Að taka bensín er orðið hálfsársaukafullt þessa dagana. Það hefur nefnilega aldrei verið dýrara að fylla á tankinn en í dag því síðustu mánuði hefur átt sér stað söguleg hækkun á bensínverði í öllum heiminum, líka hér heima.
Helsta skýringin er auðvitað stríðið í Úkraínu en ef meðalverð bensínlítrans þann 24. febrúar, daginn sem innrás Rússa hófst, er borið saman við meðalverð dagsins í dag kemur í ljós að bensínverð hefur hækkað um 16 prósent síðan þá, eða um rúmar tæpar 43 krónur.
Á höfuðborgarsvæðinu er staðlað lítraverð fyrirtækjanna nú í kring um rúmar 320 krónur; N1 selur lítrann á 328,9 krónur, Atlantsolía á 324,3 krónur og Orkan er svo tíu aurum ódýrari en Atlantsolía. Lítrinn hjá Olís er víðast hvar á 325,8 krónur, hjá OB er hann 324,3 kr. Þetta eru algengustu verð bensínstöðvanna en þær lækka sums staðar verð sitt talsvert.
Ódýrast er bensínið samt hjá Costco á 290,2 krónur fyrir lítrann.
Ódýrast í kring um Costco og á Bústaðavegi
En fyrirtækin festa sig ekki í einu verði heldur er það breytilegt eftir stöðvum. Það eru ekki miklar breytingar í bænum nema einmitt helst í kring um Costco þar sem flest fyrirtækin selja lítrann miklu ódýrara en í Reykjavík - eða á rúmar 290 krónur.
„Við erum náttúrulega bara í samkeppni. Það er náttúrulega bara eins og allir aðrir og við gerum okkar besta í því. En þetta er hörð samkeppni,“ segir Kristín Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Orkunni, til skýringar.

En stundum er verðmunur milli stöðva illskiljanlegur. Á Bústaðavegi má til dæmis finna ódýrasta bensínverð í Reykjavík hjá Orkunni en rétt hinum megin við götuna er lítrinn um þrjátíu krónum dýrari - og það hjá sama fyrirtæki.
„Það er kannski ekki beint hægt að svara því hér og nú hvers vegna það er. Við erum með nokkrar stöðvar bæði á Akureyri og svo hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem við bjóðum þessi bestu verð,“ segir Kristín Björg.
„Við teljum þetta vera hagstæða rekstrareiningu og við getum boðið ódýrara verð hér.“
Geta boðið ódýrara verð hér heldur en örfáum metrum austar - lógíg sem er kannski ekki allra að skilja en er þó hægt að nýta sér ef maður veit af henni og vill næla sér í ódýrasta bensíndropann í bænum.