Innherji

Gæfulegt að SÍ hafi ekki beitt sér af meiri krafti á skuldabréfamarkaði

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Skuldabréfasafn bankans, um 20 milljarðar króna að nafnverði, er ekki nema 0,6 prósent af vergri landsframleiðslu.
Skuldabréfasafn bankans, um 20 milljarðar króna að nafnverði, er ekki nema 0,6 prósent af vergri landsframleiðslu.

Íslenskt efnahagslíf, sér í lagi verðbréfamarkaðurinn, má þakka fyrir að Seðlabanki Íslands nýtti ekki heimild sína til magnbundinnar íhlutunar í meiri mæli. Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við Innherja. 

Seðlabankinn keypti ríkisskuldabréf fyrir um 22,6 milljarða króna frá því að peningastefnunefnd samþykkti heimild bankans til magnbundinnar íhlutunar í byrjun kórónukreppunnar. 

Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hafði farið hækkandi og horfði nefndin meðal annars til þess, að því er kom fram í fundargerð, að með magnbundinni íhlutun, sem leiðir til aukningu peningamagns í umferð, væri hægt að koma í veg fyrir hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði í kjölfar aukinnar útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfum.

Heildarfjárhæð skuldabréfakaupa Seðlabankans gat samkvæmt heimildinni numið allt að 150 milljörðum króna, eða um 5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Bankinn nýtti því aðeins um 15 prósent af heimildinni og hætti formlega að leggja fram kauptilboð í júlí 2021. Síðan þá hefur verðbólguþrýstingur farið vaxandi og í júní mældist verðbólga 8,8 prósent.

„Eins og staðan er í dag getum við þakkað fyrir að skuldabréfakaup Seðlabankans voru ekki meiri,“ segir Erna Björg.

„Þetta snýr einna helst að verðbréfamarkaðinum en það er sérlega jákvætt fyrir hann að Seðlabankinn þurfi ekki að vinda ofan af miklum skuldabréfakaupum líkt og seðlabankar beggja vegna Atlantshafsins. Það þarf ekki að rífa þann plástur af líkt og raunin er annars staðar.“

Efnahagsreikningar helstu seðlabanka heimsins hafa bólgnað út á undanförnum árum, einkum á tímum kórónuveirufaraldursins, samhliða stórfelldum uppkaupum þeirra á ríkisskuldabréfum. 

Skuldabréfasafn bankans, um 20 milljarðar króna að nafnverði, er ekki nema 0,6 prósent af vergri landsframleiðslu sem var um 3.233 milljarðar króna á síðasta ári. Til samanburðar nema eignir bandaríska Seðlabankans um 37 prósent af landsframleiðslu og í Evrópu er hlutfallið um 63 prósent.

Það þarf ekki að rífa þann plástur af líkt og raunin er annars staðar

Báðar stofnanir hafa beitt sér af miklum þunga á skuldabréfamarkaði frá því að kórónuveiran kom til sögunnar og áform um að vinda ofan af eignasafninu, sem þýðir að peningar eru teknir úr umferð, hefur að undanförnu haft mikil áhrif á verðbréfamarkaði.

„Þetta verður sársaukafullt fyrir markaði og að einhverju leyti eru áhrifin byrjuð að koma fram. En samstillt átak seðlabanka af þessari stærðargráðu og sérstaklega í þessu efnahagsástandi er eitthvað sem við höfum aldrei séð áður, svo í sannleika sagt erum við að ganga dálítið blint í sjóinn,“ segir Erna. 

Í svari bankans við fyrirspurn Innherja kom fram að engin skuldabréf hefðu hingað til verið seld og engin áætlun um slíkt hefði verið birt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.