Innherji

Sýna­taka skilaði Öryggis­mið­stöðinni 30 prósenta tekju­vexti

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Fjöldi ársverka var 342 á árinu 2021 og fjölgaði þeim um 51 milli ára.
Fjöldi ársverka var 342 á árinu 2021 og fjölgaði þeim um 51 milli ára. Vísir

Rekstrartekjur Öryggismiðstöðvar Íslands námu 6,1 milljarði króna á síðasta ári og jukust um rúmlega 30 prósent á milli ára. Tekjuaukninguna má einkum rekja til umsvifa í sýnatökum samkvæmt nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Öryggismiðstöðin, sem sérhæfir sig í öryggislausnum og velferðartækni, hagnaðist um 529 milljónir króna í fyrra sem er tvöfalt meiri hagnaður en á árinu 2020.

„Rekstur ársins gekk vel og byggði um 30 prósenta tekjuaukning milli ára að hluta á verkefnum sem lagt var af stað með árið áður, þ.e. að sinna COVID sýntökum, bæði fyrir Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í Orkuhúsinu, á Keflavíkurflugvelli sem og eigin skimunarstöðvum í BSÍ, Keflavík, Kringlunni og Hafnarfirði,“ segir í skýrslu stjórnar.

Öryggismiðstöðin gat fært til starfsmenn í flugtengdum verkefnum yfir í að sinna Covid-sýnatökum þannig komið í veg fyrir samdrátt í tekjum.

„Félagið gerir ráð fyrir að færa starfsfólk skimunarstöðvanna þegar skimunarverkefnum lýkur yfir í flugtengt verkefni og þannig koma í veg fyrir tekjufall,“ segir jafnframt í skýrslu stjórnar. Fjöldi ársverka var 342 á árinu 2021 og fjölgaði um 51 milli ára.

Fyrirtækið hlaut þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga í ár fyrir að hafa sýnt „einstaka aðlögunarhæfni á umbrotatímum.“ Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að þegar 120 störf á flugvellinum hurfu hefði Öryggismiðstöðin útvíkkað starfsemina til að halda öllum starfsmönnum áfram í vinnu.

„Þó að flestum verkefnum tengdum COVID sé lokið hefur myndast ný þekking innan fyrirtækisins tengd heilbrigðislausnum og þjónustu sem veitir fyrirtækinu frekari tækifæri til vaxtar á því sviði, segir í mati dómnefndar.“

Stærsti eigandi Öryggismiðstöðvarinnar er Unaós ehf. með 90 prósenta hlut. Helstu eigendur þess félags, hver með í kringum 30 prósenta hlut, eru Guðmundur Ásgeirsson, oft kenndur við Nesskip, hjónin Hjörleifur Þór Jakobsson og Hjördís Ásberg, og Auður Lilja Davíðsdóttir, markaðsstjóri fyrirtækisins.


Tengdar fréttir

Ríkis­sjóður greitt 1,3 milljarða fyrir hrað­próf

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa greitt rúmar 950 milljónir króna til einkaaðila vegna hraðprófa. Að sögn SÍ er líklegt að þessi tala eigi eftir að hækka þar sem reikningar fyrir þessa þjónustu berist stofnuninni með óreglulegum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×