Formúla 1

Ferrari bílarnir féllu báðir úr leik og heimsmeistarinn kom fyrstur í mark

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liðsfélagarnir Max Verstappen og Sergio Perez komu fyrstir í mark.
Liðsfélagarnir Max Verstappen og Sergio Perez komu fyrstir í mark. Peter Fox/Getty Images

Heimsmeistarinn Max Verstappen kom fyrstur í mark í Formúlu 1 kappakstrinum sem haldinn var í Bakú í dag. Næstur kom liðsfélagi hans, Sergio Perez, en bæði Charles Leclerc og Carlos Sainz á Ferrari þurftu að draga sig úr keppni.

Það var þó Leclerc sem hóf keppni á ráspól. Strax í ræsingunni missti hann Perez fram úr sér og eftir að hafa farið inn á þjónustusvæði voru báðir Red Bull bílarnir komnir fram úr honum.

Strax á níunda hring byrjuðu vandræðin fyrir Ferrari-liðið, en þá varð bilun í bremsubúnaði Carlos Sainz og hann þurfti því að draga sig úr keppni.

Aðeins ellefu hringjum síðar bættist grátt ofan á svart þegar vélarbilun varð í bíl Charles Leclerc og báðir Ferrari bílarnir því úr leik eftir aðeins tuttugu hringi.

Það sem eftir var gátu liðsmenn Red Bull því keyrt nokkuð örugglega og klárað hringina sem eftir voru. Max Verstappen sigraði að lokum keppnina og liðsfélagi hans, Sergio Perez, kom annar í mark. Liðsfélagarnir á Mercedes, þeir Lewis Hamilton og George Russell, komu þar á eftir.

Eftir keppni dagsins er Max Verstappen efstur í heimsmeistarakeppni ökumanna með 150 stig og næstur kemur Perez með 129. Charles Leclerc kemur svo þriðji með 110 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.