Viðskipti innlent

Banka­hvelfingin leigð út í sögufrægu húsi

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsbankinn setti húsið á sölu árið 2020 eftir að bankinn flutti útibú sitt yfir götuna í Hafnarstræti 19.
Landsbankinn setti húsið á sölu árið 2020 eftir að bankinn flutti útibú sitt yfir götuna í Hafnarstræti 19. Regus

Eitt helsta kennileiti Ísafjarðarbæjar hefur gengið í endurnýjun lífdaga og hýsir nú fjarvinnuaðstöðu með skrifstofum, fundarherbergjum og opnum vinnurýmum. Húsið sem stendur við Pólgötu 1 er frá árinu 1958 og hýsti áður útibú Landsbankans.

Leigufélagið Regus hefur staðið fyrir endurbótum á húsinu og opnaði þar nýverið vinnuaðstöðu fyrir allt að þrjátíu manns. 

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að reynt hafi verið að gera sögu hússins hátt undir höfði og eitt fundarherbergjanna sé til að mynda að finna í gömlu bankahvelfingunni. Þá vísi nafn nýja útibúsins, Regus Bank Ísafirði, til fyrra hlutverks þess. Bárður Ísleifsson er arkitekt hússins en byggt var á teikningum Guðjóns Samúelssonar.

Eitt fundarherbergjanna er í gömlu bankahvelfingunni.Regus

Hyggjast opna fleiri stöðvar um allt land

Tómasar Ragnarz, eigandi Regus á Íslandi, segir það byggðamál að tryggja góðar vinnuaðstæður á landsbyggðinni svo fólk geti sinnt störfum án staðsetningar. Opnunin á Ísafirði sé í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að opna fjarvinnustöðvar um allt land á næstu misserum en nýlega opnaði Regus útibú í Borgarnesi.

„Við erum þakklát fyrir móttökurnar á Ísafirði sem hafa verið framar okkar björtustu vonum. Það er mikill heiður að fá að nýta þetta sögufræga hús og við getum stolt sagt að þar sé nú að finna glæsilegustu skrifstofu á Vestfjörðum – og þó víðar væri leitað,“ segir Tómas í tilkynningu.

Hann bætir við að það sé byggða-, lífsgæða- og umhverfismál að fólk geti starfað í góðu umhverfi hvar sem það vilji og sömuleiðis í takti við núverandi þróun atvinnumála á heimsvísu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.