Innherji

Sjóðirnir nálgast bankanna í umsvifum í óverðtryggðum íbúðalánum

Hörður Ægisson skrifar
Almenningur er farinn að leita í auknum mæli til lífeyrissjóðanna vegna lána til íbúðakaupa. Sjóðirnir bjóða sumir talsvert betri kjör á óvertryggðum lánum á breytilegum vöxtum en bankarnir.
Almenningur er farinn að leita í auknum mæli til lífeyrissjóðanna vegna lána til íbúðakaupa. Sjóðirnir bjóða sumir talsvert betri kjör á óvertryggðum lánum á breytilegum vöxtum en bankarnir. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila nema samanlagt rúmlega 25,3 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Það er einum milljarði króna meira en slíkar lánveitingar sjóðanna voru á öllu árinu 2021.

Ekkert lát var á stöðugri ásókn í óverðtryggð lán hjá lífeyrissjóðunum í apríl síðastliðnum, á sama tíma og mjög hefur dregið úr útlánavextinum hjá bönkunum, en nýjar tölur Seðlabankans sýna að slík lán sjóðanna til heimila – að frádregnum uppgreiðslum – voru samtals tæplega 7,4 milljarðar króna. Það er litlu minna en hjá bönkunum í sama mánuði en ný íbúðalán þeirra til heimila voru þá um 9 milljarðar.

Samhliða því að heimilin eru núna að horfa til þess að fjármagna sig á óverðtryggðum lánum þá héldu þau áfram að greiða upp verðtryggð lán hjá sjóðunum. Uppgreiðslur slíkra lán, sem hafa verið samfelldar í að verða næstum tvö ár, minnkuðu lítillega á milli mánaða og námu um 2,4 milljörðum. Frá því í júní 2020 hafa heimilin greitt upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðunum fyrir um 100 milljarða króna.

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafa sjóðirnir lánað fyrir um 16,6 milljarða til heimilanna, sem er alfarið drifið áfram af sókn í óverðtryggð lán þeirra, en til samanburðar voru sjóðsfélagalánin greidd upp fyrir 67 milljarða á öllu árinu 2021.

Eftir að Seðlabankinn fór að hækka vexti skarpt að undanförnu, nú síðast fyrir um mánuði úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent, hafa heimilin í vaxandi mælið sagt skilið við að taka lán til fasteignakaupa á breytilegum vöxtum hjá bönkunum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans. Frá því um mitt síðasta ár hefur þannig verið lítil aukning í veitingu nýrra íbúðalána bankanna á breytilegum vöxtum á meðan slík lán á föstum vöxtum hafa vaxið um meira en 110 milljarða króna yfir sama tímabil.

Á sama tíma er almenningur farinn að leita á ný til lífeyrissjóðanna vegna lána til íbúðakaupa en sumir af helstu sjóðum landsins, eins og meðal annars Gildi og Lífsverk, bjóða í dag óverðtryggð lán á breytilegum kjörum til sjóðsfélaga sinna á um 4,5 til 4,6 prósenta vöxtum – en það eru umtalsvert lægri vextir en fást hjá stóru bönkunum þremur á sambærilegum lánum.

Í viðtali við Innherja í byrjun apríl á þessu ári sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa áhyggjur af því að samhliða hækkandi vöxtum væru heimilin að færa sig í auknum mæli úr nafnvaxtalánum yfir í verðtryggð lán í því skyni að minnka mánaðarlega greiðslubyrði sína.

„Viðskiptabankarnir hafa verið að lækka kjör sín á verðtryggðum íbúðalánum og þá hafa lífeyrissjóðirnir einnig verið að gera sig gildandi á nýjan leik á þessum markaði með því að undirbjóða bankanna að einhverju marki. Við höfum haft áhyggjur af þessari þróun,“ sagði Ásgeir.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok febrúar 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir. Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.

Þegar mest var í ársbyrjun 2020 voru sjóðsfélagalánin um 540 milljarðar króna, eða tæplega ellefu prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna á þeim tíma, en nú eru lánin aðeins rúmlega 7,8 prósent af öllum eignum þeirra en þær hafa vaxið hratt á síðustu misserum og standa nú í 6.634 milljörðum króna.

Samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans lækkuðu eignir lífeyrissjóðanna um tæplega 90 milljarða króna í mars og námu um 6.563 milljörðum króna í lok mánaðarins. Sú þróun skýrist einkum af lækkun á virði erlendra eigna – þær minnkuðu um 79 milljarða í apríl – en frá áramótum hafa þær lækkað um tæplega 270 milljarða samhliða gengisstyrkingu krónunnar og verðlækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum.


Tengdar fréttir

Mikill vöxtur í fyrirtækjalánum utan hins hefðbundna bankakerfis

Stöðugur vöxtur er í lánum fagfjárfestasjóða til fyrirtækja á sama tíma og bankakerfið hefur einnig tekið við sér í að stórauka á ný lán til atvinnulífsins. Frá því í ársbyrjun 2021 hafa heildarútlán slíkra sjóða, sem eru einkum fjármagnaðir af lífeyrissjóðum, til atvinnufyrirtækja aukist um 60 prósent og námu þau 155 milljörðum í lok apríl.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.