Atvinnulíf

Empower stækkar: Stoltar, stórhuga og í sókn

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Stoltar, stórhuga og í sókn enda stefnir Empower á útrás til Bandaríkjanna, Bretlands og Norðurlandanna strax á næsta ári. Fv. Dögg Thomsen og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnendur Empower, og Sygin Jónsdóttir, nýráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar félagsins.
Stoltar, stórhuga og í sókn enda stefnir Empower á útrás til Bandaríkjanna, Bretlands og Norðurlandanna strax á næsta ári. Fv. Dögg Thomsen og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnendur Empower, og Sygin Jónsdóttir, nýráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar félagsins. Vísir/Hulda Margrét

Þær eru stórhuga konurnar sem stýra Empower enda ekki á hverjum degi sem tilkynnt er um hundruði milljóna í fjármögnun til félags sem stofnað er af konum og stjórnað af konum. Fjármagn er jú oft konum í óhag.

Í maí var hins vegar tilkynnt um 300 milljóna króna fjármögnun Frumtaks og Tennin í fyrirtækinu Empower en það félag var stofnað af Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og Dögg Thomsen árið 2020. 

Fjármagnið tryggir þróun á hugbúnaðarlausn Empower, sem gerir félaginu kleift að þjónusta enn stærri markaðsvæði fyrirtækja og stofnana sem vilja ná árangri í að auka á jafnrétti og fjölbreytileika innan síns vinnustaða.

„Við erum að horfa á Evrópu og Bandaríkin sem spennandi kost til þess að byrja með, um leið og Covid verður ekki fyrirstaða lengur,“ sagði Þórey í viðtali við Atvinnulífið í nóvember 2020.

Nú eru þessar fyrirætlanir að raungerast. Fyrstu lotu fjármögnunar er lokið og nú er verið að auglýsa eftir starfsfólki. Þá var tilkynnt í vikunni að Sigyn Jónsdóttir hafi verið ráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar Empower, en Sigyn starfaði áður sem forstöðumaður þjónustu og ráðgjafar hjá Men & Mice.

„Hugbúnaðurinn okkar mun gera okkur kleift að skala aðferðarfræði Empower á alþjóðavettvangi og við stefnum á að fara til Bandaríkjanna, Bretlands og Norðurlandanna strax á næsta ári. Þetta eru svæði sem eru ekkert svo ólík okkur þar sem jafnrétti og fjölbreytileiki hefur víða verið sett á dagskrá,“segir Þórey og nefnir sem dæmi:

„Til dæmis er búið að innleiða lög og reglugerðir í nokkrum fylkjum í Bandaríkjunum sem skylda vinnustaði til að verja einni klukkustund á ári í að fræða starfsfólkið sitt um mikilvægi fjölbreytileikans. Þetta eitt og sér þýðir gríðarleg tækifæri fyrir okkur.“

Árangur Íslands býr til forskot

Til upprifjunar má nefna að upphafleg þjónusta Empower byggði á Jafnréttisvísinum sem Þórey þróaði og leiddi hjá Capacent á sínum tíma.

Þessi Jafnréttisvísir og sú aðferð sem Empower styðst við, hefur nú þróast og tekið á sig enn stærri mynd því í dag er bæði horft til jafnrétti kynja, en ekkert síður fjölbreytileikans á vinnustöðum.

„Við vorum til dæmis að fá nýjar niðurstöður úr könnuninni „Kynin og vinnustaðurinn“ um það hvernig hinsegin fólk upplifir mismunun á sínum vinnustað í samanburði við gagnkynhneigt fólk,“ segir Þórey sem dæmi um það hvernig verkefnið hefur stækkað síðustu misseri.

Í dag er ekki nóg að horfa eingöngu á kynin. 

Við þurfum að horfa á fjölbreytnina með tilliti til mismunandi hópa og samsetningu þeirra. 

Til dæmis kynhneigð, aldur, uppruna og fleira.

Þórey segir árangur Íslands í jafnréttismálum þó í forgrunni. Alþjóðasamfélagið horfi til þess hversu vel hefur gengið á Íslandi og oft sé hún spurð að því hvernig Íslendingum hafi í raun tekist svona vel upp.

