Klinkið

Hlutafjárútboð Nova og þegar partýið í Kauphöllinni klárast

Ritstjórn Innherja skrifar
Fyrstu viðskipti með Nova í Kauphöllinni munu hefjast þriðjudaginn 21. júní næstkomandi. Markaðsvirði félagsins við skráningu er 19,5 milljarðar.
Fyrstu viðskipti með Nova í Kauphöllinni munu hefjast þriðjudaginn 21. júní næstkomandi. Markaðsvirði félagsins við skráningu er 19,5 milljarðar. Vísir/Vilhelm

Markaðsaðstæður hafa sjaldan verið eins krefjandi frá því eftir fjármálahrunið 2008. Úrvalsvísitalan er niður um meira en 22 prósent frá áramótum – skilgreining á því sem er gjarnan nefnt bjarnarmarkaður – og útlit er fyrir enn frekari skarpar vaxtahækkanir Seðlabankans á næstu mánuðum eigi að takast að ná böndum á verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntingum.

Beggja vegna Atlantshafsins eru horfurnar síst betri þar sem fjárfestar eru farnir að búa sig undir ástand sem mun einkennast af kreppuverðbólgu.

Bölmóðurinn á markaði setti samt ekki strik í reikninginn hjá Ölgerðinni og Nova sem héldu sig við áður boðuð áform um að ráðast í almennt hlutafjárútboð og skráningu í Kauphöllina. Fullyrða má að við þá ákvörðun hafi það vegið þungt að treysta mætti á vaxandi áhuga almennings á hlutabréfafjárfestingum sem hefur endurspeglast í mikilli þátttöku úr þeirri átt í nýskráningum margra félaga á síðustu misserum.

Útboð Ölgerðarinnar í lok maímánaðar, sem var í kjölfarið skráð á markað í síðustu viku, var þar engin undantekning og heppnaðist vonum framar. Tæplega sjö þúsund nýir fjárfestar bættust við hluthafahóp félagsins – að mjög stórum hluta var um að ræða ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára – þegar 29,5 prósenta hlutur var seldur fyrir samtals 7,9 milljarða en umframeftirspurnin reyndist vera rúmlega fjórföld. Fagfjárfestar sýndu útboðinu mikinn áhuga – umframeftirspurnin þar var fimmföld – og því var endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók B (þar sem lágmarksfjárhæð áskrifta var 20 milljónir) um 13 prósentum hærra heldur en í tilfelli almennra fjárfesta sem fengu úthlutað í sinn hlut bréfum fyrir tæplega 679 þúsundir króna.

Fjarskiptafélagið naut án vafa góðs af því að vera þekkt fyrir sterkt vörumerki og öflugt markaðsstarf sem hefur átt sinn þátt í að stuðla að góðri þátttöku minni fjárfesta, einkum ungs fólks, í útboðinu.

Með þessa góðu niðurstöðu Ölgerðarinnar í farteskinu ákváðu stjórnendur og ráðgjafar Nova að fylgja í kjölfarið og fleyta félaginu á markað með því að ráðast í hlutafjárútboð af sambærilegri stærðargráðu og hjá drykkjarvöruframleiðandanum. Stefnan var sett á að selja á bilinu 37 til 45 prósenta hlut í félaginu – endanleg niðurstaða myndi ákvarðast af því hver eftirspurnin yrði í útboðinu – fyrir um 7,2 til 8,7 milljarða króna miðað við lágmarksgengið 5,11 krónur á hlut.

Útboðið kláraðist í lok liðinnar viku og lukkaðist um margt ágætlega. Alls bárust rúmlega fimm þúsund áskriftir að andvirði um 12 milljarðar króna – minna en tvöföld umframeftirspurn sé miðað við grunnstærð útboðsins – en áhuginn var aðallega drifin áfram af þátttöku almennra fjárfesta sem skiluðu inn tilboðum fyrir meira en sjö milljarða. Það jafngilti um þrefaldri umframeftirspurn eftir þeim hlutum voru boðnir til sölu í tilboðsbók A. Fjarskiptafélagið, rétt eins og á við í tilfelli Ölgerðarinnar, naut án vafa góðs af því að vera þekkt fyrir sterkt vörumerki og öflugt markaðsstarf sem hefur átt sinn þátt í að stuðla að góðri þátttöku minni fjárfesta, einkum ungs fólks, í útboðinu.

