Atvinnulíf

„Ég hef óbilandi trú á komandi kynslóðum“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ásthildur Otharsdóttir fjárfestingastjóri spyr hvað sjóðsfélagar lífeyrissjóða hafa að gera við ávöxtun ef jörðin er í rúst. Ásthildur stýrir pallborðsumræðum á Janúarráðstefnu Festu um fjármagn og sjálfbærni en ráðstefnan hefst klukkan níu, er öllum opin og streymt á Vísi.
Ásthildur Otharsdóttir fjárfestingastjóri spyr hvað sjóðsfélagar lífeyrissjóða hafa að gera við ávöxtun ef jörðin er í rúst. Ásthildur stýrir pallborðsumræðum á Janúarráðstefnu Festu um fjármagn og sjálfbærni en ráðstefnan hefst klukkan níu, er öllum opin og streymt á Vísi. Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara áhættustýring 101“ segir Ásthildur Otharsdóttir meðal annars um hvers vegna fjármagn á að stuðla að sjálfbærri framtíð. 

„Ég fæ sting í hjartað þegar ég hugsa um verkefnin sem bíða barnanna okkar og barnabarna. En það er líka ástæða til bjartsýni. Ég hef óbilandi trú á komandi kynslóðum. Þau eru ekkert að fara að eyða hálfri ævinni í að rökræða hvort loftslagsbreytingar séu skoðun eða staðreynd. Ég trúi því að þau verði allt öðruvísi fjármagnseigendur. En við þurfum að halda áfram að berjast fyrir þau í dag svo þau eigi einhvern séns, “segir Ásthildur Otharsdóttir fjárfestingastjóri og meðeigandi Frumtaks Venture.

Ásthildur er ein þeirra sem tekur þátt í Janúarráðstefnu Festu.

Janúarráðstefna Festu er stærsti árlegi sjálfbærni vettvangur atvinnulífsins og er viðburðurinn öllum opinn. Útsending á Vísi hefst klukkan níu en ráðstefnunni lýkur klukkan tólf. Dagskránna í heild sinni má sjá HÉR.

Í gær og í dag fjallar Atvinnulífið um sjálfbærni í rekstri og fjárfestingum.

Kerfið er meingallað en…

Við heyrum oft fín orð og háfleygar setningar þegar kemur að sjálfbærni og markmiðum um umbætur.

En eru þetta bara orð og markmið um jákvæða ímynd, eða er raunverulega eitthvað á bakvið þetta?

Á Janúarráðstefnu Festu stýrir Ásthildur pallborðsumræðum um fjármagn og sjálfbærni. Yfirskrift þeirrar umræðu er „Hvernig ætlar fjármagn markvisst að stuðla að sjálfbærri framtíð?“

Við spurðum Ásthildi um stöðuna.

Er raunhæft að fjármagn stuðli að sjálfbærni?

Ásthildur segir stöðuna einfaldlega þannig að fjármagn hafi ekkert annað val.

Kerfið er gallað. Það hefur allt gengið út á hagvöxt og hámörkun á arðsemi fjármagnseiganda til skamms tíma, án þess að taka tillit til neikvæðra áhrifa á umhverfi og samfélög. 

Jafnan gengur ekki upp þegar við búum á jörð sem við getum ekki stækkað. Við erum þegar komin út fyrir þolmörk hennar.“Þá segir hún fjármagni fylgja völd og völdum fylgi ábyrgð.

„Fjármálakerfið þarf að þjóna samfélögunum en ekki öfugt. Ég trúi því að við stöndum loksins á tímamótum. Það er eitthvað mikið að gerast þótt það sé vissulega enn langt í land og áskoranirnar virðist stundum óyfirstíganlegar.“

Sem dæmi um jákvæða þróun bendir Ásthildur á gríðarlega aukningu fjármagns í grænum og sjálfbærum fjárfestingum.

Fjárfestingar sem þessar, séu líka að uppskera umbun fyrir.