„Allur heimurinn horfir á Ísland sem fyrirmynd á sviði jafnréttismála og það að vera íslenskt fyrirtæki er að gefa okkur gott forskot á alþjóðavísu,“ segir Þórey og bætir við ,,En við erum líka með góðan hóp viðskiptavina sem hjálpar líka við að sýna að aðferðarfræðin okkar er að virka.“

Þar má nefna vinnustaði eins og Alþingi, Landsvirkjun, Símann, - Háskólann á Akureyri eða Embætti Ríkislögreglustjóra.

„Við vitum að aðferðarfræðin okkar virkar því hún er þegar sannreynd á Íslandi. En þetta er líka búið að vera lærdómsrík vegferð þar sem við höfum tekið yfir 450 djúpviðtöl við starfsfólk vinnustaða, gert rannsóknir, staðið fyrir fræðslu og vinnustofum og margt fleira,“ segir Þórey.

Margir gera sér ekki grein fyrir því hvernig mismunun birtist á vinnustöðum. Hér má sjá dæmi um hversu ólíkar spurningar eru til fólks, eftir því hvort spurningunni er beint til kvenkyns stjórnanda eða karlkyns stjórnanda.Empower

Fólk upplifir vinnustaðinn á ólíkan hátt

Könnunin Kynin og vinnustaðurinn er rannsókn á vegum Empower, Háskóla Íslands, Maskínu, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins.

Markmiðið er að könnunin verði árleg en hún var fyrst framkvæmd í fyrra og aftur í maí síðastliðnum. Þá fengu starfsmenn hjá 53 aðildarfélögum Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins netkönnun þar sem fólk var beðið um að svara 18 spurningum.

Alls bárust 4150 svör.

Niðurstöður miða við að greina hvort munur er á stöðu, upplifun og líðan starfsfólks eftir kyni, aldri og kynhneigð.

Meðal þess sem sjá má í niðurstöðum er að þrefalt fleiri konur telja sig þurfa að sanna sig á vinnustað í samanburði við karlmenn.

Fjórtán sinnum fleiri kvenstjórnendur telja sig bera ábyrgð á heimilinu að meirihluta eða öllu leyti í samanburði við karlmenn.

Hinsegin fólk upplifir fleiri áskoranir í samskiptum og viðhorfi en gagnkynhneigt fólk og telur sig líka hafa minni aðgang að stjórnendum.

Konur og hinsegin fólk upplifir í mun meira mæli en karlmenn eða gagnkynhneigðir karlmenn að talsmáti eða brandarar séu óviðeigandi.

Þórey segir fræðslu mikilvæga þegar verið er að uppræta mismunun á vinnustöðum. Í þeim efnum leggi Empower áherslu á að ná til fólks með óhefðbundnum og jafnvel skemmtilegum leiðum og er mikil áhersla lögð á þann hluta hugbúnaðarins sem byggir á fræðslu.

„Við erum með örfræðslu sem byggir á myndum, sögum og leikjum eða stuttum og skemmtilegum myndböndum sem líkjast einna helst áhugaverðum Tik Tok myndböndum eða Instagram.“

Oft snúist fræðsla um að uppræta hegðun og viðhorf sem fólk áttar sig jafnvel ekki á að séu ríkjandi.

Þá sýna rannsóknir að í sumum tilvikum getur mismunun verið samþætt.

„Til dæmis getur kona sem er af erlendum uppruna eða með fötlun upplifað samþætta mismunun í sinn garð,“ segir Þórey til útskýringar.

Leggja áherslu á praktískar lausnir

Þórey segir áhersluna vera á að vinnustaðir geti unnið að umbótum með praktískum leiðum. Þess vegna sé hugbúnaðarlausnin svo mikilvæg sem verið er að þróa og sú gervigreind sem sá hugbúnaður mun byggja á.

Í stuttu máli verður virknin þannig að mannauðstjórinn getur sótt yfirsýn yfir stöðu mála hjá sér á rauntíma, vinnustaðurinn síðan sett sér markmið og séð í kerfinu hversu langt eða stutt er í að markmiðinu sé náð miðað við rauntímamælingar. 

Kerfið mælir svo með hvaða örfræðslu varðandi jafnrétti og fjölbreytni eigi að setja af stað miðað við stöðu mælinga.“

Starfsfólk mun þó ekki þurfa að svara könnunum með mörgum spurningum árlega eða reglulega.

„Þetta verða ein til tvær spurningar sem fólk verður beðið um að svara í einu en nokkru sinnum yfir árið. Kerfið krosskeyrir gögn við upplýsingar úr öðrum kerfum sem vinnustaðurinn býr yfir, launakerfið sem dæmi.“

Alls kyns aðlögun mun þó þurfa að skoðast fyrir hvern viðskiptavin. Ekki síst þegar Empower hefur hafið sína útrás til Bandaríkjanna og Evrópu.