Það sem vekur hins vegar mesta athygli við niðurstöður útboðsins er fremur dræm þátttaka fagfjárfesta. Í tilboðsbók B, sem er hugsuð fyrir meðal annars efnameiri fjárfesta, lífeyrissjóði, verðbréfasjóði og fjárfestingafélög, var aðeins rétt ríflega eftirspurn eftir þeim hlutum sem boðnir voru til sölu fyrir um 4,7 milljarða. Endanlegt útboðsgengi reyndist því vera hið sama og í tilfelli almennu fjárfestanna í tilboðsbók A. Slíkt hefur heyrt til undantekninga í þeim almennu útboðum sem hafa farið fram með sambærilegu fyrirkomulagi á síðustu árum.

Heyra mátti á fagfjárfestum og öðrum markaðsaðilum í aðdraganda útboðsins að mörgum þótti Nova vera þar nokkuð ríflega verðlagt en lágmarksgengið var ákvarðað hið sama og þegar hópur fjárfesta keypti rúmlega þriðjungshlut í félaginu fyrir um sjö milljarða í byrjun apríl. Miðað við útboðsgengið var hlutfall heildarvirðis Nova á móti áætluðum 3,35 til 3,55 milljarða EBITDA hagnaði félagsins á árinu 2022 þannig um 8,2 en sama hlutfall hjá Sýn, annað af tveimur fjarskiptafyrirtækjunum sem er þegar fyrir á hlutabréfamarkaði, var til samanburðar um 4,2 í lok maímánaðar.

Þrátt fyrir að ekki hafi reynst umframeftirspurn hjá fagfjárfestum á hærra verði en sem nam lágmarksgenginu ákváðu seljendur engu að síður að stækka hlutafjárútboðið um fimmtung – úr 37 prósenta hlut í 45 prósenta hlut – með því að nýta sér mikla umframeftirspurn almennra fjárfesta og ráðstafa þeim hlutum til þeirra. Sá ákvörðun hefur sætt furðu hjá mörgum á markaði með hliðsjón af því að eftirspurn stærri fjárfesta á útboðinu reyndist ekki meiri en raun bar vitni. Þykir hún til marks um að seljendur hafi verið örvæntingarfullir að losa um sem mest af bréfum sínum við erfiðar markaðsaðstæður.

Ekki er ávallt hægt að taka því sem sjálfsögðum hlut að slík veðmál gangi upp og hætt er við því að sumir muni brenna sig á þeirri staðreynd þegar viðskipti með bréf Nova verða tekin til viðskipta í næstu viku.

Margir almennir fjárfestar hafa tekið þátt í hlutafjárútboðum fyrirtækja á undanförnum árum í þeirri vissu að geta selt bréfin jafnóðum við skráningu félaganna á markað á hærra verði til fagfjárfesta (oft lífeyrissjóða) sem hafa fengið talsvert minna úthlutað en þeir sóttust eftir – og þannig leyst til sín smávægilegan hagnað af þeim viðskiptum. Það hefur oftar en ekki gengið eftir.

Ekki er hins vegar ávallt hægt að taka því sem sjálfsögðum hlut að slík veðmál gangi upp – ekki síst við núverandi aðstæður á mörkuðum – og hætt er við því að sumir fjárfestar muni brenna sig á þeirri staðreynd þegar viðskipti með bréf Nova verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í byrjun næstu viku.  


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Mæla með kaupum í Nova og verðmeta félagið á yfir 22 milljarða

Hlutafé Nova, sem verður skráð á Aðalmarkað í Kauphöllinni síðar í þessum mánuði, er metið á rúmlega 22,2 milljarða í nýju verðmati sem hefur verið framkvæmt af IFS Greiningu í aðdraganda hlutafjárútboðs fjarskiptafélagsins sem stendur nú yfir og klárast næstkomandi föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×