Innherji

Tekjur Coripharma jukust um rúm 60 prósent milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Jónína Guðmundsdóttir er forstjóri Coripharma.
Jónína Guðmundsdóttir er forstjóri Coripharma. Coripharma

Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma tapaði 12,5 milljónum evra, jafnvirði 1.700 milljóna króna, á síðasta ári samanborið við 11 milljóna evra tap á árinu 2020. Rekstrartekjur, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins, námu 9 milljónum evra, eða um 1.250 milljónum króna, og jukust um ríflega 60 prósent milli ára.

Starfsmenn Coripharma, sem tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Teva fyrir fáeinum árum, eru um 135 talsins og á síðasta ári vann fyrirtækið áfram að þróun samheitalyfja. Kláruð voru skráningargögn fyrir fjögur lyf sem send voru til samþykktar hjá heilbrigðisyfirvöldum Evrópu.

Coripharma hefur valið 13 vörur til viðbótar til þess að vinna að þróun og útgáfu þeirra fyrir lok árs 2026. Samtals voru lagðar 6 milljónir evra í þróunarkostnað á árinu.

Þá voru gerðir 22 viðskiptasamningar við mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum Evrópu, sem er meira en á öllum fyrri árum lyfjafyrirtækisins til samans. Coripharma setti á markað sitt fyrsta frumheitalyf úr eigin þróun, Eslicarbazepine, sem fór í sölu í Þýskalandi, Ítalíu og Portúgal. Til viðbótar fór lyfið í samningsframleiðslu í fimm öðrum löndum.

Á rúmu ári hefur lyfjafyrirtækið sótt samtals 6 milljarða króna í nýtt hlutafjár, annars vegar 2,5 milljarða króna í mars 2021 og hins vegar 3,5 milljarða síðastliðinn mars. Eftir seinni hlutafjáraukninguna varð CP Invest, nýtt félag í eigu Iðunnar framtakssjóðs og lífeyrissjóða, stærsti einstaki hluthafinn með 32 prósenta hlut.

Aðrir stórir hluthafar í Coripharma eru framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar, stjórnarformanns Coripharma, Vátryggingafélag Íslands og Eignarhaldsfélagið Hof, sem er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona.

Fyrr á árinu greindi Innherji frá því að uppi væri áform um að efna til opins hlutafjárútboðs og skráningar Coripharma á First North-markaðinn í Kauphöllinni síðar á þessu ári.


Tengdar fréttir

Samþykkja samruna Oaktree og Alvotech og skráning boðuð í næstu viku

Mikill meirihluti hluthafa sérhæfða yfirtökufélagsins Oaktree Acquisition Corp. II samþykkti fyrr í kvöld öfugan samruna við íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech. Gert er ráð fyrir að samrunanum ljúki formlega 15. júní, að öllum öðrum skilyrðum uppfylltum, og að hlutabréf Alvotech verði tekin til viðskipta á Nasdaq markaðnum í New York daginn eftir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×