Viðskipti innlent

Margir sagðir vilja í stjórn Festi

Árni Sæberg skrifar
Hluthafafundurinn fer fram í höfuðstöðvum Festar þann 14. júlí næstkomandi.
Hluthafafundurinn fer fram í höfuðstöðvum Festar þann 14. júlí næstkomandi. Stöð 2/Egill

Allt að þrjátíu eru sagðir hafa áhuga á því að taka sæti í stjórn Festi. Ný stjórn verður kosin á aukahluthafafundi þann 14. júlí næstkomandi.

Boðað var til hluthafafundar í Festi um miðjan júní en fundurinn fer fram þann 14. júlí næstkomandi. Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir að tilgangur fundarins sé að gefa hluthöfum færi á að kjósa nýja stjórn, eftir atvikum að endurnýja umboð sitjandi stjórnar, eða kjósa nýja eða breytta stjórn, allt eftir því hvað hluthöfum sýnist og hverjir gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Mikill styr hefur staðið um störf stjórnar Festi síðan upp kom að stjórnin hefði haft frumkvæði að því að Eggert Þór Kristófersson segði starfi sínu sem forstjóri félagsins lausu þann 2. júní.

„Stjórn Festi hefur ákveðið að boða hluthafafund vegna þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram í tengslum við starfslok forstjóra félagsins sem tilkynnt voru þann 2. júní sl. Stjórn víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni en telur að horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar sem send var Kauphöllinni.

Í tilkynningunni segir jafnframt að frestur til að skila inn framboðum til stjórnar til tilnefninganefndar renni út 28. júní, eða í fyrradag. 

Fréttablaðið hefur eftir heimildamönnum sínum að allt að þrjátíu manns hafi skilað inn slíku framboði. Tilnefninganefnd mun skila skýrslu sinni og tillögu um stjórnarmenn eigi síðar en klukkan 10 þriðjudaginn 5. júlí 2022.

Í frétt Fréttblaðsins er talað um fyrirhugaða hallarbyltingu sem er sögð tengjast því að ný stjórn reyni að ráða Eggert Þór Kristófersson sem forstjóra á ný.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.