Viðskipti innlent

Opna hótel í sögu­frægu húsi á Siglu­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Dönsku krónprinshjónin heimsóttu Hótel Hvanneyri í heimsókn sinni til Íslands árið 1938.
Dönsku krónprinshjónin heimsóttu Hótel Hvanneyri í heimsókn sinni til Íslands árið 1938. Aðsend

Keahótel hafa opnað nýtt gistihús á Siglufirði, Salt, sem staðsett er í sögufrægu húsi sem áður hýsti Hótel Hvanneyri og var fyrst starfrækt árið 1934.

Í tilkynningu kemur fram að Hvanneyri hafi lengi verið einn helsti samkomustaður Siglfirðinga og þegar dönsku krónprinshjónin hafi komið þangað sumarið 1938 hafi bæjarstjórnin boðið þeim og fylgdarliði þeirra til hressingar á hótelinu.

„Keahótel tóku við rekstri Sigló Hótels í febrúar síðastliðnum og færa nú út kvíarnar með opnun á Salt gistihúsi. Nafn gistihússins vísar til Síldaráranna á Siglufirði þar sem síldin var söltuð í trétunnur en merki gistihússins er trétunna sem vísar einnig til þessa sögulegu tíma. Í gistihúsinu eru 24 herbergi sem rúma einn til þrjá gesti, þar af eru átta herbergi með sérbaðherbergi. Salt gistihús er staðsett í miðbæ Siglufjarðar og er því í göngufæri við veitingastaði, verslanir og helstu þjónustu í bænum.

Haft er eftir Snorra Pétri Eggertssyni, framkvæmdastjóra sölu og markaðssviðs Keahótela, að félagið hafi mikla trú á svæðinu og væntingar til áframhaldandi uppgangs ferðaþjónustu á Siglufirði, sem hafi verið mikil á undanförnum árum. „Það er ánægjulegt að geta boðið upp á annan og hagkvæmari kost þegar kemur að gistingu á svæðinu og það í þessu sögufræga húsi “, segir Snorri Pétur.

Salt gistihús verður tíundi gististaðurinn í keðju Keahótela, sem meðal annars reka Hótel Kea á Akureyri, Hótel Borg í Reykjavík og Hótel Kötlu á Vík.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×