Innherji

Íslenska lífeyriskerfið með hæsta hlutfall sjóðsöfnunar innan OECD

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) nemur lífeyrissparnaðurinn 219 prósentum.
Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) nemur lífeyrissparnaðurinn 219 prósentum. VÍSIR/VILHELM

Lífeyrissparnaður landsmanna í formi samtryggingar og séreignar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila nam 7.083 milljörðum króna í árslok 2021 og jókst um 17,3 prósent á árinu.

Þetta kemur fram í samantekt Seðlabanka Íslands úr ársreikningum lífeyrissjóða og sambærilegum gögnum frá öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar.

Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) nemur lífeyrissparnaðurinn 219 prósentum. „Miðað við bráðabirgðatölur OECD er það hæsta hlutfall sjóðsöfnunar innan aðildarlanda þess, en Danmörk og Holland fylgja fast á eftir með um 210 prósent hvort,“ segir í frétt á vef Seðlabankans.

Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna námu við árslok 6.032 milljörðum króna og jukust um 17,6 prósent eða um 900 milljarða milli ára. Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna versnaði frá fyrra ári vegna breyttra forsenda um lífslíkur. 

Tryggingafræðileg staða skiptist í tvennt. Annars vegar er það áfallin staða, sem segir fyrir um hvort eignir viðkomandi lífeyrissjóðs séu nægar til þess að mæta réttindum sem sjóðurinn hefur nú þegar lofað sjóðfélögum. Hins vegar framtíðarstaða sem felur í sér mat á áætluðum iðgjöldum núverandi sjóðfélaga og réttindum, sem þeir munu ávinna sér með áframhaldandi greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins.

Nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa gripið til þess ráðs að breyta áunnum lífeyrisréttindum mismikið eftir aldurshópum til þess að bregðast við áhrifunum sem uppfærðar líftöflur hafa á skuldbindingar sjóðanna. 

Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 706 milljörðum króna sem var um 18,9 prósenta aukning frá árinu á undan. Séreignarsparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 345 milljörðum og jókst um 10 prósent.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.