Vísi var bent á að nýlega hafi Íslandsbanki ákveðið að herða reglur sínar um viðskipti bankastarfsmanna allverulega. Jafnframt barst Vísi til eyrna að sumir starfsmenn bankans væru óánægðir með breytingarnar, verið væri að herða reglurnar um of, sérstaklega að miðlurum bankans. Vænta má að þessar hertu reglur komi í kjölfar hinna miklu viðbragða almennings og sérfræðinga við útboðið á hlut bankans í mars.
Í kjölfar breytinganna geta starfsmenn einungis verslað með hlutabréf og skuldabréf í Íslandsbanka á opnu viðskiptatímabili, þ.e. 30 dögum eftir birtingu uppgjöra bankans og miðlurum er óheimilt að eiga verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning. Þá segir að í þeim útboðum þar sem bankinn er sjálfur útgefandi eða umsjónaraðili taki framkvæmdastjórn fyrirfram afstöðu til þess hvort starfsmönnum sé heimiluð þátttaka.
Blaðamaður hafði samband við fulltrúa bankans til að spyrjast fyrir um breytingarnar á reglunumen í svari frá bankanum segir að tilgangur breytinganna hafi verið að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur og að þær hafi verið gerðar til að reglurnar væru hafðar yfir allan vafa.
Að neðan má sjá svörin frá bankanum varðandi hinar breyttu reglur.
Hér eru breytingarnar sem gerðar voru á reglum bankans er snúa að viðskiptum starfsmanna með fjármálagerninga. Tilgangur þeirra er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur og voru breytingar gerðar til þess að reglurnar væru hafðar yfir allan vafa.
Starfsmönnum er einungis heimilt að eiga viðskipti með hlutabréf/skuldabréf í Íslandsbanka á opnu viðskiptatímabili (þ.e. 30 dögum eftir birtingu uppgjöra bankans) og í almennum útboðum til almennra fjárfesta. Rétt er að benda á að þessar reglur eiga við alla starfsmenn bankans og nána fjölskyldumeðlimi, sjá nánar í reglunum.
Starfsmönnum verðbréfamiðlunar og eigin viðskipta er óheimilt að eiga verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning.
Í almennum útboðum þar sem bankinn er sjálfur útgefandi eða umsjónaraðili tekur framkvæmdastjórn fyrirfram afstöðu til þess hvort starfsmönnum sé almennt heimil þátttaka.