Viðskipti innlent

Verðbólga átta prósent á þessu ári og sex prósent stýrivextir

Eiður Þór Árnason skrifar
Hagfræðideild Landsbankans segir almennt bjarta tíma fram undan. 
Hagfræðideild Landsbankans segir almennt bjarta tíma fram undan.  Vísir/Vilhelm

Verðbólga mun ná hámarki í haust þegar hún verður rúmlega 8% en lækka síðan aftur, ef marka má nýja hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Þá muni stýrivextir halda áfram að hækka og ná 6% í lok þessa árs. Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði töluverður og atvinnuleysi haldi áfram að minnka samhliða því.

Hagfræðideildin spáir 1,5 milljónum erlendra ferðamanna í ár, 2 milljónum á næsta ári og um 2,4 milljónum árið 2024, sem yrðu fleiri en nokkru sinni fyrr. Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 5,1% á þessu ári.

Því er spáð að íbúðaverð hafi náð nokkurs konar þolmörkum og nú megi búast við hægari vexti. Í hagspánni er gert ráð fyrir 20% hækkun í ár, milli ársmeðaltala, 8% á næsta ári og 4% árið 2024. 

Hagspá hagfræðideildar Landsbankans kemur degi á eftir Þjóðhagsspá Íslandsbanka en þar segir að útlit sé fyrir 7,6% verðbólgu í ár og 5 til 6% stýrivöxtum í lok ársins. 

Stýrivextir 6% í árslok og 5,5% í lok næsta árs

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að stýrivextir nái hámarki í árslok og að bera fari á vaxtalækkunum á næsta ári. Stýrivextir verði þá 5,5% við árslok 2023 og 4% í lok árs 2024.

Fram kemur í hagspánni að verðbólgan muni ná hámarki á þriðja ársfjórðungi þessa árs og verða yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans út árið 2024. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 7,4% í ár, 5,8% á næsta ári og 4% árið 2024.

Að sögn Hagfræðideildar Landsbankans er útlit fyrir að það muni draga úr atvinnuleysi eftir því sem líður á árið en útlit sé fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 4,5% á þessu ári, lækki í 4,2% á næsta ári og verði 3,9% árið 2024.

Útlitið bjart

Gert er ráð fyrir útflutningur aukist um 19,4%, einkaneysla um 3,5% og heildarfjármunamyndun um 6,2%. Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin, 3,7% á næsta ári og 2,8% árið 2024.

Þá spáir hagfræðideildin því að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um að meðaltali 0,7% af landsframleiðslu út árið 2024.

„Almennt má segja að útlitið sé bjart. Við spáum því að hagvöxtur verði 5,1% í ár, sem er nokkuð meiri vöxtur en í fyrra, og að hann verði drifinn áfram af fjölgun ferðamanna. Við gerum ráð fyrir að á þessu ári komi 1,5 milljón ferðamanna til landsins og að þeim fjölgi í 2,4 milljónir árið 2024 – sem yrði metfjöldi á einu ári,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans í tilkynningu.

„Við gerum ráð fyrir að Seðlabankinn muni bregðast við meiri og þrálátari verðbólgu með því að hækka vexti verulega, eða upp í 6%, áður en hægt verður að lækka vexti á nýjan leik. Það flækir stöðuna talsvert að kjarasamningar eru lausir, á sama tíma og verðbólgudraugurinn herjar á landann. Við gerum ráð fyrir kaupmáttur vaxi hægt til ársins 2024.“


Tengdar fréttir

Heimilin ættu að búa sig undir aukna verðbólgu og hærri vexti

Heimilin í landinu ættu að búa sig undir að meginvextir Seðlabankans hækki í allt að sex prósent fyrir árslok að mati Greiningar Íslandsbanka. Ástæða sé til að hafa áhyggjur af innfluttri verðbólgu en húsnæðismarkaðurinn komist vonandi í jafnvægi á næsta ári.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×