Innherji

Akta byggir upp stöðu í Skel og komið í hóp stærstu hluthafa

Hörður Ægisson skrifar
Skel fjárfestingafélag rekur meðal annars um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar.
Skel fjárfestingafélag rekur meðal annars um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar. Orkan

Akta hefur í þessum mánuði verið að kaupa bréf í Skel, sem áður hét Skeljungur, og fer nú að lágmarki með rúmlega 1,2 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu í gegnum tvo sjóði í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins. Í krafti þess eignarhlutar er Akta tíundi stærsti hluthafi Skel en núverandi markaðsvirði þeirra bréfa er um 370 milljónir króna.

Í nýjum uppfærðum lista yfir tuttugu umsvifamestu eigendur Skel voru vogunarsjóðirnir Akta HS1 og Akta HL1 – sjóðir sem notast jafnan við mikla skuldsetningu, stundum nefnd gírun, í fjárfestingum sínum – skráðir í lok síðustu viku fyrir samanlagt um 1,23 prósenta hlut í félaginu. Raunverulegur eignarhlutur Akta gæti hins vegar verið enn meiri ef sjóðir félagsins hafa sömuleiðis gert framvirka samninga við einhverja af bönkunum sem halda þá á þeim bréfum í Skel.

Arion, Kvika banki og Íslandsbanki eru samanlagt skráðir fyrir rúmlega tíu prósenta hlut í fjárfestingafélaginu.

Við lokun markaða í dag stóð gengi bréfa Skel í 15,3 krónum á hlut en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um rúmlega 16 prósent frá hæsta gildi sínu í lok aprílmánaðar þegar það fór í 18,3 krónur á hlut. Frá áramótum hefur gengi bréfanna hins vegar hækkað um tæplega átta prósent á meðan Úrvalsvísitalan er á sama tíma niður um 22 prósent.

Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi félagsins á undanförnum mánuðum. Mikil viðskipti voru með bréf Skel, sem er í dag með markaðsvirði upp tæplega 30 milljarða króna, í byrjun þessa árs þegar lífeyrisjóðirnir Gildi, Birta og Lífsverk seldu samtals um 13,6 prósenta hlut í félaginu fyrir um fjóra milljarða króna á tímabilinu 6. til 10. janúar. Samanlagður eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða hefur farið ört minnkandi frá árinu 2020 – Frjálsi er í dag stærstur sjóðanna með 8,6 prósenta hlut og þar á eftir kemur Birta með 4,2 prósent – og nemur nú um 16 prósentum.

Fjárfestingafélagið Strengur, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, er sem kunnugt er með rúmlega 50 prósenta hlut í Skel eftir að hafa fjármagnað skuldsetta yfirtöku á félaginu í ársbyrjun 2021.

Stærstu kaupendur að þeim bréfum sem lífeyrissjóðirnir seldu í ársbyrjun, eins og Innherji hefur áður fjallað um, voru bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var áður stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið, og félagið GE Capital sem er í eigu Guðna Rafns Eiríkssonar, fjárfestis og eigenda Apple umboðsins á Íslandi. Taconic og Guðni Rafn keyptu hvor um sig rétt rúmlega fimm prósenta hlut og var gengið í viðskiptunum 14,7 krónur á hlut.

Síðar í þeim mánuði bættust tvö félög á vegum Jakobs Valgeirs Flosasonar, útgerðarmanns og fjárfestis, við hluthafahópinn þegar þau keyptu samanlagt um 1,55 prósenta hlut sem skilar honum í hóp tíu stærstu eigenda fyrirtækisins. Á sama tíma kom Helgi Magnússon, fjárfestir og aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, einnig nýr inn í eigendahópinn í gegnum eignarhaldsfélag sitt Hofgarðar. Félagið fer í dag með rúmlega 0,7 prósenta eignarhlut, sem gerir það að tólfta stærsta hluthafa Skel.

Þá fóru sjóðir Stefnis að byggja upp stöðu í Skel í marsmánuði á þessu ári en tveir hlutabréfasjóðir í stýringu félagsins fara í dag með yfir þriggja prósenta hlut í félaginu.

Í apríl var tilkynnt um að Skel hefði ráðið Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra fjárfestingafélagsins og hefur hann störf í sumar. Þá var Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, fenginn til að taka við sem fjármálastjóri Skel.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi Skel að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Samhliða því var nafni þess breytt úr Skeljungi í SKEL fjárfestingafélag. Þá hafa stjórnendur hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.

Undir lok aprílmánaðar var tilkynnt um það í flöggun til Kauphallarinnar að Skel væri komið með um 7,3 prósenta hlut í VÍS og væri eftir þau kaup fjórði stærsti hluthafi tryggingafélagsins.

Skel áætlar að afkoma samstæðunnar – sem samanstendur af dótturfélögunum Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon – verði jákvæð um 7,6 til 8,3 milljarða að teknu tilliti til vænts söluhagnaðar af fasteignum að fjárhæð 5 milljarðar. Gert er ráð fyrir að afkoma af áframhaldandi starfsemi og fjárfestingastarfsemi verði á bilinu 2,6 til 3,3 milljarðar króna.


Tengdar fréttir

Nýir stjórnendur SKEL og Kristín Erla koma inn í stjórn Kaldalóns

Á hluthafafundi Kaldalóns síðar í vikunni, sem var boðað til að beiðni SKEL fjárfestingafélags, stærsta hlutahafans, verður stjórnarmönnum fasteignafélagsins fjölgað úr þremur í fimm. Nýráðnir stjórnendur SKEL, þeir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason og Magnús Ingi Einarsson, munu báðir koma inn í stjórn Kaldalóns en þeir hefja störf hjá fjárfestingafélaginu í byrjun júlí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×