Innherji

Bandarískur sjóður losar um stóran hluta bréfa sinna í Icelandair

Hörður Ægisson skrifar
Stone Forest Capital, sem er með eignir í stýringu að jafnvirði 20 milljarða króna, kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair í júní árið 2021 þegar sjóðurinn keypti um 1,4 prósenta hlut.
Stone Forest Capital, sem er með eignir í stýringu að jafnvirði 20 milljarða króna, kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair í júní árið 2021 þegar sjóðurinn keypti um 1,4 prósenta hlut. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Bandarískur vogunarsjóður, sem hefur verið á meðal stærstu hluthafa Icelandair frá því um mitt árið í fyrra, seldi í flugfélaginu fyrir nærri 200 milljónir króna á seinni helmingi síðasta mánaðar. Frá áramótum hefur sjóðurinn, sem er stýringu hjá Stone Forest Capital, losað um þriðjung bréfa sinna í Icelandair.

Þetta má lesa út úr uppfærðum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins en eignarhlutur sjóðsins SFC Foresta Master Fund er núna kominn undir eitt prósent og er hann skráður fyrir 364 milljónum hluta að nafnvirði. Markaðsvirði þeirra bréfa er í dag um 575 milljónir króna.

Þann 23. maí síðastliðinn átti bandaríski sjóðurinn hins vegar 474 milljónir hluta í Icelandair og því hefur hann losað um 110 milljónir hluta undir lok maímánaðar. Sé litið til hlutabréfaverðs Icelandair á þeim tíma má ætla að hann hafi fengið um 180 milljónir króna fyrir þann hlut.

Á einum mánuði hefur hlutabréfaverð Icelandair lækkað um nærri 19 prósent.

Stone Forest Capital, sem er með eignir í stýringu að fjárhæð samtals um 160 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 20 milljarða króna, kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair í júní árið 2021 þegar sjóðurinn keypti um 1,4 prósenta hlut. Þremur mánuðum síðar bætti hann lítillega við eignarhlut sinn og var í ársbyrjun 2022 ellefti stærsti hluthafi Icelandair með um 1,5 prósenta hlut, eða sem jafngilti 541 milljónum hluta að nafnvirði.

Sjóðurinn hefur áður einnig meðal annars fjárfest í suður-kóreska flugfélaginu Korean Air.

Á sama tíma og Stone Forest Capital var að minnka við hlut sinn í Icelandair þá jók Almenni lífeyrissjóðurinn lítillega við eignarhlut sinn í flugfélaginu í liðnum mánuði, eða úr 2 prósentum í 2,3 prósent. Akta Stokkur seldi sömuleiðis í Icelandair í maí en hlutabréfasjóðurinn, sem var skráður fyrir 1,15 prósenta hlut fyrir um mánuði, er ekki lengur að finna á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins.

Á fyrsta ársfjórðungi Icelandair á þessu ári jukust tekjur félagsins um 177 prósent frá sama tímabili árið 2021 og námu samtals 159 milljónum dala. Þá flutti félagið samtals 242 þúsund farþega í apríl sem var um 31,5 prósenta aukning frá fyrri mánuði. Rekstrartap félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins var 58,3 milljónir dala borið saman við 46,2 milljóna dala tap á sama fjórðungi í fyrra en þar munaði mikið um gríðarlegar verðhækkanir á eldsneyti. Hækkaði tonnið af þotueldsneyti þannig um 75 prósent á milli ára.

Hlutabréfaverð Icelandair, rétt eins og flugfélagsins Play, hefur lækkað skarpt að undanförnu. Hæst fór gengið í tæplega 2,3 krónur á hlut um miðjan febrúar á þessu ári en stendur núna í 1,58 krónum á hlut og hefur því lækkað um rúmlega 30 prósent frá þeim tíma.

Markaðsvirði Icelandair er nú tæplega 60 milljarðar króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×