„Mismunandi fæðingarorlofstaka þarf til dæmis að skoðast sérstaklega. Við höfum skoðað hvernig fæðingarorlofstakan á Íslandi er að koma út miðað við kynin og sjáum að þetta er breyta sem hefur áhrif.“

Þórey segir það hins vegar ekki hafa áhrif þótt lög og reglur um fæðingarorlof séu mismunandi á milli landa. Hver og einn vinnustaður þurfi alltaf að vinna að markmiðum og árangri miðað við þær forsendur sem eru til staðar hjá hverjum og einum.

Heimsbyggðin horfir á Ísland sem fyrirmynd jafnréttismála og aðferðarfræði Empower hefur verið sannreynd hér. Saman gefur þessi staða Empower gott forskot til að ná árangri á alþjóðavettvangi.Vísir/Hulda Margrét

Stoltar, stórhuga og í sókn

Þessa dagana standa yfir ráðningar á starfsfólki til Empower og gerir Þórey ráð fyrir að innan árs verði starfsmenn félagsins um tíu til þrettán talsins.

Þá segir Þórey ýmsar dyr hafa opnast fyrir Empower í gegnum ráðgjafaráð félagsins þar sem sex einstaklingar sitja.

„Það eru ekki allir að átta sig á því hversu stór nöfn þessir aðilar teljast vera á alþjóðavísu. Ég nefni sem dæmi Christy Tanner sem er forstjóri Tanner Media en var um árabil einn af lykilstjórnendum bandarísku fréttaveitunar CBS og sú sem að leiddi stofnun CBSN streymisveitunar“ segir Þórey.

Tveir Íslendingar sitja í þessu sex manna ráði en það eru Hanna Birna Kristjánsdóttir Senior Advisor hjá Women‘s Leadership hjá UN Women og Ólafur Andri Ragnarson frumkvöðull og aðjúnkt hjá HR.

Þórey segir stærsta verkefni vetrarins hafa verið sú fjármögnun sem kynnt var á dögunum en á næsta ári er ætlunin að fara í aðra fjármögnunarlotu og tryggja þannig fjármagn á erlenda markaði.

„Það felast gríðarleg tækifæri í þessu því fyrirtæki og stofnanir eru svo víða um heim að beina sjónum sínum að málaflokkum jafnréttis og fjölbreytni. Það verður rosalega spennandi þegar að við erum komin með nokkra vinnustaði inn í hugbúnaðinn þannig að hægt sé að fara að bera gögn og niðurstöður saman við ákveðna geira eða svæði. 

Eitt af því góða við þetta verkefni er líka sú umræða sem getur skapast á vinnustöðum í kjölfar þess að innleiða aðferðarfræði og fræðslu Empower. 

Til dæmis sáum við það í vor þegar við kynntum nýjar niðurstöður að þar opnuðust tækifæri fyrir hinsegin fólk að opna umræðuna innandyra hjá sér.“

Þórey er bjartsýn á framhaldið og segir líka það verkefni að stuðla að auknu jafnrétti og fjölbreytileika vera risastórt á alþjóðavísu og eitthvað sem bæði er eftirspurn og áhugi fyrir.

„Aðalmálið er að við erum búnar að sannreyna aðferðarfræðina okkar og vitum að hún virkar og getur hjálpað öðrum víða um heim að ná árangri. Og auðvitað erum við líka stoltar af því að vera konur í forsvari fyrir félagið því það skiptir máli að fjármagn til sprotafyrirtækja fari til fjölbreyttra hópa frumkvöðla.“


Tengdar fréttir

Sigyn til Empower

Sigyn Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar hjá Empower þar sem hún mun leiða þróun jafnréttishugbúnaðarins Empower Now.

Stjórnarkonur ósáttar: Karlaklíkur útiloka konur í forstjórastólinn

Stjórnarkonur í skráðum félögum á Íslandi telja ráðningaferli í forstjórastól oft útilokandi fyrir konur. Þær kalla stjórnir í heild sinni til ábyrgðar. Þá telja margar ráðningaferlin oft meingölluð. Það eigi einnig við um ráðningar þar sem leitað er til fagaðila. Þetta og fleira kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem birtar eru í dag og meira en helmingur stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi tók þátt í.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×