Innherji

Vægi erlendra eigna stóru sjóðanna minnkaði mikið á fyrsta ársfjórðungi

Hörður Ægisson skrifar
Vægi eigna í erlendri mynt sem hlutfall af heildareignum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, sem var tæplega 45 prósent í árslok 2021, er núna komið undir 41 prósent.
Vægi eigna í erlendri mynt sem hlutfall af heildareignum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, sem var tæplega 45 prósent í árslok 2021, er núna komið undir 41 prósent. Foto: Hanna Andrésdóttir

Eftir að hafa aukist nánast stöðugt undanfarin misseri og ár þá minnkaði hlutfall erlendra eigna stærstu lífeyrissjóða landsins verulega á fyrstu þremur mánuðum ársins samhliða gengisstyrkingu krónunnar og miklum verðlækkunum bæði hlutabréfa og skuldabréfa á erlendum mörkuðum.

Erlendar eignir samtryggingardeilda fjögurra stærstu lífeyrissjóðanna – LSR, LIVE, Gildi og Birtu – minnkuðu þannig um liðlega 170 milljarða króna á fyrsta fjórðungi þessa árs og námu um 1.447 milljörðum króna í lok mars. Vægi slíkra eigna sem hlutfall af heildareignum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, sem var tæplega 45 prósent í árslok 2021, er þannig núna komið undir 41 prósent og í tilfelli LSR er það orðið lægra en 40 prósent.

Verulega hefur dregið úr ásókn Gildis, þriðja stærsta lífeyrissjóði landsins, í erlendar fjárfestingar að undanförnu og hefur hlutfall slíkra eigna farið stöðugt minnkandi hjá sjóðnum. Vægi erlendra eigna Gildis stendur núna í rúmlega 32 prósentum og hefur ekki verið lægra í fjögur ár.

Þetta má lesa út nýjum tölum frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands en hlutfall erlendra eigna þessara helstu lífeyrissjóða landsins, sem samanlagt fara með um tvo þriðju allra eigna lífeyrissjóðakerfisins, er núna komið á svipaðar slóðir og við upphaf faraldursins á árinu 2020.

Lögbundið hámark kveður á um að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna megi ekki vera meiri en sem nemur helmingi af heildareignum þeirra.

Þessi snarpa lækkun á eignum sjóðanna í erlendum gjaldmiðlum má einkum rekja til þess umróts sem hefur verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Helstu vísitölur – bæði hlutabréfa og skuldabréfa – féllu mikið á fyrstu þremur mánuðum ársins en MSCI heimshlutabréfavísitalan, svo dæmi sé tekið, lækkaði um nærri 5,4 prósent á tímabilinu. Þá hélt gengi krónunnar áfram að styrkjast í upphafi ársins og hækkaði gengisvísitalan gagnvart myntum helstu viðskiptalanda Íslands um liðlega þrjú prósent á fyrsta ársfjórðungi. Þegar gengi krónunnar styrkist þá þýðir að öðru óbreyttu að eignir lífeyrissjóðanna í erlendri mynt lækka að sama skapi í krónum talið.

Þá hefur dregið úr gjaldeyriskaupum lífeyrissjóðanna frá því sem var fyrir faraldurinn. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans kom fram að hrein gjaldeyriskaup þeirra hefðu numið um 14,6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, sem er minna en hefur verið áður, og vísað til þess að hlutfall erlendra eigna sjóðanna hafi verið búið að hækka mikið og hluti sjóðanna að nálgast fjárfestingarmarkmið sín um vægi erlendra eigna.

Fyrr á þessu ári kynnti Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra frumvarpsdrög þar sem lag var til að lögbundið hámark erlendra eigna sjóðanna yrði fært úr því að vera að hámarki 50 prósent af heildareignum upp í 65 prósent. Á sú breyting að taka gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038, en frumvarpið byggði á skýrslu sem Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, gerði en hann var fenginn til að greina hvaða leiðir væru helst færar til að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.

Forsvarsmenn sumra af stærstu sjóðunum gagnrýndu hins vegar í kjölfarið að ekki væri gengið lengra í þeim efnum og framkvæmdastjóri LSR kallaði eftir því að fjárfestingarþakið verði hækkað „hraðar og meira.“ Lífeyrissjóðirnir hafa í nokkurn tíma sagt nauðsynlegt að hækka þakið sem sé orðið íþyngjandi fyrir sjóðina sem hafa síaukna fjárfestingarþörf – hún er talin vera nettó yfir 400 milljarðar í ár – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu á íslenskum fjármagnsmarkaði.

Í breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu í síðasta mánuði var að hluta komið til móts við þessa gagnrýni lífeyrissjóðanna þannig að núna er lagt til að á árunum 2024, 2025 og 2026 verði heimild sjóðanna í erlendum eignum hækkuð um 1,5 prósentustig á ári. Í árslok 2026 muni þeir því hafa heimild til að vera með allt að 54,5 prósent af eignum sínum í erlendri mynt. Eftir það mun hámarkið hins vegar hækka um eitt prósentustig á ári þar til nær 65 prósentum í ársbyrjun 2036.

Í frumvarpi fjármálaráðherra er jafnframt tillaga um að hámark fjárfestinga í erlendri mynt verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara upp fyrir þakið hverju sinni verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir það líkt og nú er. Frekari fjárfestingar sem auka gjaldmiðlaáhættuna verði þó óheimilar meðan fjárfestingar eru umfram hámark.

Með þessu móti, að sögn fjármálaráðuneytisins, er stefnt að því að lífeyrissjóðir geti betur nýtt þær heimildir sem þeir hafa til fjárfestinga í eignum í erlendum gjaldmiðlum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.