„Fyrirtæki sem standa sig vel á þessu sviði fá nú betri kjör. Fjárfestar gera í auknum mæli kröfu um að þau sýni samfélagslega ábyrgð. Ekki bara til að haka í box, heldur af því þau trúa því að það skili auknum verðmætum til langtíma,“ segir Ásthildur og bætir við: „Og þetta eru ekki bara einhverjir nokkrir kverúlantar heldur stærstu eignastýringarsjóðir í heimi.“

„Þetta er bara áhættustýring 101“

Ásthildur segir mörg stór og jákvæð tækifæri framundan.

„Stórum áskorunum fylgja stór tækifæri. Það er frábært að sjá hvað er að gerast í nýsköpun sem miðar að því að draga úr loftslagsáhrifum. Þar liggja klárlega stærstu fjárfestingatækifæri samtímans og þangað er fjármagn að leita.“

Í þessum efnum hefur hún mikla trú á að Ísland geti náð langt.

„Það er stórkostlegt að sjá hvað íslenski tækni- og hugvitsgeirinn er að sækja í sig veðrið og hvað það er mikil gróska á þessu sviði. Við erum í lykilstöðu til að láta til okkar taka á alþjóðavísu þegar kemur að grænni tækni og hugviti.“

En síðan eru það neikvæðu raddirnar, þeir sem gagnrýna.

Ég bara skil ekki rök þeirra sem predika að fyrirtæki og lífeyrissjóðir séu að fara út fyrir hlutverk sitt með því að taka með í reikninginn hvaða áhrif starfsemin hefur á umhverfið og samfélagið. Þetta er bara áhættustýring 101,“ 

segir Ásthildur og spyr:

Hvort er skynsamlegra að fjárfesta í einhverju sem eykur áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eða einhverju sem er hluti af lausninni?

Hvort er betra að fjárfesta í fyrirtæki sem enginn vill vinna hjá eða því sem laðar að sér besta starfsfólkið?

Og ef við tökum þetta lengra.

Hvað hafa hluthafar og sjóðsfélagar lífeyrissjóða eiginlega að gera við ávöxtun ef samfélögin okkar og jörðin eru að leggjast í rúst?

Erum við til í að fórna framtíð barnanna okkar og barnabarna?

Ásthildur segir mikilvægt að horfa til þess sem er að breytast til betri vegar. Þar séu líka margir spennandi hlutir að gerast í opinbera kerfinu.

„Ísland er aðili að Velsældarhagkerfinu ásamt Nýja Sjáland, Skotlandi, Finnlandi og Wales. Það gengur út á að horfa til fleiri þátta en bara efnahagslegra þegar við metum hagsæld og lífsgæði þjóða. Við höfum sett okkur velsældarmælikvarða og ríkistjórnin leggur ákveðnar velsældaráherslur til grundvallar fjármálaáætlunar og fjárlaga.“

Ásthildur gagnrýnir þó þjóðfélagsumræðuna og skort á þessari umræðu í fjölmiðlum.

„Mér finnst þetta fá allt of litla umfjöllun. Ég held að forsætisráðherrann okkar fái meiri athygli fyrir þessa framsýni utan landsteinanna en innan. Svo hlustaði ég á miðvikudag á fjármálaráðherra tala um sjálfbæra fjármögnun ríkisjóðs og hlutverk hins opinbera í grænkun fjármálakerfa og verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart að heyra hvað það er verið að taka mikilvæg skref þar líka.“

Ásthildur segir kerfið gallað því það hafi gengið út á hámörkun arðsemi fjármagnseigenda til skamms tíma og án þess að taka tillit til neikvæðra áhrifa á umhverfi og samfélög. Ásthildur hefur þó trú á næstu kynslóðum og er sannfærð um að verði allt öðruvísi fjármagnseigendur.Vísir/Vilhelm

Rokkstjörnur á ráðstefnu

Auk Ásthildar verða í pallborðsumræðum um fjármagn og sjálfbærni Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, Sigurlína Ingvarsdóttir sjálfstæður ráðgjafi og stjórnarmaður í nýsköpunarfyrirtækjum, Soffía Gunnarsdóttir forstöðumaður eignastýringasviðs Birtu lífeyrissjóða og Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands.

