Umræðan

Afskiptasami ráðherrann og löngunin til að handstýra hagkerfinu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Hið undarlega hlutverk hagfræðinnar, skrifaði nóbelsverðlaunahafinn Friedrich A. Hayek í lauslegri þýðingu undirritaðs, er að varpa ljósi á hversu lítið menn vita í raun um það sem þeir ímynda sér að geta hannað. Orðunum var beint til stjórnmálamanna og embættismanna sem eru sannfærðir um að þeir geti beitt ríkisvaldinu til að leysa hvers kyns vandamál sem koma upp í efnahagslífinu. Þeir hafa ofurtrú á eigin þekkingu og getu til að handstýra hagkerfinu í rétta átt. Sumir þeirra vita kannski betur en reiða sig á að skammtímaáhrif inngripa afli þeim vinsælda. Þeir þurfa jú sjaldan að svara fyrir dulin og ófyrirséð áhrif í framtíðinni.

Þessi löngun til að móta efnahagslífið eftir eigin höfði sést glögglega í orðum og embættisverkum Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra viðskipta og menningar. Fyrr á þessu ári steig ráðherra fram til að hvetja viðskiptabankana til að nota meintan „ofurhagnað“ til að greiða niður vexti fólksins í landinu. Ef bankarnir fyndu ekki lausn á þessu, sagði Lilja, ættu stjórnvöld að endurvekja bankaskattinn.

Ekki var um neinn ofurhagnað að ræða eins og vandlega var rakið í kjölfarið. Afkoma bankanna litaðist meðal annars af því að þeir færðu til baka virðisrýrnun á lánasöfnum þegar í ljós kom að þeir höfðu ofmetið útlánatöp vegna heimsfaraldursins. Miklar verðhækkanir á hlutabréfamarkaði í fyrra skiluðu bönkunum töluverðum þóknanatekjum en ljóst er að þær verða mun minni í ár.

En öllu verra væri ef ráðherra myndi draga þá ályktun að setja þyrfti meiri kvaðir á bankakerfið til koma arðsemi þeirra í „eðlilegt“ horf

Þar að auki hefði ráðherra gert heimilum landsins óleik með því að hækka bankaskattinn enda leggst skatturinn á bæði sparifjáreigendur og lántakendur í formi hærri vaxta. En það sem Lilja, menntaður hagfræðingur, hefur líklega veðjað á eru hughrif kjósenda. Við fyrstu heyrn kann að hljóma vel að útdeila „ofurhagnaði“ banka til heimila. Hann er stór og áþreifanleg upphæð en áhrif bankaskattsins á vaxtakjör eru óljós og dreifast á marga.

Hvað bankakerfið varðar hefur ráðherra ekki lokið sér af. Hann ætlar að skipa vinnuhóp um greiningu á arðsemi íslensku bankanna og mun hópurinn einkum bera þjónustu og þóknanatekjur bankanna saman við sambærilegar tekjur banka á hinum Norðurlöndunum. Þannig mun heill starfshópur verja mörgum mánuðum í samanburð sem ætti að taka nokkra daga af verkefnalýsingunni að dæma.

En öllu verra væri ef ráðherra myndi draga þá ályktun að setja þyrfti meiri kvaðir á bankakerfið til koma arðsemi þeirra í „eðlilegt“ horf. Það er líklegri niðurstaða heldur en að ráðherra geri tilraun til að einfalda regluverkið sem er stærsta hindrunin á leið nýsköpunarfyrirtækja inn á bankamarkaðinn. Sú skoðun að þungt regluverk á fjármálamarkaði sé orðið vandamál er ekki umdeildari en svo að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands hefur sagt regluverkið „flóknara en góðu hófi gegnir.“

Finna má fordæmi fyrir því að viðskiptaráðherra stingi upp á lausn sem er í engu samræmi við rót vandans. Með þeim hætti reyndi ráðherra að festa í sessi bótakerfi fyrir fjölmiðla en lét hjá líða að taka á umsvifum Ríkisútvarpsins og samfélagsmiðla sem soga til sín auglýsingatekjur frá einkareknum fjölmiðlum.

Tilraunir ráðherra til að halda verðbólgunni í skefjum með eftirliti, verðstýringu og hótunum um skattahækkanir munu reynast álíka gagnslausar.

Og þegar kemur að fyrirtækjarekstri er afskiptasemi ráðherra ekki bundin við banka og fjölmiðla. Þannig hefur Lilja boðað aukið eftirlit með verðhækkunum verslana sem rekja má til alþjóðlegra hækkana á aðfangaverði. Þá var nýlega haft eftir henni að stjórnvöld þyrftu að „skoða það alvarlega“ að setja hömlur á hækkun leiguverðs. Tilefnið var fréttaflutningur um 8,1 prósenta hækkun leiguverðs milli ára.

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að leiguverð hefur ekki hækkað að raunvirði á síðastliðnum tveimur árum. Á þessu tímabili hefur leiga hækkað um 9 prósent á meðan laun hafa hækkað um 17 prósent. Eins og með ofurhagnað bankanna var vandinn stórlega ýktur og lausnin ekki líkleg til að bæta stöðuna. Skaðsemi leiguþaks, sérstaklega neikvæð áhrif á nýframkvæmdir íbúðarhúsnæðis, er engin frjálshyggjukredda heldur viðtekin skoðun á meðal hagfræðinga.

Xerxes Persakonungur er sagður hafa skipað hermönnum sínum að hýða hafið þrjú hundruð sinnum þegar það grandaði tveimur bryggjum sem herinn hafði smíðað. Tilraunir ráðherra til að halda verðbólgunni í skefjum með eftirliti, verðstýringu og hótunum um skattahækkanir munu reynast álíka gagnslausar.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á InnherjaAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.