Atvinnulíf

„Ekki líta á sjálfbærniupplýsingar sem markaðsefni“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Reynir Smári Atlason er forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og formaður dómnefndar Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslur ársins 2022 sem veitt verða í dag. 
Reynir Smári Atlason er forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og formaður dómnefndar Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslur ársins 2022 sem veitt verða í dag.  Vísir/Vilhelm

„Ekki líta á sjálfbærniupplýsingar sem markaðsefni. Líttu á þær sem virðisaukandi upplýsingar sem auka aðgengi fjármálamarkaðarins að fyrirtækinu þínu,“ segir Reynir Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og formaður dómnefndar Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022.

„Hafðu upplýsingarnar aðgengilegar, réttar og láttu þær endurspegla sjálfbærniþætti sem skipta raunverulega máli. Byggðu upp þekkingu innanhúss til að stýra þessum málaflokki,“ segir Reynir.

Hvatningaverðlaun fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022 verða veitt í dag en viðburðurinn er aðeins opinn boðsgestum. Þeir aðilar sem þegar hafa hlotið verðlaun eru Landsbankinn árið 2018, Isavia árið 2019, Krónan árið 2020 og Landsvirkjun og BYKO árið 2021.

Í Atvinnulífinu í dag og í gær er fjallað um sjálfbærniskýrslur og árlegt mat á því hvaða fyrirtæki eða stofnun hlýtur Hvatningaverðlaunin fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Að verðlaununum standa Viðskiptaráð, Stjórnvísi og Festa.

Fjármálamarkaðir sérstaklega spennandi

Reynir er 36 ára með löggildingarpróf í verðbréfaviðskiptum, Ph.D. og M.Sc. í Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands og BA í Iðnhönnun frá Curtin University of Technology í Vestur Ástralíu.

Þegar Reynir lauk doktorsprófi sínu í Umhverfis- og auðlindafræði starfaði hann um tíma sem lektor við verkfræðideild Háskólans í Suður Danmörku. Um svipað leyti stofnaði hann, ásamt þremur félögum sínum, fyrirtækið Circular Solutions.

Það fyrirtæki var síðar keypt af KPMG.

„Í starfinu hjá Circular Solutions komum við að sjálfbærniupplýsingagjöf margra af stærstu fyrirtækjum landsins og unnum ramma fyrir fyrstu grænu skuldabréfin sem gefin voru út hér á landi svo eitthvað megi nefna.“

Reynir segir stofnun og rekstur Circular Solutions hafi verið afar lærdómsríkt ferli að fara í gegnum. Þar hafi kviknað brennandi áhugi hans á fjármálamörkuðum og því samspili sem þarf að vera á milli umhverfisvísinda og fjármálamarkaða.

Sem þó er nýtt af nálinni.

„Í raun er það svo, að fyrir aðila úr heimi umhverfisvísinda, er ekkert meira spennandi þessi misseri en fjármálamarkaðir. Upplýsingagjöf sjálfbærniþátta fyrir fjármálakerfið þarf að byggja á vísindalegri nálgun þar sem mælikvarðar sem geta haft fjárhagslegar afleiðingar fyrir fyrirtækin skipta máli,“ segir Reynir og bætir við: 

Þessar upplýsingar skipta orðið miklu máli þar sem stækkandi hópur fjárfesta horfir sérstaklega til sjálfbærra fjárfestingakosta og það er ánægjulegt að sjá yfirferð yfir þessa þætti í fjárfestakynningum félaga sem nýverið hafa skráð sig í Kauphöllina.“

Reynir segir stækkandi hóp fjárfesta horfa sérstaklega til sjálfbærra fjárfestingakosta og því skipti sjálfbærniskýrslur sífellt meira máli.Vísir/Vilhelm

Sjálfbærniskýrslur skipta sífellt meira máli

Reynir segir sjálfbærniskýrslur sífellt skipta meira máli. Ekki aðeins fyrir atvinnulíf og fjármálamarkað á Íslandi heldur líka í alþjóðlegu samhengi.

„Sjálfbærniskýrslur eru nú orðnar hluti af fjárfestingaferli margra fjárfesta, en þær eru að birtast á fjölmörgum öðrum stöðum. Olíufélag var til dæmis lögsótt í Hollandi þar sem sjálfbærniupplýsingar frá félaginu voru til grundvallar málsókninni. Larry Fink, forstjóri BlackRock, stærsta sjóðastýringafyrirtæki heims, hefur lagt gríðarlega áherslu á að þessar upplýsingar séu vel gerðar og að fyrirtæki lýsi þeim áhættuþáttum tengdum sjálfbærni þau standa frammi fyrir.“

Þá segir Reynir greinilegt að í fjárfestingakynningum fari almennt mun meira í að kynna sjálfbærniþætti en áður. Þetta sýni að útgefendur verðbréfa eru þá að reyna að ná til stærri og oft sérhæfðari hóps fjárfesta.

