Innherji

Seðlabankinn merkir aukna fylgni milli innlendra og erlendra hlutabréfa

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um rúmlega 20 prósent frá áramótum.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um rúmlega 20 prósent frá áramótum. VÍSIR/VILHELM

Á undanförnum árum hefur fylgnin á milli verðs innlendra og erlenda hlutabréfa farið vaxandi. Tengsl innlendrar og alþjóðlegrar hagsveiflu hefur aukist á tímabilinu og umhverfi fjárfesta um allan heim hefur þróast með svipuðum hætti vegna keimlíkra viðbragða stjórnvalda við farsóttinni og vaxandi verðbólgu.

Þetta kemur fram í Kalkofninum sem er vettvangur fyrir starfsfólk Seðlabanka Íslands til að birta höfundarmerktar greinar.

Til að greina hvernig samband íslensks og erlendra hlutabréfamarkaða hefur þróast notuðu hagfræðingar Seðlabankans einfalda aðhvarfsgreiningu. Hún sýndi að fylgni við evrópska markaðinn var mikil frá miðju ári 2007 fram að falli Lehman-bankans í september 2008 þegar hún minnkaði á ný.

En árunum eftir fjármálakreppuna, skrifa hagfræðingar Seðlabankans, var innlendur hlutabréfamarkaður heldur lemstraður. Fá félög voru skráð í Kauphöllinni, fjárfestar voru áhættufælnir og þurftu að afhafna sig innan gjaldeyrishafta.

Á árunum frá fjármálakreppunni fram til ársins 2016 var fylgni við evrópska markaðinn lítil en jókst er leið á árið 2016 samhliða aukinni fjárfestingu erlendra aðila á innlendum hlutabréfamarkaði. Fylgnin jókst síðan hratt í lok febrúar 2020 þegar COVID-19-heimsfaraldurinn braust út, hún minnkaði á árinu 2021 og jókst á ný eftir innrás Rússa í Úkraínu.

„Að undanförnu virðist verð á íslenskum hlutabréfamarkaði í auknum mæli lækka í takt við lækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum þrátt fyrir væntingar um ágætan hagvöxt hér á landi næstu ár og fréttir af góðri afkomu fyrirtækja.“

Fylgni íslenska hlutabréfamarkaðarins við erlenda markaði kann að litast af því að Marel, sem heldur úti starfsemi í yfir þrjátíu löndum og er því mjög tengt alþjóðlegum mörkuðum, hefur lengi verið langstærsta félagið á markaði.

Greinarhöfundar benda á að fylgnin milli íslenska markaðarins og þess erlenda minnkar talsvert ef tekið er tillit til áhrifa Marels. Á tímum heimsfaraldursins er fylgnin minni eftir að tekið hefur verið tillit til Marels en þó yfir sögulegu meðaltali.

„Fylgni á verði hlutabréfa hér sem og erlendis lýsir með grófum hætti tengslum hlutabréfamarkaðarins við alþjóðlega fjármálamarkaði en skipta má síðustu tæpum tveimur áratugum í þrjú tímabil,“ útskýra greinarhöfundar.

Það fyrsta í aðdraganda fjármálahrunsins þegar miklar verðhækkanir voru á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, erlendar fjárfestingar á íslenskum hlutabréfamarkaði jukust, innlend fjármálafyrirtæki höfðu greiðan aðgang að erlendri fjármögnun og skuldsetning innlendra aðila jókst gríðarlega.

„Eftir fjármálakreppuna löskuðust tengsl við erlenda fjármálamarkaði verulega og gjaldeyrishöft voru sett á. Eign erlendra aðila á innlendum hlutabréfum dróst saman á sama tíma og lífeyrissjóðir bættu við eign sína.“

Gjaldeyrishöftin voru að mestu afnumin árið 2017 sem gerði íslenskar eignir að álitlegri fjárfestingarkosti auk þess sem fleiri félög voru skráð í Kauphöllinni.

„Þriðja tímabilið markast að miklu leyti af heimsfaraldri og stríðsátökum. Þótt áhrif þessara þátta séu að einhverju leyti ólík eftir löndum hefur umhverfi fjárfesta um allan heim þróast með svipuðum hætti þar sem viðbrögð stjórnvalda við farsóttinni og vaxandi verðbólgu hafa verið keimlík. Þá hafa tengsl innlendrar og alþjóðlegrar hagsveiflu einnig aukist undanfarin ár. Þessir þættir kunna því að skýra aukna fylgni íslensks hlutabréfamarkaðar við erlenda markaði.“


Tengdar fréttir

Fjárfestar munu enn líta til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa, segir sjóðstjóri

Það er fátt sem bendir til þess að stórir innlendir fjárfestar, eins og lífeyrissjóðir og hlutabréfasjóðir, séu að selja mikið af eignum sínum á hlutabréfamarkaði í þeim verðlækkunum sem hafa orðið að undanförnu. Það hefur reynst fjárfestum erfitt að ná sér í jákvæða raunávöxtun í umhverfi hárrar verðbólgu og hækkandi vaxta síðustu mánuði og því útlit fyrir að þeir muni áfram líta til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa.

Uggur og ótti á mörkuðum: Horfurnar betri á Íslandi en óvissan áfram ráðandi

Ef seðlabankar iðnríkja sjá sig knúna til að hækka vexti hratt og mikið vegna ótta um að verðbólgan sé að fara úr böndunum gæti það leitt efnahagssamdráttar. Verði slík sviðsmynd að veruleika, sem er ekki útilokað, þá mun það setja áfram þrýsting á eignamarkaði eins og hlutabréf sem hafa nú þegar lækkað skarpt hér heima og erlendis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×