fyrir morgundaginn. Einvígi sem gæti farið í sögubækurnar en Hovland hefur aldrei unnið stórmót í golfi áður. Tvímenningarnir munu ræsa klukkan 13.50 á morgun.

Cameron Young var í öðru sæti í upphafi dags en hann kláraði þriðja hringinn á einu höggi undir pari og er því jafn nafna sínum Cameron Smith í þriðja sæti, fjórum höggum á eftir þeim Hovland og McIlroy.

Jafnir í fimmta sæti eru þeir Scottie Scheffler, efsti maður heimslistans, og Si Woo Kim frá Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×