Viðskipti innlent

„Pop-up verslun“ og nýr veitinga­staður opnuðu á Kefla­víkur­flug­velli

Atli Ísleifsson skrifar
Frá borðaklippingum í morgun.
Frá borðaklippingum í morgun. isavia

Tvær nýjar verslanir og veitingastaður opnuðu á Keflavíkurflugvelli í dag, en Isavia auglýsti nýverið laus svokölluð pop-up rekstrarrými til leigu á vellinum. Reiknað er með að fleiri pop-up veitingastaðir og verslanir opni á Keflavíkurflugvelli á næstu vikum.

Í tilkynningu frá Isavia segir að veitingastaðurinn Maika‘i og skartgripaverslunin Jens hafi opnað í pop-up rýmum sem starfrækt verða á flugvellinum í takmarkaðan tíma.

Þar að auki var bókabúð Pennans Eymundsson opnuð í nýju og stærra rými eftir flutninga á einni nóttu úr eldra rými búðarinnar í flugvallarbyggingunni.

Veitingastaðurinn Maika‘i opnaði í pop-up rými á vellinum í morgun.Isavia

„Veitingastaðurinn Maika‘i hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár en um er að ræða skyndibita í hollari kantinum, hinar svokölluðu açaí skálar. Eigendur Maika‘i, Elísabet Metta Svan Ásgeirsdóttir og Ágúst Freyr Hallsson hófu sölu á skálunum í Mathöllinni við Höfða en opnuðu stuttu síðar fyrsta útibúið undir nafni Maika'i á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Síðan þá hefur Maika‘i vaxið og dafnað og hægt er að kaupa vörur þeirra í verslunum víða um land.

Pennin Eymundsson opnaði í nýju rými á Keflavíkurflugvelli í morgun.Isavia

Jens er fjölskyldufyrirtæki sem nú er rekið af þriðju kynslóð gullsmiða sem hafa tekið þátt í að skapa og þróa íslenska skartgripatísku í 60 ár. Verslunin Jens hefur verið starfrækt við Grandagarð í Reykjavík, í Kringlunni og Smáralind en fjölskyldan og aðrir starfsmenn Jens eru mjög spennt fyrir opnun nýrrar verslunar á Keflavíkurflugvelli. Hægt verður að panta vörur hjá gullsmiðunum og sækja í fríhöfninni,“ segir í tilkynningunni.

Farþegafjöldi hefur aukist mikið á síðustu mánuðum og í farþegaspá Isavia fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að heildarfjöldi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll verði 5,7 milljónir. Er það um 79 prósent endurheimt á fjölda farþega frá 2019.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.