Þessum skýrslum og upplýsingum er jú hampað á tyllidögum að einhverju leiti, en ekki er hægt að líta framhjá því að sjálfbærniupplýsingar birtast orðið til dæmis í upplýsingaveitum fjárfesta eins og Bloomberg, Yahoo Finance og fleira. 

Ástæðan er sú að þetta eru upplýsingar sem gefa meiri dýpt í starfsemi fyrirtækja og auka skilning fjárfesta á rekstrarumhverfi þeirra.“ 

Reynir er einnig aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann kennir aðferðafræði við útreikninga á kolefnisspori fyrirtækja.Vísir/Vilhelm

Reynir er að margra mati einn reynslumesti maður landsins þegar kemur að sjálfbærniskýrslugerð og málefnum þeim tengdum.

Þá er hann aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann kennir aðferðafræði við útreikninga á kolefnisspori fyrirtækja.

Sjálfur segist hann hafa lært mikið á þeim tíma sem hann starfaði hjá Landsbankanum, en þar hóf hann störf stuttu áður en KPMG keypti Circular Solutions.

„Fjármálamarkaðir höfðu heltekið mig og ég vildi hvergi annarsstaðar vera. Þar gerðist gríðarlega margt á meðan ég starfaði hjá Landsbankanum. Eitt það besta við að vinna hjá svona stóru fyrirtæki eins og Landsbankanum, er hvað þar er mikið af fólki sem ég get lært af,“ segir Reynir og bætir við:

„Þar komst ég einnig að því að sjálfbærniupplýsingagjöf á Íslandi er dreifð, óskipulögð og gerir fjármálakerfinu erfitt fyrir að nálgast þær á skipulegan hátt til að nýta.“

Þessa reynslu úr bankanum ætlar Reynir að nýta vel í nýju starfi sem forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo.

„Við hjá Creditinfo erum á ákveðinni vegferð, akkúrat til að leysa þessa flækju sem ég nefndi. En hjá félaginu býr ótrúleg þekking sem nýtist þessum málaflokki mjög vel.“

En hvernig eru íslensk fyrirtæki og stofnanir almennt að standa sig í sjálfbærniskýrslugerð?

„Þróun á upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja hefur verið gríðarlega hröð og er nú á pari við fremstu fyrirtæki erlendis. Þetta er gríðarlega ánægjulegt en fyrirséð er að það regluverk sem er í farvatninu muni ýta enn fleiri fyrirtækjum í að birta sjálfbærniupplýsingar.

Góðu ráðin: Um verðlaunaskýrslur

Auk Reynis sitja í dómnefnd Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftlags- og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia.

Reynir tók saman nokkur atriði sem hann telur mikilvæga þætti fyrir framúrskarandi góðar sjálfbærniskýrslur.

Þessi atriði eru:

  • Skýrslan veitir upplýsingar um viðeigandi sjálfbærniþætti sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir fyrirtækið og þá starfsemi sem það er í.
  • Upplýsingar skulu helst vera mælanlegar.
  • Upplýsingarnar verða að vera samanburðarhæfar við upplýsingar annara félaga
  • Efnið þarf að vera aðgengilegt. Ekki einungis sem PDF skrá eða vefsíða, heldur líka sem hrá gögn sem greiningaraðilar geta sótt.
  • Fyrirtækið þarf að fjalla um helstu sjálfbærniáhættu og hvernig henni er stýrt.

„Til viðbótar má nefna að endurskoðun sjálfbærniskýrslna fer að skipta meira máli, sér í lagi hjá stórum fyrirtækjum. Þá er mikilvægt að mikilvægustu þættirnir séu endurskoðaðir,“ segir Reynir.


Tengdar fréttir

Orðsporið líklegasti hvatinn til aðgerða

„Mér fannst áhugavert hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við. Niðurstöður sýndu að orðspor fyrirtækisins er sá þáttur sem hefur mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við loftslagsbreytingum með aðgerðum en fjárfestar virðast hafa minnstu áhrifin. Þetta gefur vísbendingu um að margir íslenskir fjárfestar geri ekki miklar kröfur til stjórnenda um að bregðast við loftslagsbreytingum með aðgerðum og markmiðum,“ segir Rakel Sævarsdóttir sérfræðingur hjá Deloitte meðal annars um það, hvað henni finnst sérstaklega áhugavert í niðurstöðum nýrrar stjórnendakönnunar þar sem staða 300 stærstu fyrirtækja landsins var tekin á því hvar þau eru stödd í grænni vegferð.

Eftir tíu ára starf fær Ísland 5,5 í einkunn

„Niðurstaðan var sú, að í samanburði við lönd sem við gjarnan berum okkur saman við, fær Ísland 5,5 í einkunn. Við rétt náum,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu um niðurstöður könnunar sem gerð var meðal allra formanna, varaformanna og framkvæmdastjóra Festu til dagsins í dag og fulltrúa þeirra sex fyrirtækja sem stofnuðu Festu árið 2011.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×