Viðskipti innlent

Halli á við­skipta­jöfnuði jókst milli ára

Árni Sæberg skrifar
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri en bankinn birti svarta skýrslu um viðskiptajöfnuð í dag.
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri en bankinn birti svarta skýrslu um viðskiptajöfnuð í dag. Vísir/Vilhelm

Rúmlega fimmtíu milljarða króna halli á viðskiptajöfnuði við útlönd var á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það er um 27 milljarða króna verri niðurstaða en á sama ársfjórðungi í fyrra.

Um er að ræða tæplega sex milljarða króna verri niðurstaða en á síðasta ársfjórðungi. Halli á vöruskiptajöfnuði var 20 milljarðar króna og 5,4 milljarðar króna af þjónustujöfnuði. Halli á frumþáttatekjum nam 15,8 milljörðum króna og 9,1 milljarðar króna á rekstrarframlögum.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2022 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Þar segir að lakari niðurstaða skýrist að mestu leyti af lakari niðurstöðu frumþáttatekna upp á tæpa 29 milljarða sem skýrast aðallega af bættri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. 

Þá voru vöruviðskipti lakari um sem nemur 400 milljónum króna, rekstrarframlög um einum milljarði króna verri. Halli á þjónustuviðskiptum var tæplega þremur milljörðum króna minni.

Hrein staða við útlönd versnaði um 214 milljarða króna

Í lok fyrsta ársfjórðungs 2022 var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.076 milljarða króna eða um 32 prósent af vergri landsframleiðslu. Staðan versnaði um 214 milljarða króna eða 6,4 prósent af vergri landsframleiðslu á milli ára.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.807 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.730 milljarðar króna. Á fjórðungnum lækkaði staðan um 38 milljarðar króna vegna fjármagnsviðskipta en erlendar eignir lækkuðu um 19 milljarða króna vegna þeirra og skuldir hækkuðu um 51 milljarð króna.

Vegna gengis- og verðbreytinga lækkaði virði eigna þjóðarbúsins um ríflega þrjú hundruð milljarða króna og skuldir um 116 milljarða króna. Gengis- og verðbreytingar leiddu því til lakari stöðu sem nemur 186 milljörðum króna.

Verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um 5,6 prósent milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 4,9 prósent. Gengi krónunnar hækkaði um 3,2 prósent miðað við gengisskráningarvog.

Nánari upplýsingar má lesa hér.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.