Innherji

Stjórnendur taki sjálfbærni alvarlega til að forðast ásakanir um grænþvott

Ritstjórn Innherja skrifar
Gunnar Sveinn Magnússon, sem fyrir fyrir sjálfbærni- og loftlagsmálum hjá Deloitte, segir að stærri fyrirtæki muni brátt verða skyldug til að birta ítarlegar upplýsingar um starfsemi sína út frá sjálfbærni viðmiðum sem eigi svo eftir að stigmagnast á næstu árum.
Gunnar Sveinn Magnússon, sem fyrir fyrir sjálfbærni- og loftlagsmálum hjá Deloitte, segir að stærri fyrirtæki muni brátt verða skyldug til að birta ítarlegar upplýsingar um starfsemi sína út frá sjálfbærni viðmiðum sem eigi svo eftir að stigmagnast á næstu árum.

Villandi upplýsingagjöf af hendi fyrirtækja í tengslum við sjálfbærni og loftlagsmál, eins og þýski eignastýringarrisinn DWS hefur verið ásakaður um, getur valdið alvarlegum orðsporshnekki eða varðað við lög með tilheyrandi fjárhagslegri áhættu eða tapi fyrir viðeigandi fyrirtæki.

Þetta segir Gunnar Sveinn Magnússon, meðeigandi og stjórnandi hjá Deloitte á Íslandi og á Norðurlöndunum, en hann fer fyrir loftlags- og sjálfbærniuppbyggingu hjá ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækinu.

Forstjóri DWS, sem er eignastýringarmur Deutche Bank, sagði af sér í lok síðasta mánaðar eftir ásakanir um grænþvott og lögreglurannsóknar sem fylgdi í kjölfarið. „Þessi atburður hefur vakið mikla athygli á erlendum fjármálamörkuðum enda um tímamótaviðburð að ræða,“ að sögn Gunnars Sveins.

„Það má ekki síst rekja til þess að fyrirtæki hafa hingað til ekki mátt búast við þungum viðurlögum í tengslum við sjálfbærni og loftslagsmál. Sum þeirra hafa jafnvel notað málaflokkinn til að skreyta starfsemi sína og farið nokkuð frjálslega með staðreyndir en nú hafa þýsk stjórnvöld stigið fast niður til að sporna við þróuninni,“ segir hann í samtali við Innherja.

Aðspurður segir Gunnar Sveinn að grænþvottur sé þegar fyrirtæki setja fram staðhæfingar um að eitthvað sé gott fyrir umhverfið, samfélagið eða byggt á góðum stjórnarháttum – oft vísað til sem svokölluð UFS-viðmið (ESG á ensku) – sem reynast síðan rangar eða stórlega ýktar.

Fyrirtæki hafa hingað til ekki mátt búast við þungum viðurlögum í tengslum við sjálfbærni og loftslagsmál. Sum þeirra hafa jafnvel notað málaflokkinn til að skreyta starfsemi sína.

„Dæmi um þetta væri fyrirtæki sem héldi fram því að viðskiptavinir sínir gætu kolefnisjafnað viðskiptin út frá stuðningi þess við ýmis kolefnisverkefni, til dæmis skógrækt eða votlendi. Alla jafna myndi slíkt útspil hjá fyrirtækinu teljast jákvætt þar sem því fylgdi umhverfislegur ávinningur í formi aukinnar skógræktar eða endurheimtar votlendis en hvoru tveggja teljast sem viðurkenndar leiðir til að sporna við loftslagsbreytingum. Slíkt getur hins vegar snúist upp í andhverfu sína ef ekki er haldið rétt á spilunum og tryggt að um viðurkennda eða vottaða starfsemi á sviði kolefnisjöfnunar sé að ræða,“ útskýrir Gunnar Sveinn.

Flest af stærstu skráðu fyrirtækjum landsins, ásamt einnig lífeyrissjóðunum, hafa sett sér stefnu í sjálfbærnimálum út frá UFS-viðmiðum, meðal annars þegar kemur að fjárfestingum og lánveitingum í tilfelli bankanna.

Asoka Wöhrmann forstjóri DWS, sem er eignastýringarmur Deutche Bank, sagði af sér í lok síðasta mánaðar eftir ásakanir um grænþvott.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabankans, gerðu meðal annars hættuna á grænþvotti að umtalsefni í formála sínum að ritinu Fjármálaeftirlit2022 sem kom út fyrr á þessu ári.