Þá mun fjöldi fólks koma fram á ráðstefnunni þar sem dagskráin samanstendur af fyrirlesurum og fjölbreyttum málaflokkum í pallborðsumræðum.

Meðal erlendra fyrirlesara eru Kate Raworth og Dr. Johan Rockström.

Raworth er höfundur kleinuhringjahagfræðinnar (e. Doughnut economics) en hún er sniðin að þolmörkum jarðar og þörfum þeirra sem jörðina byggja.

Í kynningu Festu á ráðstefnunni er haft eftir Raworth:

„Heilbrigt hagkerfi ætti að vera hannað til að dafna vel, ekki vaxa endalaust.“

Dr. Rockström er þekktastur fyrir að leiða hópa vísindamanna við greiningu á þolmörkum jarðar. Um fimm milljónir manna hafa hlustað á TED fyrirlestra Rockström um þolmörk jarðar.

Og Ásthildur er spennt fyrir deginum.

„Ég tek ofan fyrir Festu að hafa fengið Kate og Johan á janúarráðstefnuna. Eins og Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu segir þá eru þau algjörar rokkstjörnur á þessu sviði og frábært að fá þau til að hrista upp í okkur og hvetja til dáða.“


Tengdar fréttir

Orðsporið líklegasti hvatinn til aðgerða

„Mér fannst áhugavert hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við. Niðurstöður sýndu að orðspor fyrirtækisins er sá þáttur sem hefur mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við loftslagsbreytingum með aðgerðum en fjárfestar virðast hafa minnstu áhrifin. Þetta gefur vísbendingu um að margir íslenskir fjárfestar geri ekki miklar kröfur til stjórnenda um að bregðast við loftslagsbreytingum með aðgerðum og markmiðum,“ segir Rakel Sævarsdóttir sérfræðingur hjá Deloitte meðal annars um það, hvað henni finnst sérstaklega áhugavert í niðurstöðum nýrrar stjórnendakönnunar þar sem staða 300 stærstu fyrirtækja landsins var tekin á því hvar þau eru stödd í grænni vegferð.

Eftir tíu ára starf fær Ísland 5,5 í einkunn

„Niðurstaðan var sú, að í samanburði við lönd sem við gjarnan berum okkur saman við, fær Ísland 5,5 í einkunn. Við rétt náum,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu um niðurstöður könnunar sem gerð var meðal allra formanna, varaformanna og framkvæmdastjóra Festu til dagsins í dag og fulltrúa þeirra sex fyrirtækja sem stofnuðu Festu árið 2011.

„Algjörlega galið“ að hvatarnir séu þveröfugir við markmiðin

„Kerfið er okkar helsta áskorun þar sem hvatar eru þveröfugir og hvetja enn til þess að plast og annað endurvinnanlegt efni er flutt óunnið úr landi eða urðað. Það er algjörlega galið þar sem það hefur verri áhrif á umhverfið til viðbótar við tækifærin, verðmætin og störfin sem skapast ef við byggjum virðiskeðjuna upp hér á Íslandi,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir forstöðumaður viðskipta og þróunar hjá fyrirtækinu Pure North.

Ungt fólk sækir í störf hjá fyrirtækjum sem hlúa að jafnrétti og sjálfbærni

Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður segir reynslu fyrirtækisins vera að ungt fólk sækist í störf hjá fyrirtækjum sem vinna að því að vera fyrirmyndir í jafnréttis- og sjálfbærnimálum. Bjarney segist þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem ekki huga að þessum málum muni tilheyra fortíðinni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.