Þar bentu þau á að fyrirtæki á fjármálamarkaði væru mikilvægir og virkir þátttakendur í þeirri viðhorfsbreytingu sem hefur orðið vegna æ sýnilegri afleiðinga af hlýnun jarðar. Þau létu þannig að sér kveða með því að sýna samfélagslega ábyrgð við ákvarðanir um hvernig þau miðla fé til verkefna og hátta starfsemi sinni.

„Hér þarf þó að fylgjast með að staðið sé við stóru orðin og að innan fyrirtækjanna sé fyrir hendi þekking á hvaða verkefni eru raunverulega umhverfisvæn eða samfélaginu til heilla og hver ekki. Varúðarraddir heyrast úr ýmsum áttum um að girða þurfi fyrir grænþvott,“ að því er sagði í formála ritsins, en von er á að samræmdar evrópskar leikreglur um þessi málefni verði hluti af íslenskum rétti innan skamms.

„Ekki í boði að sleppa þessu“

Gunnar Sveinn segir að lærdómurinn af málum eins og hafa nú komið upp í tilfelli DWS í Þýskalandi sé alls ekki sá að stjórnendur fyrirtækja einfaldlega hætti að „eyða púðri“ að ræða um sjálfbærnimál til að eiga ekki á hættu að vera ásakaðir um grænþvott.

Stærri fyrirtæki munu af þeim sökum verða skyldug til að birta ítarlegar upplýsingar um starfsemi sína út frá sjálfbærni viðmiðum sem munu svo stigmagnast á næstu árum.

„Málið er ekki svo einfalt,“ útskýrir hann, og bendir á að ný reglugerð Evrópusambandsins um hvernig á að flokka sjálfbærar eignar muni taka gildi hér á landi á næsta ári, en hún er nú þegar lagalega bindandi í löndum ESB.

„Stærri fyrirtæki verða af þeim sökum skyldug til að birta ítarlegar upplýsingar um starfsemi sína út frá sjálfbærni viðmiðum sem munu svo stigmagnast á næstu árum. Og það sem meira er, þessar upplýsingar skulu birtar sem hluti af fjárhagsuppgjöri og staðfestar af endurskoðanda. Skoða þarf heildaráhrif starfseminnar með hliðsjón af virðiskeðju og því munu stóru fyrirtækin þurfa upplýsingar frá samstarfsaðilum sínum og birgjum um frammistöðu í sjálfbærnimálum. Það er því ekki í boði fyrir fyrirtæki, stór sem smá, að sleppa þessu,“ að sögn Gunnars Sveins.

Hann segir að ef fyrirtæki vilji forðast hættu á að vera sökuð um grænþvott þá þurfi stjórnendur þeirra að taka málaflokkinn alvarlega og horfa á hann með sömu augum og meðal annars bókhald, fjármál, áhættustýringu og viðskiptaáætlanagerð.

„Auka þarf þekkingu innan fyrirtækjanna um málaflokkinn og tryggja nægjanlega fjárfestingu í mannauði, kerfum og stefnumörkun. Byggja þarf upp innanhúss þekkingu um hvað telst sjálfbær starfsemi og hvernig fyrirtæki geta stýrt áhættu sinni út frá þessu en jafnframt nýta sér þau tækifæri sem felast í nýju sjálfbæru hagkerfi. 

Ísland hefur gríðarleg tækifæri á sviði sjálfbærrar starfsemi en við þurfum að tileinka okkur nýja hugsun í fyrirtækjarekstri sem samræmist alþjóðlegum viðmiðum og tryggja að við séum í sérflokki hvað varðar sjálfbæra starfsemi. Með þessu móti munu stjórnendur í geta talað af sannfæringu og stolti um starfsemi fyrirtækisins út frá sjálfbærni og aukið þannig virði og framgang íslensks atvinnulífs,“ segir Gunnar Sveinn.


Tengdar fréttir

Grænar fjárfestingar ekki pólitískari eða umdeildari en margt annað

Lífeyrissjóðurinn Birta telur að aukin áhersla á grænar fjárfestingar á komandi árum, sem fellur undir þau UFS-viðmið sem sjóðurinn hefur sett sér í fjárfestingarstefnu sinni, geti skilað sjóðsfélögum betri ávöxtun til lengri tíma litið. Sjóðurinn stefnir að því að um átta prósent af eignasafni hans verði í slíkum fjárfestingum fyrir árslok 2030. Það er um þrisvar sinnum hærra hlutfall en er í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×